Foreldrar og börn. Forsjá og umgengnisréttur. Málsmeðferð dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Bein afskipti ráðherra af meðferð máls. Endurupptaka máls. Málshraði. Hlutverk lögreglu við innsetningargerð í umráð barns. Málsmeðferð embættis ríkissaksóknara.

(Mál nr. 765/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 6. október 1994.

A bar fram kvörtun á hendur dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, ríkissaksóknara, rannsóknarlögreglu ríkisins og lögreglunni í Reykjavík, vegna meðferðar á málum sem tengdust deilu A og fyrrverandi konu hans, B, um forsjá og umgengnisrétt með dóttur þeirra, C.

Í fyrsta lagi laut kvörtun A að meðferð málsins í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Byggði A á því að dóms- og kirkjumálaráðherra hefði, stöðu sinnar vegna og vegna loforðs til A, borið að sjá til þess að B skilaði honum barninu C eftir að barnið kom til landsins til að heimsækja B fyrir milligöngu ráðuneytisins. Þá laut kvörtun A að því að dóms- og kirkjumálaráðherra hefði heimilað endurupptöku forsjármáls, án þess að skilyrði væru fyrir hendi, með því að skipa sérfræðinga til að kanna hagi barnsins.

Í áliti sínu rakti umboðsmaður ákvæði barnalaga nr. 9/1981, um umgengnisrétt barns og foreldris og heimildir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vegna ágreiningsmála um umgengni. Taldi umboðsmaður að enda þótt mikilvægt væri að kanna viðhorf aðila, leiðbeina þeim og leita sátta væri staða starfsmanna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við meðferð mála um umgengnisrétt ekki ólík stöðu dómara. Af þeim sökum væri mikilvægt að starfsmenn ráðuneytisins gættu hlutleysis við meðferð máls. Taldi umboðsmaður að frumkvæði ráðuneytisins að því að C kæmi til landsins um tiltekinn tíma til að heimsækja móður og vilyrði þess í tengslum við þá ákvörðun, svo sem að barninu yrði skilað til forsjáraðila, um greiðslu kostnaðar o.fl., hefði vart verið samrýmanlegt stöðu ráðuneytisins og þeim heimildum sem starfsmönnum þess bar að vinna eftir. Af gögnum málsins og skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins taldi umboðsmaður ljóst að meðferð þessa máls hefði ekki verið hagað eins og venja væri til í umgengnismálum, m.a. vegna beinna og óvenjulegra afskipta ráðherra af málinu. Umboðsmaður ákvað að fjalla ekki frekar um samskipti dóms- og kirkjumálaráðherra og embættismanna ráðuneytisins enda þyrfti til þess ítarlegri rannsókn á málinu í heild. Hins vegar ítrekaði umboðsmaður að um mikilvæga persónulega hagsmuni væri að ræða í málum sem þessum og því mikilvægt að hlutleysis og vandaðra vinnubragða væri gætt. Um þá skoðun A að ráðuneytinu hefði borið að sjá til þess að C yrði skilað til hans tók umboðsmaður það fram að ekki hefðu verið lagaskilyrði til þess að ráðuneytið hlutaðist með beinum hætti til um að barnið yrði afhent A. Er B neitaði að afhenda barnið hefðu A ekki verið önnur úrræði tæk en að leita innsetningar í umráð þess, svo sem hann gerði.

Um rannsókn þá, sem fram fór að tilhlutan dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í tilefni af kröfu A um breytingu á forsjá með C, tók umboðsmaður það fram að ótvírætt hefði verið um að ræða endurupptöku á forsjármáli. Umboðsmaður átaldi þá ákvörðun ráðherra að taka málið þá enn á ný til efnismeðferðar, miðað við forsögu þess og gögn sem ekki gáfu til kynna að aðstæður hefðu breyst á þeim stutta tíma frá því að málið var síðast afgreitt. Á hinn bóginn taldi umboðsmaður að ráðherra hefði farið út fyrir valdheimildir sínar er hann gaf A það loforð að ráðuneytið myndi ekki taka til meðferðar beiðni B um forsjá barnsins meðan það dveldist hér í heimsókn. Gat ráðuneytið ekki bundið hendur sínar með þessum hætti ef breyttar aðstæður og tillit til hagsmuna barnsins hefði mælt með breytingu á forsjá.

Með hliðsjón af þeirri stefnu sem málið tók og með tilliti til þess að A samþykkti dvöl C hér á landi, taldi umboðsmaður ekki sérstaka ástæðu til athugasemda við það hve langan tíma meðferð málsins tók. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það hvernig málinu lauk í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Kvörtun A laut í öðru lagi að því að lögregla hefði neitað að aðstoða fógeta við innsetningargerð í umráð C. Í gögnum málsins kom fram að ágreiningur hefði verið milli fógeta og lögreglu um hlutverk lögreglu við gerðina og nauðsyn þess að fulltrúi barnaverndarnefndar væri viðstaddur gerðina. Umboðsmaður tók fram að við innsetningargerð í umráð barns bæri að gæta þess að ekki væri gengið lengra í beitingu þvingunarúrræða en nauðsyn bæri til og ættu sérstök sjónarmið við í þessum málum. Hins vegar fór fógeti með dómsvald við framkvæmd innsetningargerðar og var það á valdi fógeta (nú sýslumanns) en ekki lögreglu að meta hvernig gerðin yrði best framkvæmd. Var það niðurstaða umboðsmanns að lögreglu hefði borið að fara að fyrirmælum fógeta en hvorki vinna gegn fyrirmælum hans né hverfa af vettvangi, eftir að aðstoðar lögreglu hafði verið leitað. Í athugun umboðsmanns á gögnum málsins, einkum bréfaskriftum milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og lögreglustjórans í Reykjavík, þótti umboðsmanni ástæða til að benda á að lögreglustjórinn í Reykjavík færi með lögregluvald undir yfirstjórn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og bæri því að hlíta eftirlits- og boðvaldi ráðuneytisins.

Þriðji þáttur í kvörtun A laut að meðferð á kærum er hann bar fram á hendur B vegna ætlaðs brots hennar á ákvæðum 193. gr. hegningarlaga. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til frekari athugasemda við störf lögreglu en þegar voru komnar fram og ekki voru efni til athugasemda við meðferð rannsóknarlögreglu ríkisins á kærum á hendur B, en rannsóknarlögregla sendi ríkissaksóknara málsskjöl stuttu eftir að kærur bárust. Um meðferð embættis ríkissaksóknara vísaði umboðsmaður til skýrslu sinnar fyrir árið 1991 (SUA 1991, bls. 75), en sömu sjónarmið áttu við í máli þessu. Hvorki A né B var gerð skrifleg grein fyrir kæru A á árinu 1989 og B var gerð grein fyrir ákvörðun vegna kæru hans á árinu 1990 með bréfi, dags. 7. febrúar 1992. Taldi umboðsmaður þetta ófullnægjandi með tilliti til hagsmuna aðila og taldi skýringar ríkissaksóknara á ástæðum þess, að ekki var gripið til saksóknar ekki skýra þann drátt sem varð á því að ríkissaksóknari tæki ákvörðun um niðurfellingu málsins og tilkynnti aðilum.

