Foreldrar og börn. Svipting forsjár. Málsmeðferð barnaverndarráðs. Umgengnisréttur foreldra við barn í fóstri. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 963/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 20. september 1994.

A og B kvörtuðu yfir þeim úrskurði barnaverndarráðs að þau skyldu svipt forsjá dóttur sinnar, C. Laut kvörtun þeirra að því að úrskurðurinn byggðist á röngum forsendum um persónulega hagi þeirra og hæfi sem uppalenda. Töldu A og B að gögn, sem barnaverndarráð byggði niðurstöðu sína á, hefðu ekki falið í sér sérstaka rannsókn á barninu og tengslum þess við foreldra. Þá kvörtuðu A og B yfir því að þau hefðu ekki fengið umrædd gögn í hendur.

Í gögnum þeim sem umboðsmanni bárust frá A og B og barnaverndarráði kom fram að málið hefði verið tekið fyrir á sex fundum ráðsins. Í úrskurði barnaverndarráðs voru talin gögn þau sem hann var byggður á og kom fram í úrskurðinum, sem og í bréfi til lögmanns þess sem fór með kærumálið fyrir A og B, að gögn hefðu verið send lögmanninum og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum skjólstæðinga sinna áður en úrskurður var upp kveðinn. Eftir athugun á gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð barnaverndarráðs eða gagnaöflun. Þá taldi umboðsmaður að ekki væri tilefni til athugasemda við úrlausn barnaverndarráðs um lagaskilyrði 25. gr. laga nr. 58/1992, um varanlega sviptingu forsjár, og varð ekki ráðið af gögnum málsins að ólögmætum eða óforsvaranlegum sjónarmiðum hefði verið beitt við úrlausn þess.

Í kæru A og B til barnaverndarráðs var sú varakrafa gerð að umgengnisréttur foreldra yrði aukinn frá því sem ákveðið var í úrskurði barnaverndarnefndar X, en þar var ákveðið að umgengni skyldi vera tvisvar á ári. Í úrskurði barnaverndarráðs var ekki fjallað um þessa varakröfu A og B. Í skýringum barnaverndarráðs til umboðsmanns kom fram að barninu hefði verið ráðstafað í fóstur er úrskurður barnaverndarráðs var kveðinn upp. Hefði barnaverndarráð því ekki talið sig hafa lagaheimild til að meta hvernig umgengni skyldi háttað þar sem barnaverndarnefnd ætti úrlausnarvald um umgengni barna í fóstri við kynforeldra sína, samkvæmt 5. mgr. 33. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Kæra mætti slíkan úrskurð barnaverndarnefndar til barnaverndarráðs. Af þessu tilefni tók umboðsmaður það fram að samkvæmt 33. gr. laga nr. 58/1992 ætti barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra sína og ættu sömu sjónarmið við eftir sviptingu forsjár og áður en barni væri komið í fóstur, nema sérstaklega væri ákveðið að umgengnisréttar nyti ekki við. Umboðsmaður féllst á það með barnaverndarráði að miðað við breyttar aðstæður barnsins hefði mátt telja það eðlilegra að ákvörðun um umgengnisrétt yrði tekin af barnaverndarnefnd, í fóstursamningi samkvæmt 31. gr. laganna eða með úrskurði samkvæmt 45. gr., sbr. 5. mgr. 33. gr. laganna. Hins vegar taldi umboðsmaður að rétt hefði verið að barnaverndarráð hefði tekið afstöðu til kröfu A og B, með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 49. gr. laganna, þ.e. með því að staðfesta, breyta eða fella úr gildi ákvörðun barnaverndarnefndar. Þar sem barnaverndarráð taldi það ekki á sínu færi að endurmeta ákvörðun barnaverndarnefndar taldi umboðsmaður að sú skylda hefði hvílt á ráðinu, samkvæmt 3. mgr. 49. gr. laganna, að vísa þeim þætti málsins á ný til barnaverndarnefndar til meðferðar og hlutast þannig til um að ákvörðun yrði tekin um umgengnisrétt C við kynforeldra sína.

I.

