Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. 6410/2011)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem stjórnsýslukæru hans á ákvörðunum sveitarfélags um að falla frá fyrirliggjandi samningsdrögum við sig og um að taka hluta lóðar hans eignarnámi var vísað frá á þeim grundvelli að kæran væri of seint fram komin. Ákvarðanirnar voru teknar 5. desember 2007 og 14. febrúar 2008 en kæran barst ráðuneytinu 12. febrúar 2010.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. maí 2011. Þar taldi hann verða að ætla að A hefði verið tilkynnt um ákvarðanirnar stuttu eftir að þær voru teknar. Að því virtu og miðað við það tímamark er stjórnsýslukæra hans barst ráðuneytinu taldi umboðsmaður ljóst að innanríkisráðuneytinu hefði ekki verið skylt að lögum að sinna kæru A, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Upphafsdagur kærufrests hefði miðast við tilkynningu ákvörðunar, sbr. einnig 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, en ekki það tímamark þegar endanlegur dómur gekk í Hæstarétti í dómsmáli sem A hafði höfðað. Þá gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við tilvísun í tiltekin álit umboðsmanns í úrskurði ráðuneytisins. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að beina tilmælum til innanríkisráðherra um að taka mál A til meðferðar að nýju. Enn fremur taldi umboðsmaður sér ekki unnt að fjalla sérstaklega um umræddar ákvarðanir sveitarfélagsins á grundvelli kvörtunar, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Loks tók hann fram að hann teldi ekki tilefni til að hefja frumkvæðisathugun á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 á umkvörtunarefnum A og stjórnsýslu sveitarfélagsins í málinu. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast út af kvörtun A og ákvað að ljúka umfjöllun sinni um mál hans, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður ákvað þó að rita innanríkisráðuneytinu bréf þar sem hann kom á framfæri ábendingu er laut að málshraða. Í því bréfi benti umboðsmaður á að það tók ráðuneytið tæpa þrettán mánuði að afgreiða stjórnsýslukæru A en í 2. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 kæmi fram að ráðuneytið skyldi leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að því bærist mál til úrskurðar. Umboðsmaður taldi að þegar litið væri til þess að mál A hefði ekki verið mjög umfangsmikið að vexti og þess að gagnaöflun og umsagnarferli í málinu lauk í maí 2010 hefði ráðuneytið dregið afgreiðslu málsins um of á langinn. Umboðsmaður taldi miklar annir ekki geta réttlætt þann drátt sem varð á afgreiðslunni.