Um þá ákvörðun ríkissaksóknara að mæla ekki fyrir um lögreglurannsókn vegna kæru A á árinu 1990 tók umboðsmaður það fram að brot gegn 193. gr. hegningarlaga fælu í sér inngrip í mikilvæg persónuleg réttindi einstaklinga og væri því mikilvægt að refsivörslu af hálfu ríkisins væri haldið uppi í málum sem þessum. Það var skoðun umboðsmanns að almennt yrði að leggja það til grundvallar mati við ákvörðun um saksókn vegna meintra brota á 193. gr. hegningarlaga að lögmæt skipan á forsjá barns væri virt. Hins vegar væri það háð mati ríkissaksóknara á atvikum hvers máls og líklegri niðurstöðu dómsmáls hvort grípa ætti til saksóknar í einstökum tilvikum. Athugun umboðsmanns leiddi ekki í ljós að ákvarðanir ríkissaksóknara í máli þessu hefðu verið reistar á ólögmætum sjónarmiðum eða með öðrum hætti brotið rétt á A. Taldi umboðsmaður því ekki efni til frekari athugasemda vegna meðferðar ríkissaksóknara á máli þessu.

I.

Í byrjun febrúar 1993 tók ég til athugunar kvörtun A, á hendur dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, ríkissaksóknara, rannsóknarlögreglu ríkisins og lögreglunni í Reykjavík yfir meðferð mála, sem tengjast deilu A og fyrrverandi eiginkonu hans, B, um forsjá dóttur þeirra, C.

II.

Forsaga málsins er sú, að A og kona hans, B, fengu leyfi til lögskilnaðar með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 13. febrúar 1987. Fékk A forsjá þriggja barna hjónanna, þ. á m. forsjá barnsins, C. Var kveðið á um umgengnisrétt móður við börnin næstu þrjá mánuði í sérstökum úrskurði. Í júní 1987 fór konan þess á leit að ráðuneytið endurskoðaði úrskurð sinn og hún fengi forsjá barnsins, C. Hinn 28. ágúst 1989 hafnaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið þeirri kröfu. Hinn 29. ágúst 1989 fór B fram á að ráðuneytið tæki ákvörðun um umgengnisrétt, en 15. september 1989 fór hún fram á endurskoðun forsjárúrskurðarins. Hinn 5. október 1989 kvartaði B við mig yfir ákvörðun ráðuneytisins, yfir skorti á gögnum um aðstæður föður og yfir því, að umgengnisréttur við móður hefði ekki verið ákveðinn í úrlausn ráðuneytisins. Niðurstaða mín í málinu (nr. 182/1989, SUA 1990:107) var sú, að ekki væri tilefni til athugasemda við úrlausn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins eða gagnaöflun þess. Þá taldi ég ekki ástæðu til athugasemda við þá ákvörðun ráðuneytisins, að láta úrlausn um umgengnisrétt bíða síðari tíma, eins og atvikum málsins var háttað, er sú ákvörðun var tekin.

Hinn 5. október 1990 leitaði A til mín og kvartaði yfir málsmeðferð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Var barnið þá hjá B, eftir að það hafði komið til landsins sumarið 1990, en hún neitaði að skila A barninu og hafði farið fram á það við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, að ákvörðun ráðuneytisins yrði tekin til endurskoðunar. Með bréfi til lögmanns A, dags. 18. desember 1992, vísaði ég til bréfs dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 11. desember sama ár, um að afskiptum ráðuneytisins af forsjárdeilunni væri þá lokið. Óskaði ég eftir því við lögmanninn, að hann skýrði mér frá því, hvort A hygðist fylgja eftir kvörtun sinni á hendur dóms- og kirkjumálaráðuneytinu vegna þessa máls, eftir atvikum með viðbótarathugasemdum vegna málsins. Í kjölfar svarbréfs lögmannsins, dags. 18. janúar 1993, tók ég málið upp til meðferðar að nýju 4. febrúar 1993 og óskaði eftir því við lögmann A, að nánar yrði afmarkað, að hvaða atriðum kvörtun A beindist, þar sem langt væri um liðið frá því að hann bar fram kvörtun sína í upphafi og að á þeim tíma hefði ýmislegt gerst í meðferð málsins. Með bréfi, dags. 5. mars 1993, gerði lögmaður A eftirfarandi grein fyrir kvörtuninni:

"1.

Dómsmálaráðuneytið hafði tekist á hendur ábyrgð á því að barninu [C] yrði skilað á réttum tíma til föður og að það myndi ekki taka til meðferðar neina kröfu móður um breytingu á forsjá, meðan barnið væri hér á landi.

Er óskað eftir áliti Umboðsmanns á því hvort Dómsmálaráðherra, sem æðsta yfirmanni forsjármála og á sviði gæslu laga og réttar, svo og í ljósi framangreindra loforða, hafi borið að sjá til þess að barnið yrði tekið frá móður og fengið föður, sem fór með forsjá barnsins skv. úrskurði ráðuneytisins. Einnig því, hvort ákvörðun um að fela þremur sérfræðingum að kanna hagi, þarfir og afstöðu barnsins svo og [tengsl við] fjölskyldu sína, hafi verið réttmæt og lögleg og hvort hún hafi í raun falið í sér endurupptöku forsjármálsins. Einnig er óskað álits á því hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Þá er farið fram á að Umboðsmaður gefi upp álit sitt á meðferð Dómsmálaráðuneytisins á málinu í heild m.a. í ljósi ofangreindra atriða, þess hve langan tíma málið var til meðferðar í ráðuneytinu og hvernig ráðuneytið lýkur málinu af sinni hálfu. Einnig því hvort meðferðin hafi leitt til þess að réttur hafi verið brotinn á [A].

"2.

Við innsetningargerð þann 8. september 1990 óskaði fógeti eftir því að lögreglan í Reykjavík beitti valdi til að taka barnið úr vörslu móður í samræmi við innsetningarúrskurð frá 21. ágúst 1990. Lögreglan neitaði því þar sem fulltrúi barnaverndarnefndar var ekki viðstaddur.

Er óskað eftir áliti Umboðsmanns á því hvort lögreglu hafi verið heimilt, lögum samkvæmt að neita að aðstoða fógeta.

"3.

Þá er óskað eftir áliti Umboðsmanns á neitun rannsóknarlögreglu, lögreglunnar í Reykjavík og ríkissaksóknara á því að rannsaka málið, en það var talið vera brot á 193. gr. alm. hgl.

Er í þessu sambandi sérstaklega vísað til málsmeðferðar í nýlegu máli hérlendis þar sem faðir var handtekinn, ákærður og dæmdur til refsingar vegna brots á 193. gr. hgl. vegna brottnáms dóttur frá móður."

III.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra bréf 11. mars 1993 og óskaði eftir því, samkvæmt 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, eins og hún kom fram í bréfi lögmanns hans til mín, dags. 5. mars 1993, og í málavaxtalýsingu A frá 2. október 1990. Með bréfi, dags. 25. janúar 1994, bárust gögn málsins og skýringar ráðuneytisins.

IV.

Ég skipti umfjöllun minni vegna kvörtunar A í þrjá hluta. Í fyrsta hluta gerði ég grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lutu að meðferð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á máli A og B. Í öðrum hluta tók ég til umfjöllunar hlutverk lögreglu við innsetningargerðir í umráð barns, eins og það kom til álita í máli þessu. Loks fjallar þriðji hluti álitsins um ávirðingar A á hendur lögreglu og embætti ríkissaksóknara, vegna meðferðar kærumála:

"1. Málsmeðferð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá ágústmánuði 1989 til vorsins 1992 vegna ágreinings um forsjá barnsins og umgengni við það.

