Einkavæðing. Setninga laga um sölu ríkisins á eignarhlutum í félögum. Endurskoðun verklagsreglna. Stjórnsýsla.

(Mál nr. 5520/2008 - Fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis til forsætisráðherra.)

Umboðsmaður Alþingis ritaði forsætisráðherra bréf, dags. 31. desember 2010, þar sem hann óskaði eftir að verða upplýstur um hvort það væri enn afstaða forsætisráðuneytisins, sbr. bréf ráðuneytisins til umboðsmanns, dags. 9. janúar 2009, að ekki stæðu efni til þess að svo stöddu að setja nánari ákvæði í lög um sölu ríkisins á eignarhlutum í þeim fyrirtækjum og félögum sem það ætti eða kynni að eignast, svo sem um málsmeðferð, sölufyrirkomulag og skilyrði gagnvart kaupendum, endurskoða verklagsreglur um einkavæðingu ríkisfyrirtækja eða fylgja eftir tillögum starfshóps um endurskoðun þeirra. Í bréfinu tók umboðsmaður fram að frá því að ráðuneytið ritaði honum framangreint bréf, dags. 9. janúar 2009, hefði ríkinu hlotnast eignarhlutur í einkafyrirtækjum, þ. á m. fjármálafyrirtækjum svo sem sparisjóðum, í framhaldi af uppgjöri skulda þessara fyrirtækja. Hann minnti einnig á í tengslum við fyrirspurn sína að í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins til hans segði að kæmi til einkavæðingar ríkisfyrirtækja mætti búast við því að tillögur starfshóps um endurskoðun verklagsreglna um útboð og sölu ríkiseigna yrðu teknar til athugunar á ný.

Bréf umboðsmanns Alþingis til forsætisráðherra, dags. 31. desember 2010 hljóðar svo í heild sinni:

I.

Ég vísa til fyrri bréfaskipta við forvera yðar í starfi um mál er lúta að framkvæmd laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., endurskoðun verklagsreglna um útboð og sölu ríkisfyrirtækja o.fl.

Aðdragandi máls þessa er sá að hinn 28. október 2008 átti ég fund með fulltrúum ráðuneytis yðar, viðskiptaráðuneytisins og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Fundurinn var haldinn af beiðni minni þar sem ég taldi nauðsynlegt að koma á framfæri við fulltrúa stjórnvalda áhyggjum sem ég hefði vegna stjórnsýslu við framkvæmd laga nr. 125/2008. Á fundinum fór ég yfir og afhenti minnisblað sem ég hafði tekið saman þar sem sérstaklega var fjallað um 12 tölusetta liði. Þar var í upphafi vísað til fimm efnisatriða og reglna af vettvangi stjórnsýsluréttarins sem væru í reynd samnefnari fyrir þær áhyggjur sem ég hefði. Þess reglur voru: Málefnaleg og forsvaranleg stjórnsýsla, hæfisreglur, jafnræðisreglur, rannsóknarreglan og skaðabótaskylda ríkisins. Með bréfi mínu til forvera yðar í starfi, dags. 24. nóvember 2008, óskaði ég eftir upplýsingum hvort ábendingar mínar á fundinum 28. október 2008 hefðu orðið tilefni til viðbragða og þá hverra af hálfu stjórnvalda.

Í bréfi mínu, dags. 24. nóvember 2008, óskaði ég jafnframt eftir upplýsingum frá ráðuneyti yðar um hver væri staðan í starfi þess starfshóps sem mér var tilkynnt um með bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 18. október 2005, að ráðuneytið hefði ákveðið, á grundvelli samþykktar í ríkisstjórn, að skipa með fulltrúum forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sem gerðu, að höfðu samráði við framkvæmdarnefnd um einkavæðingu, tillögur um hvort rétt væri að endurskoða verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja frá 1996 í ljósi reynslunnar og eftir atvikum lögfesta þýðingarmestu reglurnar um sölu ríkiseigna sem gildandi reglur tækju til.

Mér barst svar ráðuneytis yðar með bréfi, dags. 2. desember 2008. Í bréfinu var fjallað um þá tólf tölusetta liði sem ég hafði gert að umfjöllunarefni í bréfi mínu, dags. 24. nóvember s.á. Meðfylgjandi bréfinu var skýrsla starfshóps um endurskoðun verklagsreglna um útboð og sölu ríkisfyrirtækja frá því í mars 2007. Í umræddri skýrslu kom m.a. fram að það væri niðurstaða starfshópsins að ekki þyrfti að breyta lögum eða lögfesta sérstaklega meginreglur um sölu ríkiseigna. Hins vegar gerði starfshópurinn tillögur að breytingum á verklagsreglum um útboð og sölu ríkisfyrirtækja sem samþykktar voru í ríkisstjórn í febrúar 1996.

Í bréfi mínu til ráðuneytis yðar, dags. 3. desember 2008, óskaði ég eftir því að ráðuneyti yðar upplýsti mig um hvort tekin hefði verið afstaða til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar eða ráðuneytisins hvernig bregðast ætti við tillögum starfshópsins, og ef svo væri hvort niðurstaða þar um lægi fyrir.

Umboðsmanni Alþingis barst svar ráðuneytis yðar, dags. 9. janúar 2009. Þar kemur fram að skýrsla starfshópsins hefði ekki verið rædd sérstaklega á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Hins vegar teldi ráðuneytið að ekki væru efni til þess að svo stöddu að fylgja tillögum starfshópsins eftir. Einkavæðing ríkisfyrirtækja væri ekki á döfinni um þessar mundir og engin áform um slíkt væru í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar. Yrði breyting þar á mætti gera ráð fyrir að tillögurnar væru teknar til athugunar að nýju. Þá kom fram að ég hefði borið fram fyrirspurn um ofangreint í samhengi við aðgerðir stjórnvalda til lausnar yfirstandandi banka- og efnahagskreppu. Vissulega væri rétt að bankar sem áður höfðu verið einkavæddir væru nú að hluta til komnir aftur í eigu ríkisins. Engar ákvarðanir hefðu hins vegar verið teknar um að losa um eignarhald ríkisins á nýju bönkunum. Sú umræða sem hefði átt sér stað um þetta efni fyrir nokkrum vikum hefði miðast við að slík sala gæti verið hluti af lausn mála gagnvart kröfuhöfum gömlu bankanna. Samahengið hefði því verið annað heldur en þegar um hefðbundna einkavæðingu væri að ræða.

II.

Frá því að framangreind bréfaskipti áttu sér stað hefur ríkinu hlotnast eignarhlutur í einkafyrirtækjum, þ. á m. fjármálafyrirtækjum svo sem sparisjóðum, í framhaldi af uppgjöri skulda þessara fyrirtækja. Umboðsmanni Alþingis hafa borist ábendingar og kvörtun um meðferð og ráðstöfun stjórnvalda á þessum eignarhlutum sínum. Í tilviki þeirrar kvörtunar sem mér hefur borist hefur Seðlabanki Íslands farið með eignarhlut ríkisins í vátryggingafélagi og fært hann yfir í einkahlutafélag. Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á til hliðsjónar að samkvæmt i-lið 4. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, er það verkefni þeirrar stofnunar að gera tillögur til fjármálaráðherra um hvort og hvenær tilteknir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum verði boðnir til sölu á almennum markaði með hliðsjón af markmiðum stofnunarinnar, sbr. 3. mgr. 1. gr., og í samræmi við gildandi lög og markmið um dreifða eignaraðild.

Af þessu tilefni og áður en ég tek frekari ákvarðarnir um lyktir framangreindrar athugunar minnar óska ég eftir því að ráðuneyti yðar upplýsi mig um, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvort það sé enn afstaða ráðuneytisins að ekki standi efni til þess að svo stöddu að setja nánari ákvæði í lög um sölu ríkisins á eignarhlutum í þeim fyrirtækjum og félögum sem það á eða kann að eignast svo sem um málsmeðferð, sölufyrirkomulag og skilyrði gagnvart kaupendum, endurskoða verklagsreglur um einkavæðingu ríkisfyrirtækja eða fylgja eftir tillögum áðurnefnds starfshóps um endurskoðun þeirra. Ég minni í þessu sambandi á að í bréfi ráðuneytisins, dags. 9. janúar 2009, segir að komi til einkavæðingar ríkisfyrirtækja megi búast við því að tillögur starfshóps um endurskoðun verklagsreglna um útboð og sölu ríkiseigna verði teknar til athugunar á ný.

Ég óska þess að svar berist mér eigi síðar en 21. janúar nk.