Hinn 14. desember 1993 leituðu til mín A og B, og kvörtuðu yfir úrskurði barnaverndarráðs frá 10. nóvember 1993, en með úrskurðinum voru þau svipt forsjá dóttur sinnar, C, sem fædd er 18. nóvember 1992. Með úrskurði barnaverndarráðs, sem byggir á a- og d-liðum 25. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, var úrskurður barnaverndarnefndar X frá 19. júlí 1993 staðfestur.

II.

Ég ritaði barnaverndarráði bréf 12. janúar 1994 og óskaði eftir því, í samræmi við 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu látin í té gögn málsins og bárust mér þau frá barnaverndarráði 19. janúar 1994. Með bréfi, dags. 15. febrúar 1994, óskaði ég eftir því, með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987, að barnaverndarráð skýrði, hvers vegna ekki væri, í úrskurði barnaverndarráðs, tekin afstaða til þeirrar varakröfu A og B, að ákvörðun barnaverndarnefndar X um umgengni þeirra við barn sitt yrði breytt. Bréf barnaverndarráðs barst mér 9. mars 1994 og sama dag gaf ég A og B kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna bréfsins. Ég ítrekaði tilmæli mín í bréfi til þeirra 27. maí 1994, og 20. júní 1994 barst mér greinargerð lögmanns þeirra, dags. 16. júní 1994.

III.

Kvörtun A og B lýtur að úrskurði barnaverndarráðs í máli til sviptingar forsjár og þá einkum að því, að byggt sé á röngum forsendum um persónulega hagi þeirra og hæfi sem uppalenda. Í greinargerð lögmanns þeirra, dags. 16. júní 1994, er á því byggt, að skilyrði a-liðar 25. gr. hafi ekki átt við, þar sem hvergi komi fram, að umönnun barnsins hafi verið ábótavant. Skilyrðið í d-lið beinist að framtíðinni og sé vandasamt túlkunaratriði, þar sem ríkar ástæður og veigamikil rök verði að vera fyrir hendi, til þess að unnt sé að beita ákvæðinu. Þá er því haldið fram, að viðbótargögn, sem barnaverndarráð hafi aflað og talin eru í úrskurði þess, hafi ekki falið í sér sérstaka rannsókn á barninu og tengslum þess við foreldra. Loks hafi A og B ekki fengið umrædd gögn í hendur. Barnaverndarráð hafi því brotið gegn ákvæðum 4. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, sbr. 4. mgr. 49. gr. laganna.

Í greinargerð lögmannsins frá 16. júní 1994 eru frekari athugasemdir gerðar við afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum A og B vegna barnsins, C. Athugasemdirnar eru þessar:

"1.

Vegna bókunar barnaverndarnefndar X 16. september 1992 um áhyggjur barnaverndarnefndar af væntanlegum barnsburði A.

Lögmaðurinn telur, að ekki hafi verið lagaheimild í barnaverndarlögum nr. 53/1966 til afskipta af barnshafandi konum, en slíkrar lagaheimildar verði að krefjast, í samræmi við 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, til afskipta af einkalífi og fjölskyldulífi fólks.

"2.

Vegna þess úrskurðar barnaverndarnefndar X 28. maí 1993, að barnið skyldi kyrrsett hjá dagmóður í allt að 2 mánuði, sbr. c-lið 24. gr. barnaverndarlaga.

Lögmaðurinn telur, að ákvæða 1. mgr. 46. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, hafi ekki verið gætt við meðferð málsins fyrir barnaverndarnefnd, þar eð B hafi ekki verið leiðbeint eða honum látin í té gögn málsins. Leiðbeiningar um aðstoð nefndarinnar við greiðslu kostnaðar vegna aðstoðar lögfræðings hafi verið látnar í té eftir uppkvaðningu úrskurðarins. Þá sé ekki ljóst, hvort móðir barnsins hafi verið boðuð til fundarins, en hún hafi verið á sjúkrahúsi, er málið var til meðferðar."

Í úrskurði barnaverndarnefndar X, dags. 28. maí 1993, er vakin athygli á því, skv. 45. gr. laga nr. 58/1992, að heimilt sé að skjóta málinu til barnaverndarráðs, og ákvæði 49. gr. um málskot rakin. Úrskurði þessum hefur ekki verið skotið til barnaverndarráðs og eru ekki skilyrði til þess, að ég fjalli um atriði, er að honum lúta, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Í áliti mínu mun ég aðeins fjalla um kvörtun A og B, að því leyti sem hún lýtur að úrskurði barnaverndarráðs frá 10. nóvember 1993.

IV.

Í niðurstöðum álits míns, dags. 20. september 1994, sagði svo:

"1. Málsmeðferð barnaverndarráðs

Ég hef kannað gögn þau, sem bárust með kvörtun A og B, og gögn, sem barnaverndarráð hefur sent samkvæmt ósk minni. Í úrskurði barnaverndarráðs kemur fram, að málið hafi verið tekið fyrir á sex fundum ráðsins, fyrst 6. september 1993, en úrskurður barnaverndarnefndar X var kærður til barnaverndarráðs með bréfi, dags. 18. ágúst 1993. Í úrskurðinum eru talin gögn þau, sem hann er byggður á, og tekið fram, að gögn hafi verið send Y, hæstaréttarlögmanni, sem fór með kærumálið fyrir A og B. Af bréfum barnaverndarráðs til lögmannsins verður þetta einnig ráðið, sem og það, að lögmanninum hafi verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við gögnin og sjónarmiðum og kröfum skjólstæðinga sinna, áður en úrskurður var upp kveðinn. Eftir athugun á gögnum málsins tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemd við meðferð þess hjá barnaverndarráði. Þá tel ég ekki tilefni til athugasemda við gagnaöflun barnaverndarráðs í málinu.

"2. Niðurstaða barnaverndarráðs

A og B hafa kvartað yfir þeirri niðurstöðu barnaverndarráðs, að þau skuli svipt forsjá barnsins C. Telja þau, að byggt sé á því að þau séu greindarskert og vanhæf til uppeldis, en það sé ekki rétt.

Málið hefur verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd X og barnaverndarráði. Ég tel ekki tilefni til athugasemda við úrlausn barnaverndarráðs um lagaskilyrði 25. gr. laga nr. 58/1992, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að beitt hafi verið ólögmætum eða óforsvaranlegum sjónarmiðum við úrlausn þess. Þá kemur fram í úrskurði barnaverndarráðs það mat þess, að óraunhæft sé að beita öðrum aðgerðum til úrbóta í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laganna, enda hafi það verið reynt til þrautar, án viðunandi árangurs.

"3. Umgengnisréttur kynforeldra

Í kæru til barnaverndarráðs var gerð sú varakrafa, að umgengnisréttur foreldra yrði aukinn frá því, sem ákveðið var í úrskurði barnaverndarnefndar, ef úrskurður barnaverndarnefndar X um sviptingu forsjár yrði staðfestur, en í þeim úrskurði var ákveðið að umgengni skyldi vera tvisvar sinnum á ári.

Í bréfi mínu til barnaverndarráðs, dags. 15. febrúar 1994, óskaði ég eftir skýringum ráðsins á því, hvers vegna ekki var tekin afstaða til varakröfu A og B. Í bréfi barnaverndarráðs, dags. 7. mars 1994, segir svo meðal annars:

"Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. [laga nr. 58/1992] skal kveðið á um umgengni með úrskurði sem skal vera skriflegur og rökstuddur sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Í 46. gr. sömu laga er kveðið á um meðferð úrskurðarmála. Ekki var fjallað um umgengni í úrskurði barnaverndarnefndarinnar með þeim lögformlega hætti sem ofangreindar lagagreinar mæla fyrir um.