Samkvæmt þeim gögnum, sem mér hafa borist, bar konan ákveðnar kröfur um umgengnisrétt upp við dóms- og kirkjumálaráðuneytið 29. ágúst 1989, en 15. og 25. september 1989 fór hún þess á leit við dóms- og kirkjumálaráðherra, að ákvörðun ráðuneytisins frá 28. ágúst 1989 yrði breytt og henni falin forsjá stúlkunnar. Bjó faðirinn erlendis og barnið hjá honum og hafnaði hann öllum kröfum konunnar um umgengnisrétt, meðan hún héldi áfram tilraunum sínum til að fá forsjá barnsins. Hinn 5. apríl 1990 var krafa um ákvörðun ráðuneytisins um umgengnisrétt ítrekuð af lögmanni konunnar og 14. júní sama ár afturkallaði lögmaður erindi hennar um breytingu á forsjá. Með bréfi, dags. 25. maí 1990, hafði maðurinn hafnað tilmælum konunnar um að stúlkan færi til Íslands um sumarið, meðan forsjárkröfu konunnar væri enn haldið til streitu.

Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í bréfi til mín, dags. 25. janúar 1994, segir meðal annars svo um framhald málsins:

"Þann 15. júní 1990 hafði starfsmaður ráðuneytisins samband símleiðis við manninn vegna umgengnismálsins og ræddi möguleika á því að telpan kæmi hingað til lands í sumarleyfi. Greindi starfsmaðurinn honum frá því hver staða málsins væri, þ.e. að konan hefði dregið kröfu sína um forsjá til baka. Einnig greindi starfsmaðurinn manninum frá því, að álit embættis [umboðsmanns] lægi nú fyrir, og ekki hefði verið talin ástæða til athugasemda af tilefni kvörtunar konunnar vegna ákvörðunar ráðuneytisins. Kvaðst maðurinn ekki myndi leggjast gegn heimsókn telpunnar til móður svo framarlega sem telpan sjálf væri því ekki mótfallin.

[...]

Í ljósi [samtals sálfræðings við barnið] gerði starfsmaður ráðuneytisins hinn 2. júlí drög að umgengnisúrskurði þar sem umgengni móður og barns var hafnað, að svo stöddu.

[...]

Hinn 4. og 5. júlí 1990 var starfsmaður sá er með málið fór boðaður á fund ráðherra vegna umgengnismálsins.

[...]

Hinn 6. júlí 1990 hafði starfsmaður ráðuneytisins enn á ný samband símleiðis við manninn og greindi honum frá efni viðtala við ráðherra og komu konunnar í ráðuneytið. Eftir umræður um málið samþykkti hann að telpan kæmi hingað til lands hinn 15. júlí og dveldist til 5. ágúst 1990. Þann sama dag mætti konan í ráðuneytið ásamt þáverandi lögmanni sínum, og samþykkti konan framangreinda tilhögun umgengni. Mættu undirrituðu jafnframt yfirlýsingu um að konan myndi afhenda bróður mannsins barnið síðari hluta laugardags hinn 4. ágúst 1990 og myndi hann sjá um að koma barninu í flugvél áleiðis til föður daginn eftir.

Með ákvörðun ráðuneytisins [...] var ákveðið að telpan skyldi dvelja hjá móður hér á landi frá 15. júlí og til síðari hluta dags hinn 4. ágúst 1990. Jafnframt var barnaverndarnefnd Reykjavíkur falið að liðsinna við framkvæmd umgengninnar..."

Hinn 2. ágúst 1990 fór B þess á leit við dóms- og kirkjumálaráðherra að ákvörðun ráðuneytisins frá 28. ágúst 1989 um forsjá C yrði tekin til endurskoðunar. Barnið var ekki afhent föður sínum hinn 4. ágúst 1990. Ráðuneytið hafnaði kröfu B 9. ágúst sama ár þar sem ekkert hefði komið fram um breyttar forsendur frá því er ákvörðun var tekin 28. ágúst 1989. Hinn 22. ágúst 1990 fór B enn fram á endurupptöku forsjármálsins á grundvelli 2. mgr. 39. gr. barnalaga nr. 9/1981 og hinn 4. september 1990 fór hún fram á kyrrsetningu barnsins hér á landi samkv. 1. mgr. 41. gr. barnalaga. Í framangreindu bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín segir svo um þetta:

"Lögfræðingur í einkamáladeild samdi drög að bréfi til konunnar þar sem henni var tilkynnt um könnun málsins vegna forsjárkröfu hennar. Ennfremur var svarað kröfu hennar um kyrrsetningu barnsins. Lögfræðingar einkamáladeildar töldu ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að leggja bann við að farið yrði með barnið úr landi, á grundvelli 1. mgr. 41. gr. þágildandi barnalaga nr. 9/1981. Var kyrrsetningarkröfunni því hafnað í drögum þessum. Ráðherra fékk drög bréfsins til yfirlestrar. Hann var mótfallinn því að kyrrsetningarkröfu konunnar yrði svarað og felldi út þann kafla bréfsins."

Í lok september 1990 fól ráðherra þremur sérfræðingum að kanna aðstæður og hag barnsins, svo sem nánar greinir síðar í áliti þessu. Stóð sú rannsókn til vors 1992.

1.a. Málsmeðferð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Í 40. gr. barnalaga nr. 9/1981 voru fyrirmæli um umgengnisrétt barns og foreldris, sem ekki fór með forsjá þess, svo og um valdsvið og heimildir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vegna ágreiningsmála um umgengnisrétt. Í 2. mgr. 40. gr. sagði:

"Ef foreldrar verða sammála um, hvernig skipa skuli umgengnisrétti, skal eftir því farið, nema sú skipan komi í bága við hag og þarfir barnsins að mati dómsmálaráðuneytis. Ef foreldra greinir á um þetta efni, kveður dómsmálaráðuneytið á um inntak þess réttar og hversu honum verði beitt, nema ráðuneytið telji rétt að synja um umgengnisrétt, eins og á stendur, sbr. 1. málsgr. Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar, þegar ástæða þykir til þess, svo og liðsinnis hennar eða sérstaklega tilnefnds tilsjónarmanns í sambandi við framkvæmd umgengnisréttarins."

Í 4. mgr. 40. gr. sagði:

"Ágreiningsefni út af umgengnisrétti lúta ávallt úrlausn dómsmálaráðuneytisins, sem breytt getur ákvörðunum sínum að ósk annars foreldris, ef hagur og þarfir barns gera slíkt réttmætt."

Eins og fram kemur í lagaákvæðinu, var það hlutverk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að skera úr ágreiningi um umgengnisrétt, ákveða inntak þess réttar og hvernig honum yrði beitt. Var stjórnvaldi fengið vald til að meta hagsmuni barns og synja foreldri um umgengnisrétt, ef sérstakar ástæður mæltu með því, eða mæla fyrir um annan hátt á umgengni en samkomulag var um milli foreldra. Sama skipan er að meginstefnu til lögfest í 37. gr. barnalaga nr. 20/1992, en sýslumaður fer með úrskurðarvald og má kæra ákvarðanir hans til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins skv. 74. gr. laganna.

Þegar stjórnvaldi er með lögum fengið slíkt úrskurðarvald, sem byggist að verulegu leyti á mati þess, er mikilvægt að gætt sé í hvívetna reglna stjórnsýsluréttar um málsmeðferð og að öðru leyti fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum.

