Fjármála- og tryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlit.

(Mál nr. 6400/2011 og 6401/2011)

B, lögmaður, kvartaði f.h. A hf. yfir beiðni Fjármálaeftirlitsins um afhendingu afrita af tölvubréfum tiltekinna stjórnenda A. (Mál nr. 6400). Hann kvartaði einnig f.h. lífeyrissjóðsins C og D, framkvæmdastjóra hans, yfir beiðni Fjármálaeftirlitsins um afhendingu afrita af tölvubréfum framkvæmdastjórans (mál nr. 6401). Beiðnirnar voru lagðar fram í kjölfar vettvangsathugana hjá fyrirtækjunum í tilefni af athugun á stjórnarháttum A hf. Starfsmaður A hf. fór m.a. á fram að Fjármálaeftirlitið kæmi gögnum úr tölvupósti hans í innsigluðum umbúðum þegar í varðveislu til óháðs aðila. C fór fram á að Fjármálaeftirlitið skilaði þá þegar öllum afritum sem það hefði tekið af tölvubréfum hjá lífeyrissjóðnum og að stofnunin lýsti því yfir að hún héldi ekki eftir neinum afritum af tölvubréfunum. Í svarbréfum Fjármálaeftirlitsins kom m.a. fram að stofnunin væri tilbúin til þess, að lokinni athugun sinni, að afla heimildar Þjóðskjalasafns Íslands til að eyða persónulegum tölvubréfum starfsmanna í samræmi við lög nr. 66/1985. Slíkt yrði þó eingöngu gert að beiðni viðkomandi starfsmanns og á hans kostnað. B taldi Fjármálaeftirlitið hafa brotið gegn A, C og D með háttsemi sinni, „m.a. brotið gegn meðalhófsreglu og andmælareglu stjórnsýsluréttarins, gegn reglum um friðhelgi einkalífs og gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000“. Í samræmi við samtal starfsmanns umboðsmanns við B ákvað umboðsmaður að fjalla um kvartanirnar í einu lagi.

Umboðsmaður lauk málunum með bréfi, dags. 27. maí 2011. Þar rakti hann að lög gerðu ráð fyrir afar víðtækum heimildum Fjármálaeftirlitsins til að óska eftir hvers konar upplýsingum og gögnum sem það teldi nauðsynleg. Af 1. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 yrði ráðið að heimildin næði til allra þeirra upplýsinga og gagna er Fjármálaeftirlitið teldi nauðsynleg, að undanskildum upplýsingum sem lögmaður öðlaðist við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál. Þá gerðu lög ráð fyrir ákveðinni málsmeðferð vildu aðilar ekki una ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins. Af gögnum málanna yrði ekki annað ráðið en að Fjármálaeftirlitið hefði við meðferð mála umbjóðenda B farið að lögum nr. 87/1998, lögum nr. 161/2002 og lögum nr. 129/1997 og fylgt þeim málsmeðferðarreglum sem þau lög kvæðu á um. Að því virtu og eins og ákvæði umræddra lagabálka voru úr garði gerð taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til athugasemda við málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins í málunum og lauk umfjöllun sinni um þennan hluta kvartana B, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til tiltekinna ákvæða laga nr. 77/2000 og þeirra sjónarmiða er byggju að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og þá með tilliti til þess samspils sem þarna kynni að reyna á á milli laga nr. 77/2000 og laga nr. 87/1998 taldi umboðsmaður rétt að afstaða Persónuverndar, sem sérstaks eftirlitsaðila, lægi fyrir áður en hann tæki þann hluta kvartana B til frekari athugunar er sneru að meintum brotum á lögum nr. 77/2000 og að því að Fjármálaeftirlitið hefði sett það skilyrði fyrir eyðingu persónulegra tölvubréfa starfsmanna A hf. og C að viðkomandi starfsmenn bæru kostnað af vinnu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Umboðsmaður taldi að svo stöddu ekki skilyrði til að fjalla frekar um þessa hluta erinda B og lauk umfjöllun sinni um þá, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hann tók þó fram að teldu umbjóðendur B enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu Persónuverndar ættu þeir þann kost að leita til sín á ný.