Jafnréttismál.

(Mál nr. 6409/2011)

A kvartaði yfir því að 2. mgr. 8. gr. laga nr. 108/1999, um skráð trúfélög, færi gegn anda laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en umrætt ákvæði kveður á um það að barn skuli frá fæðingu heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess. A tók fram að hann hefði þurft, með samþykki móður, að skrá bæði börn sín úr trúfélagi sem hvorki hann né þau æsktu þess að ganga í. A taldi ákvæðið brjóta í bága við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008 um að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein sé óheimil. Af erindinu varð ekki annað ráðið en að kvörtunin lyti að því fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur ákveðið um skráningu barna í trúfélög. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2011. Þar benti hann á að í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 kæmi fram að að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Af því leiddi að umboðsmaður fjallaði almennt ekki um það hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði samþykkt, þ.m.t. hvort lög séu í andstöðu við stjórnarskrá. Umboðsmaður taldi erindi A ekki gefa tilefni til þess að taka málið til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 þar sem Alþingi hefði í lögum tekið skýra afstöðu til þess atriðis sem erindið beindist að. Umboðsmaður taldi þó rétt að benda A á að Jafnréttisstofa hefði heimild samkvæmt d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 10/2008, til að koma á framfæri við m.a. ráðherra ábendingum og tillögum um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lauk umboðsmaður athugun sinni á erindi A.