Sakarkostnaður.

(Mál nr. 6098/2010)

A kvartaði yfir úrskurði dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins þar sem niðurstaða Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar um að synja honum um niðurfellingu sakarkostnaðar var staðfest. Í tilefni af erindinu ritaði umboðsmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra bréf og óskaði tiltekinna upplýsinga og skýringa. Að fengnu svari dómsmála- og mannréttindaráðuneytis var ráðherra ritað á ný og frekari skýringa óskað. Erindið var ítrekað þrisvar sinnum. Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að ákveðið hefði verið að taka mál A til meðferðar að nýju. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. maí 2011. Þar leit hann því svo á að A hefði fengið leiðréttingu mála sinna hjá ráðuneytinu og taldi ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/199. Umboðsmaður tók þó fram að ef A teldi sig enn beittan rangsleitni að fenginni nýrri niðurstöðu í málinu gæti hann leitað til sín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann kom þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að leiðbeina innheimtumiðstöðinni um þá afstöðu sína að verklagsregla um að fimm ár verði að líða fá upphafi innheimtuaðgerða til að unnt sé að fella niður sakarkostnað sé ekki fortakslaus, hefði það ekki þegar verið gert. Þá gerði umboðsmaður athugasemdir við þann tíma sem það tók dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, síðar innanríkisráðuneytið, að svara fyrirspurnarbréfi sínu vegna málsins og benti á að málið varðaði fjárhagslega hagsmuni A og það gæti varðað hann miklu að niðurstaða fengist sem fyrst í það.