Sjávarútvegur.

(Mál nr. 6413/2011)

A kvartaði f.h. B ehf. yfir úthlutunarreglum er komu fram í auglýsingu um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, og vörðuðu úthlutun byggðakvóta til X í sveitarfélaginu Y. Í kvörtuninni var því haldið fram að úthlutunarreglurnar væru ekki í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar Y.

Fyrir lá að A hafði sent sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu tvö erindi merkt „stjórnsýslukæra“. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. maí 2011. Þar rakti hann að af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 leiddi m.a. að hann gæti ekki fjallað um málið á sama tíma og ráðuneytið hefði það til meðferðar. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast út af kvörtunarefni B ehf. að svo stöddu en tók fram að þegar úrlausn ráðuneytisins á málinu lægi fyrir væri A heimilt að bera fram kvörtun á ný teldi B ehf. úrlausnina ekki viðunandi eða félagið enn beitt rangindum. Þá gæti A einnig leitað til sín ef hann teldi óeðlilegar tafir verða á afgreiðslu ráðuneytisins. Umboðsmaður ákvað að ljúka umfjöllun sinni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.