Þegar Barnaverndarráð kvað upp úrskurð í málinu 10. nóvember 1993 hafði barnið verið sett í fóstur eins og fram kemur í fundargerð frá 21. október 1993. [...] Samkvæmt 5. mgr. 33. gr. laga um vernd barna og ungmenna á barnaverndarnefnd úrlausnarvald um umgengni barna í fóstri við kynforeldra sína. Leit Barnaverndarráð svo á að nefndin myndi fjalla um umgengni foreldra við barnið á fósturheimilinu samkvæmt nefndri lagagrein. Barnaverndarráð taldi sig því ekki hafa lagaheimildir, við uppkvaðningu úrskurðarins þann 10. nóvember 1993, til að meta á því stigi hvernig umgengni skyldi háttað enda hafði þá ekki verið fjallað um þennan ágreining af barnaverndarnefndinni með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir, en leit svo á að það yrði gert. Sá úrskurður myndi sæta málsskoti samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um vernd barna og ungmenna.

Skýringin á því hvers vegna það sem hér að ofan er ritað kemur ekki fram í úrskurðinum með jafn skýrum hætti og hér er fyrst og fremst sú að nauðsynlegt þótti að hraða úrlausn málsins eins og ávallt er reynt að gera í málum sem eru til meðferðar fyrir Barnaverndarráði."

Samkvæmt 33. gr. laga nr. 58/1992 á barn, sem er í fóstri, rétt á umgengni við kynforeldra sína. Eiga sömu sjónarmið við, þegar foreldrar hafa verið sviptir forsjá barns, en frekari ákvörðun hefur ekki verið tekin um framtíð þess eða því komið í fóstur, nema sérstök atvik mæli gegn umgengnisrétti foreldra og getur þá barnaverndarnefnd úrskurðað að umgengnisréttar njóti ekki við, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna, sem telja verður að eigi hér einnig við. Í sömu tilvikum getur barnaverndarnefnd breytt fyrri ákvörðunum sínum um umgengisrétt.

Ég fellst á það sjónarmið barnaverndarráðs, að miðað við breyttar aðstæður barnsins hafi mátt telja það eðlilegra, að ákvörðun um umgengnisrétt yrði tekin af barnaverndarnefnd, annað hvort í fóstursamningi, sbr. 31. gr. laga nr. 58/1992, eða, eftir atvikum, með úrskurði skv. 45. gr. laga nr. 58/1992, sbr. 5. mgr. 33. gr. laganna.

Hins vegar hafði ákvörðun verið tekin um umgengni foreldra í úrskurði barnaverndarnefndar og krafa var gerð um það í kæru til barnaverndarráðs, að þeirri ákvörðun barnaverndarnefndar X yrði breytt og umgengni aukin. Tel ég, að réttara hefði verið að barnaverndarráð hefði tekið afstöðu til þeirrar kröfu með þeim hætti, sem greinir í 3. mgr. 49. gr. laganna, með því að staðfesta ákvörðun barnaverndarnefndar um umgengnisrétt foreldra, breyta henni, eða, eftir atvikum, fella hana úr gildi. Þar sem barnaverndarráð taldi það ekki á sínu færi að endurmeta eða staðfesta ákvörðun nefndarinnar, eins og hún var úr garði gerð og eftir að aðstæður höfðu breyst, tel ég, að barnaverndarráði hefði verið rétt, samkvæmt 3. mgr. 49. gr., að vísa þeim þætti málsins til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju."

V.

Niðurstöður álitsins dró ég saman með svofelldum hætti:

"Samkvæmt framangreindu tel ég ekki ástæðu til athugasemda við málsmeðferð eða úrlausn barnaverndarráðs í tilefni af kæru A og B yfir þeim úrskurði barnaverndarnefndar X, að þau skyldu svipt forsjá barns síns, C. Ég tel þó, að barnaverndarráð hefði í úrlausn sinni átt að fjalla um varakröfu foreldra um aukinn umgengnisrétt við barn sitt og greina í úrskurðinum þá niðurstöðu, sem ráðið komst að um þennan þátt málsins. Ég tel ekki ástæðu til að finna að þeirri niðurstöðu barnaverndarráðs, að eðlilegra væri að barnaverndarnefnd ákvarðaði umgengnisrétt foreldra og barns, eftir að því hafði verið ráðstafað í fóstur, en ég tel, að barnaverndarráði hafi, að fenginni þeirri niðurstöðu, borið að hlutast til um að það yrði gert. Hafi ráðinu borið að vísa þeim þætti málsins til umfjöllunar barnaverndarnefndar að nýju."