Börn. Forsjá, umgengni og meðlagsgreiðslur.

(Mál nr. 6445/2011)

Eftir að útilokað var með mannerfðafræðilegri rannsókn að A gæti verið faðir barnanna B og C og fallist var á það með réttarsátt við móður óskaði A eftir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiddi sér meðlög vegna barnanna. Innheimtustofnun féllst á að endurgreiða A ofgreidd meðlög vegna barnanna fjögur ár aftur í tímann. A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir því að ekki hefði verið endurgreitt vegna allra þeirra ára er hann ofgreiddi meðlagið. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2011. Þar rakti hann að lög nr. 54/1971 og reglugerð nr. 491/1996 gerðu ráð fyrir því að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga fjallaði um og afgreiddi beiðni um endurgreiðslu ofgreidds meðlags. Tiltekinn aðili hefði ritaði undir bréf Innheimtustofnunar sveitarfélaga þar sem fallist var á endurgreiðslu fjögur ár aftur í tímann en af bréfinu varð ekki ráðið hvort stjórn stofnunarinnar hefði átt aðkomu að ákvörðuninni og þá hverja. Í ljósi þeirra sjónarmiða er búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera erindi sitt formlega undir stjórn stofnunarinnar til afgreiðslu og úrskurðar áður en hann tæki málið til umfjöllunar. Umboðsmaður taldi að svo stöddu ekki skilyrði til þess að fjalla frekar um erindi A og lauk umfjöllun sinni um það, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður tók þó fram að teldi A enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu stjórnarinnar ætti hann þann kost að leita til sín á ný.