Eins og greinir í úrlausn minni um fyrri ákvarðanir í máli þessu (SUA 1990, bls. 107), taldi ég þá ekki ástæðu til að gagnrýna þá ákvörðun ráðuneytisins, að láta úrlausn um umgengnisrétt bíða. Hinn 14. júní 1990, er B afturkallaði kröfu sína um breytingu á forsjá, bar ráðuneytinu að taka kröfu hennar um umgengni við barn sitt til rannsóknar og eftir atvikum úrskurðar.

Enda þótt mikilvægt sé að kanna viðhorf aðila, leiðbeina þeim og leita markvisst sátta, áður en mál er ákveðið, sbr. nú 68. gr. barnalaga nr. 20/1992, er staða starfsmanna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við meðferð mála um umgengnisrétt að sumu leyti ekki ólík stöðu dómara, þ.e.a.s. verið er að skera úr deilu á milli einstaklinga. Af þeim sökum hefur mikla þýðingu að starfsmenn ráðuneytisins gæti ákveðins hlutleysis við meðferð málsins. Í því sambandi tel ég að frumkvæði ráðuneytisins að því, að barnið kæmi til landsins um tiltekinn tíma til að heimsækja móður, og vilyrði þess í tengslum við þá ákvörðun, svo sem um að barninu yrði skilað til forsjáraðila, um greiðslu kostnaðar o.fl., hafi, eins og á stóð í málinu, vart verið samrýmanleg þessari stöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins eða þeim heimildum, sem það skyldi vinna eftir samkvæmt þágildandi barnalögum.

1.b. Afskipti dóms- og kirkjumálaráðherra.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín, dags. 25. janúar 1994, hefur málsatvikum og málsmeðferð ráðuneytisins verið lýst ítarlega. Í III. kafla bréfsins, þar sem álit ráðuneytisins á meðferð umgengnis- og forsjármálsins er reifað, segir meðal annars:

"Mál það sem hér er til umfjöllunar hefur fyrir margra hluta sakir mikla sérstöðu meðal forsjármála sem ráðuneytið hefur haft til meðferðar, m.a. hafði dómsmálaráðherra persónulega veruleg afskipti af málinu og langt umfram það og með öðrum hætti en löglærðir starfsmenn einkamálaskrifstofu hafa áður kynnst í störfum sínum í ráðuneytinu. Það verður að segjast, að dómsmálaráðherra sá, sem var í embætti frá haustinu 1989 til vorsins 1991, hafði ákveðnar skoðanir í máli þessu sem margar hverjar voru ekki í samræmi við mat löglærðra starfsmanna ráðuneytisins, hafnaði tillögum þeirra um málsmeðferð og mælti fyrir um niðurstöður sem þeir töldu ekki samrýmast hag barns þess sem um var deilt, eins og glöggt kemur fram í málavaxtalýsingu, sem rakin hefur verið í I. og II. kafla bréfs þessa."

Dóms- og kirkjumálaráðherra og ráðuneyti hans fara með sifjamálefni samkvæmt 13. tl. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, um staðfestingu forseta Íslands. Ráðherra ber pólitíska ábyrgð gagnvart Alþingi og lagalega ábyrgð á störfum sínum og ráðuneytis síns samkvæmt lögum. Þá bera embættismenn ábyrgð á að störf þeirra séu í samræmi við lög. Ber starfsmönnum ríkisins að rækja starf sitt af réttsýni, sbr. 28. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt ber þeim að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna sinna, sbr. 29. gr. sömu laga.

Eftir að hafa kannað gögn þau og skýringar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem mér bárust með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. janúar 1994, tel ég ljóst, að meðferð þessa máls hafi ekki verið hagað eins og venja er til í umgengnismálum af hálfu ráðuneytisins, m.a. vegna beinna og óvenjulegra afskipta ráðherra af máli þessu. Ég tel, í tilefni af máli þessu, sérstaka ástæðu til að ítreka það, að við meðferð mála, er lúta að forsjá barna og umgengnisrétti, beri að gæta hlutleysis og vanda til vinnubragða og haga þeim í sem bestu samræmi við sjónarmið um réttaröryggi, enda er hér um afar mikilvæg persónuleg réttindi einstaklinga að ræða.

Ég hef ákveðið að fjalla ekki frekar um samskipti dóms- og kirkjumálaráðherra og embættismanna ráðuneytisins. Þyrfti þar til ítarlegri rannsókn á málinu í heild. Ég mun því láta þar við sitja, að taka til úrlausnar einstaka þætti í kvörtun A, eins og nánar greinir hér á eftir.

1.c. Um ábyrgð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á því að B skilaði barninu til föður síns og hvort dómsmálaráðherra hafi borið að sjá til þess að barnið yrði fengið föður sínum.

A telur í kvörtun sinni, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi ábyrgst að B skilaði barninu til hans, og því hafi ráðuneytinu borið að sjá til þess að barninu yrði skilað.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir um þetta:

"Að ósk ráðherra bar starfsmaður ráðuneytisins manninum þau skilaboð ráðherra að ef maðurinn féllist á að telpan kæmi til Íslands á grundvelli umgengnisréttar móður og barns myndi ráðuneytið gera allt sem í þess valdi stæði til þess að barninu yrði skilað til föður.

Telur ráðuneytið að fyllilega hafi verið staðið við loforð þetta með því í fyrsta lagi að fá skriflega yfirlýsingu konunnar um að hún myndi afhenda barnið á þeim tíma sem um var samið, í öðru lagi með því að fela barnaverndarnefnd Reykjavíkur eftirlit með umgengni meðan á dvöl telpunnar hjá móður stæði og með því að boða starfsmenn félagsmálastofnunar til sérstaks fundar í ráðuneytinu, þar sem þess var óskað að þeir færu á heimili konunnar skömmu áður en skila ætti barninu þann 4. ágúst 1990, og stuðla þannig að því að það yrði gert. Í þriðja lagi með því að standa straum af lögmannskostnaði mannsins vegna innsetningarmáls, þar sem hvorki voru lagaskilyrði fyrir því að ráðherra gæti fyrirskipað að barnið yrði tekið frá móður og afhent föður né að ráðuneytið gæti gerst aðili innsetningarmáls."

Ég fellst á þær skýringar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að ekki hafi verið lagaskilyrði til þess, að ráðuneytið hlutaðist með beinum hætti til um, að barnið yrði afhent föður sínum. Í samræmi við heimildir í lögum hafði ráðuneytið ákveðið að A færi með forsjá þess. Þegar B neitaði að aftur á móti að afhenda barnið, voru A ekki önnur úrræði tæk en að leita innsetningar, svo sem hann gerði. Um innsetningargerðina er fjallað nánar undir lið 2 hér á eftir.

1.d. Rannsókn sérfræðinga og endurupptaka forsjármálsins.

A hefur kvartað yfir því, að dóms- og kirkjumálaráðherra hafi skipað þriggja manna sérfræðinganefnd til að rannsaka hagi barnsins og foreldra þess og þannig í raun endurupptekið forsjármálið. Í greinargerð A með kvörtun hans árið 1990, dags. 2. október 1990, segir um þetta:

"Áður en ég sendi barnið til Íslands sl. sumar hafði mér verið úrskurðuð forsjá þess þrisvar sinnum, svo sem umboðsmanni má vera kunnugt um þar sem mál þetta hefur komið til kasta hans áður. Skýlaus yfirlýsing var gefin um það af hálfu ráðuneytisins, að ekki yrðu teknar til meðferðar neinar beiðnir um endurupptöku forsjármálsins meðan barnið dveldi hér á landi. Engu að síður var kveðinn upp úrskurður um forsjána í ágúst sl., - sem að vísu kvað á um að hún yrði óbreytt. Nú hefur málið að líkindum verið tekið til meðferðar að nýju, þar sem ráðherra hefur lýst því yfir að hann aðhafist ekkert frekar í málinu fyrr en fyrir liggur álitsgerð þriggja sérfræðinga á högum og vilja stúlkunnar."

