Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 6318/2011)

A kvartaði yfir úrskurði ríkisskattstjóra og úrskurði yfirskattanefndar í máli er varðaði álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 2008. A hafði fengið greiddan séreignarsparnað frá Svíþjóð árið 2007 og af upphæðinni var tekinn 30% skattur þar í landi. A gerði athugasemdir við að í úrskurði ríkisskattstjóra hefði ekki verið tekið tillit til þessa þegar skattstofn af greiðslunni var ákvarðaður og taldi um tvísköttun að ræða. Yfirskattanefnd lækkaði tekjufærða fjárhæð í skattframtali A en hafnaði kröfum hennar að öðru leyti.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. maí 2011. Þar rakti hann að með aðferð ríkisskattstjóra við framkvæmd Norðurlandasamnings um tvísköttun væri reiknað út hlutfall erlendra tekna í heildartekjum og síðan væri beitt frádrætti er næmi að hámarki þeirri fjárhæð sem hann hefði þurft að greiða í skatt í heimilisfestarlandi. Í ljósi m.a. þess almenna lagaumhverfis sem tvísköttunarsamningum er búið hér á landi taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að óheimilt hefði verið að viðhafa þessa aðferð í máli A. Enn fremur fékk umboðsmaður ekki séð að sú aukna skattbyrði A hér á landi, sem kynni að leiða af þessari framkvæmd, fæli í sér tvísköttun í skilningi laga nr. 90/2003 og Norðurlandasamning um tvísköttun og benti í því sambandi á að í alþjóðlegum skattarétti hefði það um langan aldur verið viðurkennt sjónarmið að taka mætti tillit til erlendra tekna við skattlagningu innlendra tekna. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar A og lauk meðferð sinni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.