Opinberir starfsmenn. Jafnræði. Laun. Fyrirspurn.

(Mál nr. 6376/2011 - Fyrirspurnarbréf Umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðherra)

Umboðsmaður Alþingis ritaði fjármálaráðherra bréf, dags. 28. mars 2011, þar sem hann rakti að sér hefðu borist ábendingar um að framkvæmd launalækkana ríkisstarfsmanna, sem fram fóru í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 18. ágúst 2009, hefðu verið með mismunandi hætti milli einstakra ríkisstofnana og að dæmi væru um að ekki hefði komið til þeirra hjá ákveðnum stofnunum. Í bréfinu vísaði umboðsmaður jafnframt til skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009 þar sem staðfest var að launabreytingar hefðu ekki verið gerðar hjá hluta þeirra ríkisaðila sem könnun Ríkisendurskoðunar tók til og að í nokkrum tilvikum hefði orðið misbrestur á að ákvarðanir kjararáðs um laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga í eigu ríkisins og félaga sem slík félög eiga meiri hluta í kæmu til framkvæmda hjá félögunum. Þar sem fram kom í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 18. ágúst 2009 að fjármálaráðuneytið myndi leiða verkefni það sem samþykktin tók til óskaði umboðsmaður eftir tilteknum gögnum og upplýsingum frá fjármálaráðherra sem lúta að því hvort samræmis og jafnræðis hafi verið gætt gagnvart starfsmönnum ríkisins við framkvæmd launalækkana.

Bréf umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðherra, dags. 28. mars 2011, hljóðar svo í heild sinni:

Á fundi ríkisstjórnarinnar 18. ágúst 2009 voru samþykktar tilteknar tillögur fjármálaráðherra um aðgerðir til þess að draga úr launakostnaði í ríkiskerfinu. Tveir fyrstu liðir í þessum tillögum hljóðuðu svo:

„að heildarlækkun launa umfram 400 þús. á mánuði hjá starfsfólki stjórnarráðsins verði á bilinu 3-10% og að lækkun launa verði almennt meiri í ráðuneytum sem borga hærri meðallaun,

að fjármálaráðuneyti og hlutaðeigandi fagráðuneyti útfæri leiðir til að ná fram samsvarandi lækkun launa umfram 400 þús. kr á mánuði hjá stofnunum ríkisins, í samstarfi við forstöðumenn.“

Tekið er fram í samþykktinni að fjármálaráðuneytið muni leiða verkefnið og vera í góðu samstarfi við önnur ráðuneyti um framkvæmd þess.

Ég vek athygli á því að þær breytingar á launum einstakra starfsmanna ríkisins, þ.e. ráðuneyta og ríkisstofnana, sem þarna var kveðið á um voru almennt ekki, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, útfærðar gagnvart starfsmönnum með breytingum á kjarasamningum viðkomandi heldur einhliða eða umsömdum breytingum á einstaklingsbundnum starfskjörum, þ.e. launagreiðslum, og þá undir þeim formerkjum að verið væri að fylgja samræmdum launabreytingum í samræmi við áðurnefnda samþykkt ríkisstjórnarinnar. Í 9.gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er mælt fyrir um rétt starfsmanna til launa fyrir störf sín. Mér hafa á síðstu misserum borist ábendingar um að framkvæmd þessara launalækkana hafi verið með nokkuð mismunandi hætti milli einstakra ríkisstofnana og þess séu dæmi um að ekki hafi komið til þeirra í ákveðnum stofnunum. Af hálfu þeirra sem leitað hafa til mín hefur verið bent á að í þessu felist mismunum milli starfsmanna ríkisins eftir því hvar þeir starfi og það þótt störf viðkomandi hafi verið talin sambærileg og áður tekið mið af því að störfin voru launuð með hliðstæðum hætti í mismunandi stofnunum. Þetta hafi hins vegar riðlast þegar laun hafi verið lækkuð hjá starfsmönnum í einni stofnun en ekki annarri. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009 er staðfest að breytingar í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar höfðu ekki verið gerðar hjá hluta þeirra ríkisaðila sem könnun Ríkisendurskoðunar tók til.

