Skattar og gjöld. Afslættir og bætur.

(Mál nr. 6388/2011)

A kvartaði yfir íþyngjandi afturvirkum skattalagabreytingum sem voru samþykktar á Alþingi hinn 28. desember 2010 og tóku gildi 1. janúar 2011. Í kvörtuninni kom fram að um væri að ræða breytingar sem tækju til skattáranna 2010 og 2011 og yrðu til þess að A fengi litlar sem engar vaxtabætur vegna afturvirkni þeirra. Hún efaðist um að þær stæðust eignarréttarákvæði stjórnarskrár og vísaði þar til álits fræðimanna í tilefni af fyrirhuguðum lagabreytingum árið 2003.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. maí 2011. Þar benti hann á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og almennt væri ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf settri af Alþingi. Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að kvörtun A lyti eingöngu að efni lagasetningar Alþingis og taldi því að hann hefði ekki forsendur til að fjalla um kvörtunina. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að hefja frumkvæðisathugun á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 og hafði þá einkum í huga hvernig Alþingi hefði í lögum afmarkað verksvið umboðsmanns. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast út af kvörtun A og ákvað að ljúka umfjöllun sinni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.