Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Fyrirspurn.

(Mál nr. 6385/2011 - Fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðherra)

Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun um viðbrögð og afgreiðslu fjármálaráðuneytisins á beiðnum fjölmiðla um afhendingu á upplýsingum um kostnað íslenska ríkisins vegna samninganefndar um Icesave-samninginn ritaði umboðsmaður Alþingis fjármálaráðherra bréf, dags. 4. apríl 2011, og óskaði þess að sér yrðu látnar í té tilteknar upplýsingar, gögn og skýringar.

Bréf umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðherra, dags. 4. apríl 2011, hljóðar svo í heild sinni:

Í tilefni af umfjöllun sem fram hefur komið í fjölmiðlum um viðbrögð og afgreiðslu fjármálaráðuneytisins á beiðnum a.m.k. tveggja fjölmiðla um afhendingu á upplýsingum um kostnað íslenska ríkisins vegna samninganefndar um þann Icesave samning sem Alþingi samþykkti hinn 22. febrúar sl. með lögum nr. 13/2011 og sérfræðikostnað henni tengdan óskar umboðsmaður Alþingis eftir að ráðuneyti yðar láti í té eftirfarandi upplýsingar, gögn og skýringar, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis:

1. Afrit af beiðnum fjölmiðla um ofangreindar upplýsingar, samskiptum ráðuneytisins við fjölmiðlana af þessu tilefni og svör sem þeim hafa verið látin í té?

2. Sé það afstaða fjármálaráðuneytisins að ofangreindar beiðnir fjölmiðlanna falli ekki undir upplýsingarétt almennings samkvæmt lögum nr. 50/1996 er óskað eftir að gerð verði grein fyrir ástæðum þess en telji ráðuneytið hins vegar að um sé að ræða beiðnir sem falli innan gildissviðs upplýsingalaga er óskað eftir að ráðuneytið skýri hvernig afgreiðsla þess á þeim hefur samrýmst 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga?

3. Í tilvitnuðum frásögnum fjölmiðla hefur verið haft eftir talsmanni fjármálaráðuneytisins að svör við beiðnum fjölmiðlanna verði ekki veitt fyrr en búið er að svara á Alþingi fyrirspurn sem þingmaður hefur beint þar til fjármálaráðherra eftir að beiðni var komin fram af hálfu a.m.k. eins fjölmiðils og er að því er virðist um hluta þeirra atriða sem áðurnefndar fyrirspurnir fjölmiðlanna beinast að. Því er lýst í frásögnum fjölmiðla að þetta sé samkvæmt vinnulagi ráðuneytisins. Óskað er eftir upplýsingum hvort rétt sé haft eftir starfsmanni ráðuneytisins um framangreind atriði og þá jafnframt á hvaða lagagrundvelli umrædd afstaða um vinnulag ráðuneytisins sé byggð og þá sérstaklega þegar í hlut á beiðni frá öðrum aðila sem komin er fram áður en fyrirspurn kemur fram á Alþingi.

4. Sé það afstaða ráðuneytisins að tilvitnaðar beiðnir fjölmiðlanna hafi ekki fallið undir upplýsingarétt almennings samkvæmt upplýsingalögum er óskað eftir að fram komi hvort ráðuneytið hafi tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að veita í tilefni af þessum beiðnum aðgang að gögnum í ríkari mæli en kveðið er á um í II. kafla upplýsingalaga, sbr. reglu 3. mgr. 3. gr. laganna.

Tekið skal fram að beiðni umboðsmanns um ofangreindar upplýsingar, gögn og skýringar er sett fram til þess að umboðsmaður geti tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að hann taki mál þetta formlega til athugunar að eigin frumkvæði samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Óskað er eftir að svar við bréfi þessu og umbeðin gögn verði send umboðmanni eigi síðar en 8. apríl nk.