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín segir svo um þennan þátt:

"Tveimur dögum áður en konan átti að skila barninu, þ.e. 2. ágúst 1990, fór hún þess á leit við dómsmálaráðherra að úrskurður ráðuneytisins um forsjá telpunnar yrði tekinn til endurskoðunar með tilliti til hags og þarfa barnsins, skv. heimild í 2. mgr. 39. gr. þágildandi barnalaga nr. 9/1981. Þrátt fyrir loforð ráðherra um að taka ekki til meðferðar kröfu konunnar um forsjárbreytingu, eins og rækilega er reifað í lið I að framan, fól hann einum af lögfræðingum ráðuneytisins, utan einkamáladeildar, að kanna gögn þau er konan lagði fram og svara beiðni hennar. Ráðuneytið hafnaði kröfu konunnar með ákvörðun dags 9. ágúst 1990. Hinn 22. ágúst 1990 barst dómsmálaráðherra ný beiðni konunnar um endurupptöku forsjármálsins. Hinn 27. september 1990 fyrirskipaði ráðherra að þrír sérfræðingar yrðu fengnir til að kanna hagi, þarfir og afstöðu telpunnar svo og tengsl hennar við foreldra og fjölskyldu sína með tilliti til forsjárkröfu konunnar. Í framanrituðu fólst að mati ráðuneytisins endurupptaka forsjármálsins."

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til þriggja sérfræðinga, dags. 28. september 1990, segir:

"Ráðuneytinu hefur borist bréf [B] þar sem fram kemur ósk hennar um að ákvörðun ráðuneytisins um forsjá dóttur hennar og [A] verði breytt og henni falin forsjá barnsins.

Kröfu sína styður konan með þeim rökum er fram koma í meðfylgjandi bréfi hennar, og vísar hún í barnageðlæknisfræðilega umsögn [X], sérfræðings í barnageðlækningum sem því fylgir og myndbandsspólu þar sem [X] átti viðtal við barnið.

Krafa konunnar hefur verið borin undir manninn og hefur hann alfarið hafnað forsjárbreytingu.

Af ofangreindum ástæðum fer ráðuneytið þess á leit á við yður, að þér ásamt, [...] og [...] kannið hagi, þarfir og afstöðu barnsins svo og tengsl þess við foreldra og fjölskyldu sína, með tilliti til kröfu konunnar."

Greinargerð sérfræðinganna, dags. 29. maí 1992, barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 2. júní sama ár og 4. júní tilkynnti ráðuneytið aðilum umsögn sérfræðinganna. Var þeim gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og koma á framfæri gögnum og upplýsingum áður en úrskurður yrði upp kveðinn.

Eins og fram kemur í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, var það álit starfsmanna þess, að um endurupptöku forsjármálsins væri að ræða. Er það samkvæmt gögnum málsins ótvírætt, að svo var og að með málið var farið sem slíkt, allt þar til er því var lokið af hálfu ráðuneytisins með bréfi 10. nóvember 1992 í samræmi við 1. mgr. 77. gr. barnalaga nr. 20/1992, sem þá höfðu gengið í gildi.

Í 2. mgr. 39. gr. barnalaga nr. 9/1981 sagði:

"Nú hefir dómsmálaráðuneytið mælt fyrir um, hvernig haga skuli forsjá barns, og getur ráðuneytið þá að ósk annars foreldris breytt ákvörðun sinni í þessu efni, ef breyting þykir réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins."

Það voru lögbundin skilyrði fyrir breytingu á forsjá, að breyting þætti réttmæt vegna breyttra aðstæðna og vegna hagsmuna barnsins. Eftir ítarlega rannsókn á máli þessu var það niðurstaða dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hinn 28. ágúst 1989, að ekki hefði verið sýnt fram á breyttar aðstæður, sem réttlætt gætu breytingu á forsjá. Hinn 9. ágúst 1990 hafnaði ráðuneytið kröfu konunnar um endurupptöku forsjármálsins með þeim rökum, að í beiðni konunnar og gögnum, er henni fylgdu, kæmi ekkert það fram, er benti til að forsendur þær, sem ákvörðun ráðuneytisins frá 28. ágúst 1989 byggði á, væru breyttar, þannig að réttlætanlegt væri, með tilliti til hags og þarfa barnsins, að málið væri tekið til efnislegrar meðferðar á ný.

Aðeins þrettán dögum eftir ráðuneytið hafði hafnað kröfu konunnar fór hún enn á ný fram á endurskoðun á ákvörðun ráðuneytisins um forsjá barns hennar. Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var þá vel kunnugt um, að móðirin hélt barninu með ólögmætum hætti í sinni umsjá og hlítti ekki lögmætri skipan um forsjá þess. Með hliðsjón af þessari forsögu málsins, að virtum þeim gögnum, sem fylgdu nýrri beiðni um endurupptöku málsins, sem ekki gáfu til kynna að aðstæður hefðu breyst á þeim stutta tíma frá því málið var síðast afgreitt, verður að átelja þá ákvörðun ráðherra að taka málið enn á ný til efnismeðferðar. Verður ekki séð að lög hafi heimilað þá ákvörðun eða forsvaranleg sjónarmið að öðru leyti stutt þá niðurstöðu. Bar ráðuneytinu og að taka tillit til þess, að frekari rannsókn á högum og vilja barnsins gat orðið langvinn og gat orðið til að raska enn högum þess.

Af gögnum málsins er ljóst, að A var lofað af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að ráðuneytið myndi ekki taka til meðferðar beiðni konunnar um breytingu á forsjá á meðan barn þeirra dveldist hér á landi í heimsókn. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. barnalaga nr. 9/1981 gat dóms- og kirkjumálaráðuneytið breytt ákvörðun sinni um forsjá barns, ef breyting þótti réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins. Ég tel að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi farið út fyrir valdheimildir sínar, er það gaf A fyrrnefnt loforð, þar sem ráðuneytið gat ekki bundið hendur sínar með þessum hætti, ef breyttar aðstæður og tillit til hags og þarfa barnsins hefðu mælt með breytingu á forsjá á þessum tíma. Það er svo hins vegar annað mál, eins og nánar er vikið að hér að framan, að á umræddum tíma hafði ekki verið sýnt fram á að aðstæður hefðu breyst að því marki, að það gæti réttlætt breytingu á forsjá barnsins.

1.e. Hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Frá því að konan óskaði eftir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um umgengnisrétt í ágúst 1989, þar til málinu var lokið í nóvember 1992, án efnisniðurstöðu, liðu rúm 3 ár. Eftir að sérfræðinganefnd hafði verið skipuð, í september 1990, var málshraði þó háður rannsókn sérfræðinganna á högum barnsins og áliti þeirra á því, hve hratt mætti fara við rannsókn þess. Í bréfi ráðuneytisins til mín kemur fram, að sérfræðingarnir hafi skilað skýrslu í aprílmánuði 1991 og 30. apríl 1991 ritað bréf til ráðuneytisins, þar sem fram komi það álit sérfræðinganna, að nokkuð skorti á, að málið sé nægilega vel rannsakað til þess að á því verði byggður endanlegur úrskurður um, hvar forsjá barnsins skuli vera. Lögðu sérfræðingarnir til, að rannsókn héldi áfram til vors 1992 og að telpan dveldist á þeim tíma hjá móður sinni, þar sem nauðsynlegt væri að sem minnst röskun yrði á högum hennar.

