Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6381/2011)

A kvartaði yfir því að Útlendingastofnun hefði ekki svarað dvalarleyfisumsókn sem hann lagði fram í október 2010. Í skýringum Útlendingastofnunar kom m.a. fram að A hefði nýlega lagt fram gögn sem væru nauðsynleg til að afgreiða umsóknina. Farið yrði yfir þau og tekin ákvörðun um hvort unnt væri að afgreiða umsóknina á grundvelli þeirra. Yrði talin þörf á frekari gögnum yrði umboðsmanni A tilkynnt um það en að öðrum kosti yrði málið tekið til ákvarðunartöku og ætti niðurstaða þá að liggja fyrir innan fjögurra vikna. Í ljósi þessara skýringa og þess að kvörtun A laut að því að Útlendingastofnun hefði ekki svarað erindi hans lauk umboðsmaður umfjöllun sinni um kvörtunina, með bréfi, dags. 2. maí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hann tók þó fram að drægist afgreiðsla stofnunarinnar verulega fram yfir fjórar vikur gæti A leitað til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi.