Lífeyrismál.

(Mál nr. 6396/2011)

A gegndi embættum hjá hinu opinbera til ársins 1998 en hóf eftir það störf á almennum vinnumarkaði. Hann hóf ekki töku lífeyris hjá LSR heldur hélt áfram að greiða til lífeyrissjóðsins. Frá og með árinu 1998 greiddi hann til A-deildar sjóðsins. Í maí 2010 sótti hann um að hefja töku lífeyris samkvæmt eftirmannsreglu 35. gr. laga nr. 1/1997. LSR hafnaði beiðninni og hóf greiðslur á grundvelli svokallaðrar meðaltalsreglu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, á þeim grundvelli að A hefði ekki hafið töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi sem greitt var af til B-deildar sjóðsins. A taldi að þar sem hann greiddi áfram til LSR eftir að hann lét af embætti árið 1998 hefði borið að líta svo á að hann hæfi töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi. Þá taldi hann skerðingu á lífeyrisgreiðslum til sín ólögmæta og brjóta í bága við stjórnarskrárvarin réttindi sín, sbr. 65., 72. og 76. gr. stjórnarskrár.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. maí 2011. Þar vísaði hann til ákvæða laga nr. 1/1997 og samþykkta lífeyrissjóðsins og taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu LSR. Hvað varðaði hugsanlega skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum, þá benti umboðsmaður á að kvörtun A lyti að því fyrirkomulagi sem löggjafinn hefði ákveðið að skyldi gilda á þessu sviði. Starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum, þ.m.t. hvort lög væru í andstöðu við stjórnarskrá. Umboðsmaður taldi ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að taka kvörtun A til frekari meðferðar og lauk umfjöllun sinni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.