Þá skiptir það máli, sem fram kemur í gögnum málsins, að A féllst á að stúlkan dveldi hér á landi frá vori 1991 til loka skólaársins 1991-1992 og 18. maí 1992 gaf hann yfirlýsingu þess efnis, að hann féllist á að stúlkan dveldi áfram hjá B, hér á landi, svo lengi sem hún óskaði þess sjálf. Með tilliti til þessa, svo og þeirrar stefnu, sem málið tók, tel ég ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við málshraða. Þá tel ég, að virtum gögnum málsins, ekki ástæðu til athugasemda við það, hvernig málinu lauk í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

2. Aðstoð lögreglunnar í Reykjavík við framkvæmd innsetningargerðar.

A hefur kvartað yfir meðferð embættis lögreglustjórans í Reykjavík á þáttum, sem tengjast málinu, einkum yfir því, að lögregla hafi neitað að aðstoða fógeta við innsetningargerð, sem fara skyldi fram samkvæmt úrskurði fógeta. Að kröfu A hafði fógeti úrskurðað 21. ágúst 1990, að barnið C skyldi tekið úr höndum gerðarþola, B, og umráðin fengin gerðarbeiðanda, A. Er framkvæma átti innsetningargerðina 8. september sama ár, náði gerðin ekki fram að ganga vegna aðstæðna á staðnum. Í gögnum málsins kemur fram, að ágreiningur hafi verið milli fógeta og lögreglu um hlutverk lögreglu við gerðina, um nauðsyn þess að fulltrúi barnaverndarnefndar væri viðstaddur og um framkvæmd gerðarinnar, en auk þess varð það til að hindra gerðina, að fólk dreif að. Hinn 11. september 1990 kærði A réttarneitun fógeta til Hæstaréttar, sem hinn 25. september vísaði málinu frá Hæstarétti. Borgarfógeti ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf 10. september 1990, vegna atburða við innsetningargerðina. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til lögreglustjóra, dags. 22. október 1990, segir meðal annars:

"Í bréfi yðar kemur fram að þér teljið að með hliðsjón af 3. mgr. 53. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 53/1966 verði barn ekki tekið af heimili með valdbeitingu án nærveru fulltrúa barnaverndarnefndar og skipti þá einu hvort grundvöllur aðgerðar sé úrskurður barnaverndaryfirvalda eða innsetningarúrskurður fógeta. Með hliðsjón af þessu hafi yfirlögregluþjónn gefið fyrirmæli um að til valdbeitingar lögreglu kæmi ekki nema að fulltrúi barnaverndaryfirvalda væri á staðnum.

Jafnframt kemur fram í greinargerð yðar að framangreind innsetningargerð sé væntanlega byggð á 13. gr. aðfararlaga og þar sé hvergi minnst á skyldu lögreglu til aðstoðar við fógetagerð. Það sé fógeti sem hafi vald til að framfylgja úrskurðum þeim sem hann kveði upp og að hæpið sé að hann geti framselt til lögreglu heimildir sínar til beinnar valdbeitingar við innsetningargerð.

[...]

Af þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

[...]

[3. mgr. 53. gr. laga nr. 53/1966 um vernd barna og ungmenna] fjallar eingöngu um valdbeitingu vegna ákvarðana barnaverndarnefndar eða barnaverndarráðs. Ráðuneytið telur að það sé alfarið háð mati fógeta hvort slíkir fulltrúar séu viðstaddir þegar taka á barn samkvæmt úrskurði hans.

[...]

Í 1. gr. laga um lögreglumenn nr. 56/1972 segir m.a.: "Ríkið heldur uppi starfsemi lögregluliðs, sem hefur það verkefni að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu,..." Og í 34. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 74/1974 segir m.a. að það sé hlutverk lögreglu "að halda uppi lögum og reglu,..."

Í þjóðfélaginu er það fyrst og fremst lögregla sem almennt hefur heimild til og ber að sinna valdbeitingu til að halda uppi allsherjarreglu ef á þarf að halda.

Það er hlutverk framkvæmdavaldsins að sjá til þess að þegnar þjóðfélagsins geti fengið fullnustu á lögmætum úrskurðum dómstóla m.a. með valdbeitingu ef önnur úrræði duga ekki.

Þegar beita þarf valdi til að fullnusta megi lögmæta dómsúrskurði telur ráðuneytið að sá fulltrúi dóms- eða framkvæmdavalds, sem ábyrgð ber á fullnustunni, eigi ótvíræðan rétt á aðstoð lögreglu m.a. til að framkvæma valdbeitinguna.

Með hliðsjón af framansögðu telur ráðuneytið að lögreglunni beri að veita fógeta aðstoð til beinnar valdbeitingar vegna innsetningargerða óski hann þess."

Ég ritaði lögreglustjóranum í Reykjavík bréf 24. febrúar 1994 og óskaði eftir gögnum og skýringum vegna kvörtunar A. Mér bárust gögn frá lögreglustjóra, með bréfi, dags. 1. mars 1994, en án sjálfstæðra skýringa. Meðal gagna var greinargerð til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 4. maí 1993. Þar segir meðal annars:

"Áréttað skal, að lögreglan neitaði aldrei að aðstoða fógeta eða fulltrúa hans við að þeir gætu hindrunarlaust framkvæmt innsetningargerðina í umráð barnsins. Hins vegar neituðu lögreglumennirnir að taka barnið gegn vilja þess með valdi án beinna fyrirmæla frá yfirmanni þeirra. Skoðun lögregluyfirvalda var og er reyndar enn sú, að yfirmenn lögreglumanna stjórni aðgerðum þeirra en ekki fógeti. Samkvæmt starfsvenju sem tíðkast hefur hjá lögreglu við sambærilegar aðstæður og ekki um hættuástand að ræða hefur verið talið sjálfsagt að slík taka fari fram fyrir milligöngu fulltrúa barnaverndaryfirvalda til að tryggja að framkvæmdin fari fram af nærgætni og kunnáttusemi svo og að hagsmuna barns sé gætt. Lögreglan var að sjálfsögðu reiðubúin að koma í veg fyrir að utanaðkomandi aðilar gætu komið í veg fyrir að fulltrúinn gæti framkvæmt tökuna á faglegum grunni og þá með valdbeitingu ef þörf krefði.

Með hliðsjón af ofansögðu gaf yfirlögregluþjónninn, sem stjórnaði aðgerðum lögreglumannanna á vettvangi í samráði við fulltrúa lögreglustjóra lögreglumönnunum fyrirmæli um að grípa ekki til sjálfstæðra aðgerða er fælust í því að taka barnið nauðugt úr fangi gerðarþola gegn eindregnum vilja þess án atbeina og milligöngu einhvers er sérþekkingu hefur á þessu sviði, annað væri andstætt grundvallarreglum barnaverndarlaga og barnalaga.

Það er og skoðun lögreglu, að undirbúningur við framkvæmd umræddrar fógetagerðar hafi verið með öllu ófullnægjandi. Hygðist fógeti leita aðstoðar lögreglu hefði verið tilhlýðilegt að hafa samráð við stjórnendur hennar áður en ráðist var til inngöngu í hús gerðarþola. Fógeta mátti vel vera ljóst að ágreiningur kynni að koma upp á vettvangi um hvernig að framkvæmd skyldi staðið. Heimili móður þar sem taka á barn hennar með valdi er tæpast vettvangur til að leysa skoðanaágreining milli fógeta og lögreglu um framkvæmd fógetaúrskurðar. Slíkan ágreining hefði áður átt að ræða við lögreglustjóra sjálfan, en ekki láta sverfa til stáls á vettvangi."

Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín, frá 25. janúar 1994, koma fram þau sömu sjónarmið og rakin voru í áðurgreindu bréfi ráðuneytisins til lögreglustjóra frá 22. október 1990, að fógeti hafi borið ábyrgð á framkvæmd gerðarinnar og að lögreglunni hafi hvorki verið rétt að neita því að veita aðstoð né óhlýðnast fyrirmælum fógeta við gerðina.

Samkvæmt þeim heimildum, sem giltu, er innsetningarúrskurður var kveðinn upp og innsetning skyldi fara fram samkvæmt þeim úrskurði, fór fógeti með vald til að knýja fram fullnustu dóma og annarra aðfararheimilda, sbr. lög nr. 19/1887 um aðför. Innsetningargerðir voru viðurkenndar í íslenskum rétti og dómhelgað úrræði til að fá umráð barns. Fullnustugerðir þessar voru dómsathafnir, fyrir gildistöku laga nr. 90/1989 um aðför, og var samkvæmt því hægt að skjóta ákvörðunum fógeta til Hæstaréttar til úrlausnar.

Þegar umráð barns eru tekin með innsetningargerð ber að sjálfsögðu að gæta þess að ekki sé gengið lengra í beitingu þvingunarúrræða en nauðsynlegt er og eiga sérstök sjónarmið við í þessum málum, sbr. nú ákvæði 3. mgr. 75. gr. barnalaga nr. 20/1992. Það var hins vegar á valdi fógeta (nú sýslumanns) að meta, hvernig gerðin yrði best framkvæmd, og áttu lögregluyfirvöld ekki sjálfstætt mat um atriði, sem snertu framkvæmd gerðarinnar. Bar þeim að fara að fyrirmælum fógeta, um framkvæmd gerðarinnar, en hvorki vinna gegn fyrirmælum hans né hverfa af vettvangi, eftir að aðstoðar lögreglu hafði verið leitað.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fer með mál, er varða lögreglu og löggæslu, sbr. 4. tl. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969. Er ráðuneytið ritaði bréf til lögreglustjóra, það er að framan greinir, var það í samræmi við eftirlitshlutverk ráðuneytisins með löggæslu og störfum embættis lögreglustjóra. Verður að telja, að ráðuneytið hafi með því fullnægt eftirlitsskyldu sinni, og tek ég undir þau sjónarmið, sem þar koma fram um skyldur lögreglu við framkvæmd þvingunarúrræða, sem beitt er lögum samkvæmt. Hins vegar verður ekki séð af bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem ritað er 4. maí 1993, að tekið sé mið af sjónarmiðum þeim, sem fram koma í bréfi ráðuneytisins og varða mál þetta. Lögreglustjórinn í Reykjavík fór með lögreglustjórn samkvæmt 5. gr. laga nr. 74/1972, sbr. 3. gr. laga nr. 109/1976, undir yfirstjórn dóms- og kirkjumálaráðherra. Felur slík yfirstjórn í sér eftirlits- og boðvald ráðuneytisins með störfum lögreglunnar. Tel ég, eftir athugun á gögnum málsins, ástæðu til að árétta þetta sérstaklega.

3. Meðferð lögreglu, Rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknara á kærum A vegna meintra brota á 193. gr. almennra hegningarlaga.

Síðasti liður í kvörtun A lýtur að meðferð lögreglu, Rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknara á kæru hans vegna meints brots á 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3.a. Lögreglan í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1990, fór lögmaður A þess á leit við lögregluna í Reykjavík að lögreglan leitaði að barninu. Í bréfinu segir m.a.:

"Telja verður að það sé hlutverk lögreglu, að leita að týndum börnum, að ekki sé talað um að koma í veg fyrir að ólögmætt ástand er varði við alm. hgl. (193. gr.) haldi áfram."

Erindi þetta framsendi lögreglustjórinn í Reykjavík ríkissaksóknara 24. ágúst 1990, samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 253/1977. Þá ritaði lögreglustjóri lögmanni A bréf, dags. sama dag, þar sem fram kom, að embættið liti svo á, að um væri að ræða brot á 193. gr. hegningarlaga og heyrði því undir Rannsóknarlögreglu ríkisins, en ekki lögreglustjóra, samkvæmt lögum nr. 108/1976 og reglugerð nr. 253/1977. Ríkissaksóknari endursendi lögreglustjóra gögn málsins, með bréfi, dags. 4. september 1990. Í bréfinu segir m.a.:

"Með bréfinu framsendið þér endurrit úrskurðar fógetaréttar Reykjavíkur frá 21. þ.m. þess efnis að barnið [C] verði tekin úr umráðum [B] og umráðin fengin [A].

Þann 24. þ.m. hafnaði embætti yðar beiðni borgarfógetaembættisins frá 22. þ.m. um aðstoð við að framfylgja innsetningaraúrskurði þessum að því er virðist á þeim forsendum að af hálfu embættis lögreglustjórans í Reykjavík væri litið svo á að málið varðaði ætlað brot á 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Mál þetta liggur ekki fyrir við embætti yðar sem sakamál á þessu stigi en varðar framkvæmd ofangreinds úrskurðar. Af hálfu ákæruvaldsins verður því ekki nú að svo stöddu tekin ákvörðun um ætlað brot [B] á almennum hegningarlögum en tekið skal fram, að með bréfi dagsettu 22. þ.m. kærði [...] hrl., [B] fyrir ætlað brot á 193. gr. almennra hegningarlaga og er sú kæra til ákvörðunar við embættið."

Bréf lögreglustjóra til borgarfógetaembættisins, þar sem aðstoð við að framfylgja innsetningarúrskurði er hafnað, er ekki meðal gagna þeirra, sem lögð hafa verið fyrir mig. Hins vegar er þar bréf lögreglustjóra til A, dags. 24. ágúst 1990, þar sem ósk hans um að lögreglan leiti að barninu er svarað með þeim hætti, að tekið er fram að erindið sé framsent ríkissaksóknara til ákvörðunar.

Meðal gagna málsins er upplýsingaskýrsla lögreglu, dags. 22. ágúst 1990, þar sem greint er frá því, er lögreglumenn fylgdust með ferðum B og heimili hennar. Þá eru tvær skýrslur, dags. 8. og 12. september 1990, vegna framkvæmdar innsetningargerðar þeirrar, sem fjallað er um hér að framan.

Ég tel ekki tilefni til að gera frekari athugasemdir við störf lögreglunnar en fram er komið undir lið 2 hér að framan.

3.b. Rannsóknarlögregla ríkisins.

Samkvæmt gögnum málsins fékk Rannsóknarlögregla ríkisins til meðferðar tvær kærur A á hendur B og dóttur þeirra, D, vegna meintra brota á 193. gr. almennra hegningarlaga 4. og 29. ágúst 1989. Samkvæmt skýringum Rannsóknarlögreglu ríkisins í bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dags. 25. mars 1993, lauk lögreglurannsókn með því að málsskjöl voru send ríkissaksóknara þann 13. september 1989. Rannsóknarlögreglu bárust ekki frekari kærur vegna meintra brota B á 193. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt gögnum málsins eru ekki efni til að gera athugasemdir við meðferð Rannsóknarlögreglu ríkisins á þeim kærum, er henni bárust á árinu 1989.

