Mannanöfn.

(Mál nr. 6217/2010)

A kvartaði yfir skorti á svörum við erindi til Þjóðskrár Íslands, dags. 18. október 2010, þar sem hún óskaði þess, ef ekki væri unnt að skrá nafn dóttur hennar, B, í þjóðskrá með tilteknum hætti, að fá skriflegt svar þar að lútandi. A var einnig ósátt við að B fengi ekki bæði eiginnöfn sín skráð réttilega í þjóðskrá.

Í svari Þjóðskrár Íslands við fyrirspurn umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindinu hefði nú verið svarað með tölvubréfi, dags. 29. apríl 2011. Þá barst umboðsmanni bréf innanríkisráðuneytisins þar sem fram kom með hvaða hætti ráðuneytið hefði brugðist við erindi umboðsmanns til ráðherra vegna máls A. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. maí 2011. Þar leit hann svo á að A hefði nú fengið leiðréttingu máls síns að því er varðaði þann hluta kvörtunarinnar sem sneri að skorti á svörum við erindi hennar og taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna þess atriðis, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þar sem ljóst var af tölvubréfi Þjóðskrár Íslands til A að beiðni hennar um að föðurnafn B, en ekki seinna eiginnafn hennar, yrði stytt í tölvukerfi stofnunarinnar hefði nú verið hafnað tók umboðsmaður fram að hann teldi rétt að hún freistaði þess að bera kvörtunarefnið undir innanríkisráðuneytið en að fengnum viðbrögðum ráðuneytisins gæti hún leitað til sín á nýjan leik væri hún enn ósátt. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lét umboðsmaður meðferð sinni á kvörtun A að þessu leyti lokið.

Umboðsmaður ákvað þó að rita Þjóðskrá Íslands bréf þar sem hann kom á framfæri tilteknum athugasemdum við stjórnsýslu stofnunarinnar í máli A. Meðal annars gerði umboðsmaður athugasemdir við að rúmir sex mánuðir hefðu liðið þar til erindi A var afgreitt með ákvörðun um að hafna beiðni hennar, án þess að séð yrði að málið hefði verið mikið umfangs eða flókið úrlausnar. Þá hefðu A ekki verið veittar skýringar á þeim drætti sem varð á afgreiðslunni eða upplýsingar um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta, svo sem skylt er samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur var A ekki leiðbeint um kæruheimild til innanríkisráðuneytisins. Umboðsmaður taldi því að skort hefði á að ákvæði 2. töluliðar 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga væri fylgt í málinu.

Í ljósi aðkomu innanríkisráðuneytisins að málinu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra sendi umboðsmaður innanríkisráðherra afrit af bréfi sínu til Þjóðskrár Íslands. Í bréfi til innanríkisráðherra vegna málsins og annarra kvartana sem beindust að Þjóðskrá Íslands lagði umboðsmaður á það áherslu að ráðuneytið fullvissaði sig um að fyrirætlanir Þjóðskrár Íslands um vandaðri starfshætti gengju eftir og gripi til frekari aðgerða ef þurfa þætti. Þá óskaði umboðsmaður þess að verða upplýstur um frekari samskipti ráðuneytisins við stofnunina vegna málsins og framvindu þeirra umbóta sem boðaðar hefðu verið í starfi stofnunarinnar. (Sjá einnig mál nr. 5997/2010 og 6295/2011)

fjöllun sinni um kvörtun A, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.