Félagsþjónusta sveitarfélaga.

(Mál nr. 6338/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun félagsmálaráðs sveitarfélagsins X um að synja beiðni hennar um heimgreiðslur að hluta. Umboðsmaður taldi rétt að afla nánari upplýsinga um nokkur atriði hjá sveitarfélaginu og þá fyrst og fremst vegna þeirrar afstöðu þess að ekki væri unnt að kæra ákvörðunina til annars stjórnvalds. Með hliðsjón af svarbréfi sveitarfélagsins lauk umboðsmaður málinu með bréfi, dags. 17. maí 2011. Þar taldi hann rétt að A freistaði þess að leita eftir afstöðu innanríkisráðuneytisins til álitaefna í máli sínu, sbr. 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en að fenginni afstöðu ráðuneytisins væri henni að sjálfsögðu heimilt að leita til sín á ný væri hún enn ósátt. Með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lauk umboðsmaður athugun sinni á kvörtun A.