Húsnæðismál. Fjöleignarhús.

(Mál nr. 6379/2011)

A kvartaði f.h. húsfélags yfir áliti kærunefndar húsamála um ágreining þess við annað húsfélag í sama fjöleignarhúsi um hlutdeild í kostnaði vegna viðgerða á gluggum og skyggni. Kvörtunin laut að afmörkun nefndarinnar á kröfum félagsins en A taldi hana ekki í samræmi við kröfugerð húsfélagsins. Kvörtunin laut einnig túlkun kærunefndarinnar á 7. gr. laga nr. 26/1994.

Í forsendum álits kærunefndarinnar kom fram að einungis væri uppi ágreiningur um tvö atriði í málinu og því myndi kærunefndin eingöngu veita álit sitt á þeim og hefði aðlagað kröfugerð álitsbeiðandans að því. Umboðsmaður fór yfir álitið, kröfugerðina og greinargerð gagnaðilans og komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki forsendur til athugasemda við afmörkunina. Hann lauk umfjöllun sinni um hann, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. maí 2011. Þar taldi hann ekki annað verða ráðið en að ágreiningur í máli A og annarra íbúa fjöleignarhússins væri fyrst og fremst einkaréttarlegur. Eftir að hafa kynnt sér álit kærunefndar húsamála í málinu og gögn málsins fékk umboðsmaður ekki annað séð en að nefndin hefði við úrlausn á málinu farið að þeim reglum sem giltu um störf nefndarinnar. Það var því niðurstaða umboðsmanns að ekki væri tilefni til athugasemda við málsmeðferð kærunefndarinnar. Eftir að hafa kynnt sér álit kærunefndarinnar og kvörtun A var það jafnframt niðurstaða umboðsmanns að athugasemdir A um álit kærunefndarinnar vörðuðu réttarágreining sem heyrði undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi ekki lagaskilyrði til þess að taka þennan hluta kvörtunarinnar til frekari meðferðar og lauk umfjöllun sinni um hann, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.