Í þessari sömu skýrslu Ríkisendurskoðunar er því jafnframt lýst að þrátt fyrir þá breytingu sem gerð var með lögum nr. 87/2009 frá 11. ágúst 2009 um að kjararáð ætti að ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga sem eru að meirihluta í eigu ríkisins og félaga sem slík félög eiga meirihluta í og kjararáð hafi í febrúar 2010 tekið ákvarðanir þar um sem gilda áttu frá 1. mars 2010 hafi í nokkrum tilvikum verið misbrestur á að þessar ákvarðanir kæmu til framkvæmda hjá félögunum. Ég minni á að áðurnefnd lagabreyting kvað á um að við ákvarðanir sínar skyldi kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, væru ekki hærri en föst laun forsætisráðherra eins og þau væru ákveðin samkvæmt 3. gr. laganna. Áður hafði kjararáði með lögum nr. 148/2008 verið gert að lækka laun þeirra sem féllu undir ákvörðunarvald ráðsins.

Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997 er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Tekið er fram að umboðsmaður skuli sérstaklega gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilteknar siðareglur sem mælt er fyrir um í lögunum. Ég vek í þessu sambandi athygli á því að þegar kemur að einhliða og/eða samræmdum ákvörðunum forstöðumanna eða sérskipaðra aðila eins og kjararáðs um breytingar á launagreiðslum til starfsmanna ríkisins eru þeir sem slíkir í stöðu borgara gagnvart stjórnvöldum landsins samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis. Stjórnvöldum ber í störfum sínum að fylgja jafnræðisreglum og gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sjá m.a. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Innan stjórnsýslunnar getur reynt á jafnræðisreglur við töku ákvarðana og við framkvæmd starfa hennar almennt og eftirlitsskyldur.

Af ofangreindu tilefni og með tilliti til þess verkefnis sem mér er sem umboðsmanni Alþingis ætlað að rækja um eftirlit með því að þess sé gætt að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni hef ég ákveðið að óska eftir eftirfarandi upplýsingum frá yður, hr. fjármálaráðherra, með það í huga að taka ákvörðun um hvort tilefni er til þess að ég fjalli um ofangreint málefni að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997. Ástæða þess að ég beini þessari fyrirspurn til yðar er að í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 18. ágúst 2009 var tekið fram að fjármálaráðuneytið muni leiða það verkefni sem samþykktin hljóðaði um auk þess sem ráðuneyti yðar fer samkvæmt 7. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 177/2007, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum, með launamál starfsmanna ríkis og réttindi þeirra og skyldur og 2. tölul. sömu greinar með mál er varða fyrirsvar vegna eigna ríkisins, þ.m.t. hlutabréf, að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru nema lagt sé til annars ráðuneytis. Í samræmi við framangreint óska ég eftir að mér verði látnar í té upplýsingar og um gögn um eftirfarandi:

1. Hvernig þess hafi verið gætt af hálfu fjármálaráðuneytisins að samræmis og jafnræðis væri gætt gagnvart starfsmönnum ríkisins við framkvæmd þeirrar lækkunar launa sem um var fjallað í fyrstu tveimur liðum samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 18. ágúst 2009 bæði að því er varðar breytingar á launum starfsmanna og að þessar launabreytingar kæmu með sambærilegum hætti til framkvæmda hjá stofnunum ríkisins þannig að skilyrði jafnræðisreglna væru uppfyllt.

2. Afrit af þeim bréfum og öðrum gögnum sem ráðuneytið kann að hafa útbúið og afhent öðrum ráðuneytum og stofnunum til að koma þessum launabreytingum í framkvæmd og tryggja samræmi í ákvörðunum um þær.

3. Upplýsingar sem ráðuneytið hefur aflað og tekið saman um hvernig ofangreindar launabreytingar hafa komið til framkvæmda hjá ráðuneytum og einstökum stofnunum, þ.m.t. hvenær og í hverju þær voru fólgnar.

4. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um hver hafi verið viðbrögð gagnvart þeim stofnunum ríkisins, þ.m.t. ráðuneytum, ef ofangreindum launabreytingum var ekki komið í framkvæmd eða ekki gætt samræmis og jafnræðis að mati ráðuneytisins við framkvæmd þeirra.

5. Að því er varðar framkvæmd á ákvörðunum kjararáðs um breytingar á launum framkvæmdastjóra hlutafélaga í eigu ríkisins óska ég eftir upplýsingum um hvernig ráðuneytið hafi fylgst með því að þær kæmu til framkvæmda miðað við gildistöku þeirra samkvæmt ákvörðunum kjararáðs og þá þannig að samræmis og jafnræðis væri gætt milli þeirra sem heyra lögum samkvæmt undir kjararáð.

Það er ósk mín að svar við bréfi þessu og umbeðin gögn verði send mér eigi síðar en 15. apríl nk.