3.c. Embætti ríkissaksóknara.

Í bréfi ríkissaksóknara til Rannsóknarlögreglu ríkisins, dags. 7. febrúar 1992, segir:

"Þann 13. september 1989 bárust ríkissaksóknara rannsóknargögn rannsóknarlögreglu ríkisins varðandi kærur á hendur [B], og [D], fyrir ætluð brot á 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Eigi er af ákæruvaldsins hálfu krafist frekari aðgerða í málinu."

Í bréfi ríkissaksóknara til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 7. febrúar 1992, segir meðal annars svo:

"Þann 28. ágúst kvað dómsmálaráðuneytið upp úrskurð í deilunni þess efnis, að ákvæði lögskilnaðarleyfisins um forræði yfir barninu skyldi standa.

Þann 29. ágúst nam [B] barnið á brott úr umsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Hinn 14. september gerðu kærandinn og kærða með sér sátt þess efnis, að barnið skyldi vistað á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur til 15. september. Þangað sótti kærandi stúlkuna 15. september og fór með hana til [heimalands A] tveimur dögum síðar.

Með hliðsjón af öllum atvikum, meðal annars í ljósi þeirra lykta málsins að stúlkan var áfram í umsjá kærandans á grundvelli nýs forræðisúrskurðar dómsmálaráðuneytisins, var af hálfu ákæruvaldsins talið, að eigi væru efni til að krefjast frekari aðgerða í málinu. Var komin upp í málinu sama staða og var áður en [B] sótti barnið til [heimalands A] 21. júlí 1989. Var því að svo stöddu ekki sent formlegt bréf til rannsóknarlögreglu ríkisins eða aðila um að málið væri fellt niður."

Í sama bréfi ríkissaksóknara til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er greint frá erindi A frá 22. ágúst 1990, þar sem hann fór þess á leit við ríkissaksóknara að hann hlutaðist til um opinbera rannsókn vegna ætlaðs brots á 193. gr. almennra hegningarlaga, vegna þess að móðirin héldi barninu í felum fyrir föður barnsins og forsjáraðila. Er ráðuneytinu gerð grein fyrir lyktum málsins hjá embætti ríkissaksóknara. Sama dag, 7. febrúar 1992, ritaði ríkissaksóknari lögmanni A bréf vegna erindis hans. Þar segir:

"Eins og kemur fram í bréfi yðar var kveðinn upp úrskurður í fógetarétti Reykjavíkur 21. ágúst 1990 þess efnis, að umbjóðanda yðar væri heimilt að fá barnið tekið úr umráðum [B] með beinni fógetagerð. Í ljósi þess og með hliðsjón af atvikum málsins þóttu eigi vera efni til að mæla fyrir um opinbera rannsókn vegna ætlaðs brots á 193. gr. almennra hegningarlaga eins og á stóð. Úrskurður þessi hefur enn ekki komið til fullnustu og hefur [C], eftir því sem næst verður komist, verið í umsjá móður sinnar frá 15. júlí 1990. Hafa forsendur ákæruvalds fyrir ofangreindri ákvörðun ekki breyst."

Eins og greinir í skýrslu minni fyrir árið 1991, tók ég á árinu 1989 til athugunar tilkynningar um niðurfellingu mála hjá embætti ríkissaksóknara (SUA 1991, bls. 75). Eftir lok athugunar minnar beindi ég þeim tilmælum til ríkissaksóknara og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að koma tilkynningum til sakaðra manna og þeirra, sem bera fram kæru, í betra horf, en misbrestur var á því, að ákvarðanir lögregluyfirvalda, að hætta rannsókn máls, og ákvarðanir ríkissaksóknara, að fella mál niður, væru tilkynntar þeim, sem hagsmuna áttu að gæta. Eiga sömu sjónarmið við í máli þessu. Var hvorugum aðila málsins gerð skrifleg grein fyrir afdrifum fyrri kæru A á árinu 1989, og honum var greint frá ákvörðun vegna kæru hans á árinu 1990, með bréfi, dags. 7. febrúar 1992. Er það, með tilliti til þeirra hagsmuna aðila, sem í húfi eru, ófullnægjandi, sbr. þau sjónarmið, sem fram koma í skýrslu minni fyrir árið 1991.

Í bréfi ríkissaksóknara til mín, dags. 9. maí 1994, segir meðal annars um ástæður þess, að ekki var mælt fyrir um lögreglurannsókn í tilefni af kæru A frá 22. ágúst 1990:

"Nokkru eftir að lögmaðurinn lagði kæruna fram þótti sýnt að nýs forsjárúrskurðar væri að vænta í dómsmálaráðuneytinu. Var það staðfest í bréfi dómsmálaráðuneytisins til ríkissaksóknara, dagsettu 29. janúar 1992, en þar segir, að úrskurðar ráðuneytisins í forsjármálinu sé að vænta á næstu mánuðum."

Í 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir, að hver, sem svipti foreldra eða aðra rétta aðila valdi eða umsjá yfir ósjálfráða barni, skuli sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt. Brot gegn ákvæði þessu fela í sér inngrip í mikilvæg persónuleg réttindi einstaklinga. Er því mikilvægt að refsivörslu af hálfu ríkisins sé haldið uppi í málum sem þessum og þannig tryggð þau fyrirbyggjandi áhrif og almannahagsmunir, sem af því leiða. Er það skoðun mín, að almennt verði að leggja það til grundvallar mati við ákvörðun um saksókn vegna meintra brota á 193. gr. almennra hegningarlaga, að lögmæt skipan á forsjá barns sé virt. Hvort grípa eigi til saksóknar í hverju einstöku tilviki, er háð mati ríkissaksóknara á atvikum málsins og líkum á niðurstöðu dómstóla. Við ákvörðun um saksókn hefur ríkissaksóknari verulegt svigrúm til mats í þeim efnum. Athugun mín hefur ekki leitt í ljós, að ákvarðanir ríkissaksóknara í máli þessu hafi verið reistar á ólögmætum sjónarmiðum eða með öðrum hætti brotið rétt á A. Ég tek hins vegar fram, að sú skýring, sem fram kemur í framangreindu bréfi, skýrir þó ekki þann drátt, sem varð á því að ríkissaksóknari tæki ákvörðun um niðurfellingu málsins og tilkynnti hana aðilum."

V.

Niðurstöður álits míns, dags. 6. október 1994, dró ég saman með svofelldum hætti:

"Það er niðurstaða mín, að með afskiptum sínum af ágreiningi aðila málsins um forsjá og umgengni við barnið C hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytið farið út fyrir lagaheimildir þær, sem því bar að vinna eftir.

Þá er það skoðun mín, að við framkvæmd innsetningargerðar samkvæmt úrskurði borgarfógeta hafi lögreglan í Reykjavík brotið gegn starfsskyldum sínum, með því að hlýða ekki fyrirmælum fógeta og hverfa af vettvangi, er aðstoðar lögreglu hafði verið leitað. Þá tel ég sérstaka ástæðu til að árétta, að lögreglustjórinn í Reykjavík fór með lögreglustjórn undir yfirstjórn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og bar að hlíta eftirlits- og boðvaldi þess.

Ég tel, að meðferð kæru A yfir brotum á 193. gr. almennra hegningarlaga hjá embætti ríkissaksóknara hafi verið í nokkru áfátt, eins og lýst hefur verið hér að framan, en tel ekki ástæðu til athugasemda við niðurstöðu embættisins í málinu."