Svör við erindum. Viðbrögð við úrskurði æðra stjórnvalds eða áliti umboðsmanns.

(Mál nr. 6295/2011)

A og B kvörtuðu yfir að hafa ekki borist svör við erindum sínum til Þjóðskrár Íslands og dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, sendum 16. nóvember 2010 í kjölfar álits setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5669/2009 er varðaði skráningu á lögheimili þeirra.

Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins við fyrirpurn umboðsmanns vegna málsins kom fram að ráðuneytið hefði nú svarað erindi A og B með bréfi þar sem fram kæmi að ráðuneytið hefði sent Þjóðskrá Íslands erindið til afgreiðslu 27. nóvember 2010 en láðst að tilkynna þeim um það. Þá kæmu fram í bréfinu upplýsingar sem ráðuneytið hafði aflað sér um fyrirhugaða afgreiðslu málsins hjá Þjóðskrá Íslands. Í samtali starfsmanns umboðsmanns við A nokkru síðar kom þó fram að fjölskyldunni hefðu engin viðbrögð borist frá Þjóðskrá Íslands. Umboðsmaður ritaði ráðherra því á ný vegna málsins. Í kjölfarið barst umboðsmanni bréf Þjóðskrár Íslands, dags. 29. apríl 2011, þar sem fram kom að A og B hefði með bréfi, dags. sama dag, verið tilkynnt um að lögheimili þeirra hefði verið skráð að nýju að ... en jafnframt að tekið yrði á ný til athugunar hvort þau hefðu haft fasta búsetu á skráðu lögheimili sínu tilgreindan dag. Þá barst bréf innanríkisráðuneytisins vegna málsins þar sem fram kom að Þjóðskrá Íslands hefði veitt ráðuneytinu þær upplýsingar að skráningu á lögheimili A og B hefði verið breytt 25. mars 2011 en láðst hefði að tilkynna um það fyrr en með bréfi, dags. 29. apríl sl. Í ljósi þess að kvörtun A og B laut að töfum og þau höfðu nú fengið svar leit umboðsmaður svo á að þau hefðu nú fengið leiðréttingu máls síns að því leyti. Hann lét athugun sinni á málinu lokið með bréfi, dags. 17. maí 2011, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður ákvað þó að rita Þjóðskrá Íslands bréf vegna stjórnsýslu stofnunarinnar í máli A og B þar sem m.a. kom fram að umboðsmaður teldi vinnubrögð Þjóðskrár Íslands í málinu ekki hafa verið í samræmi við ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram kemur að stjórnvaldsákvörðun skuli tilkynnt aðila máls eftir að hún hefur verið tekin nema það sé augljóslega óþarft

Í ljósi aðkomu innanríkisráðuneytisins að málinu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra sendi umboðsmaður innanríkisráðherra afrit af bréfi sínu til Þjóðskrár Íslansd. Í bréfi til innanríkisráðherra vegna málsins og annarra kvartana sem beindust að Þjóðskrá Íslands lagði umboðsmaður á það áherslu að ráðuneytið fullvissaði sig um að fyrirætlanir Þjóðskrár Íslands um vandaðri starfshætti gengju eftir og gripi til frekari aðgerða ef þurfa þætti. Þá óskaði umboðsmaður þess að verða upplýstur um frekari samskipti ráðuneytisins við stofnunina vegna málsins og framvindu þeirra umbóta sem boðaðar hefðu verið í starfi stofnunarinnar. (Sjá einnig mál nr. 5997/2010 og 6272/2011)