Hagskýrslugerð o.þ.h.

(Mál nr. 6418/2011)

A kvartaði yfir því Hagstofa Íslands hafi endurreiknað og endurbirt tímaröð vísitölu byggingarkostnaðar 13 mánuði aftur í tímann í tilefni af því að kerfisvilla fannst í útreikningi vísitölunnar. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. maí 2011. Þar taldi hann sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það opinbert stjórnvald upplýsti almenning um mistök eins og þau sem um ræddi. Þar sem byggingarvísitalan væri lögð til grundvallar ýmiss konar áætlunum, samningsgerð og ákvörðunum, bæði hjá hinu opinbera og hjá einkaaðilum, væri þó ljóst að mistök við útreikning hennar kynnu að hafa veruleg áhrif á hagsmuni og væntingar einstakra aðila eða hvernig samningsaðilar brygðust við í tilefni af leiðréttingum sem gerðar væru á útreikningi vísitölunnar. Slíkt yrði að meta í hverju tilviki fyrir sig og réðist af þeim lagareglum sem við ættu hverju sinni. Þegar ágreiningur varðaði samningsgerð einkaréttarlegra aðila félli utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um hann, sbr. 3. gr. laga nr. 85/1997, en þegar ágreiningur varðaði hins vegar ákvörðunartöku eða aðra framkvæmd stjórnvalds gæti slíkt mál komið til sinna kasta að fenginni endanlegri úrlausn þess á stjórnsýslustigi, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Að lokum tók umboðsmaður fram að ef A teldi sig hafa orðið fyrir bótaskyldu tjóni af hálfu Hagstofu Íslands vegna umræddra mistaka væri álitamál um hvort hann ætti rétt á skaðabótum úr hendi íslenska ríkisins sé þess eðlis að úr því yrði að leysa fyrir dómstólum, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður lét umfjöllun sinni um erindi A lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.