Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6299/2011)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Af kvörtuninni varð ráðið að A væri ósátt við framkvæmd og niðurstöðu örorkumats tiltekins tryggingalæknis. Í samtali eiginmanns A við starfsmann umboðsmanns kom fram að A væri ósátt við framkvæmd matsins hjá lækninum, sérstaklega að því er varðaði mat hans á tilteknum atriðum er sneru að heilsufari hennar. Einnig kom fram að eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp hefði A farið til annars læknis og í nýtt örorkumat hjá þriðja lækninum og hefði nú fengið örorkulífeyri.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. maí 2011. Þar tók hann fram að þegar mat stjórnvalds byggðist á læknisfræðilegum sjónarmiðum væri ljóst að umboðsmaður Alþingis væri almennt ekki í stakk búinn til að endurskoða slíkt mat efnislega. Hann taldi ljóst að niðurstaða lækna um heilsufar A hefði ekki verið samhljóða að öllu leyti og jafnframt að líta bæri til þess að niðurstaðan hefði grundvallast á þeim gögnum sem lágu fyrir um heilsu A á þeim tíma sem málið var til meðferðar. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að draga í efa að úrskurðarnefndin hefði dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins þegar hún staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um örorkulífeyri og benti á að í úrskurðarnefndinni sæti einstaklingur sem hefði menntun og þekkingu í læknisfræði. Þá taldi umboðsmaður tilteknar upplýsingar í læknisvottorði A ekki hafa gefið úrskurðarnefndinni ástæðu til að senda málið aftur til nýrrar afgreiðslu tryggingastofnunar. Það varð niðurstaða umboðsmanns að hann teldi ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga að A uppfyllti ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að endurupptaka málið ekki eftir að A lagði fram nýtt læknisvottorð heldur leiðbeina henni um að sækja að nýju um örorkubætur hjá tryggingastofnun. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar út af kvörtun A og ákvað að ljúka umfjöllun sinni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.