Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6285/2011)

A kvartaði yfir því að hafa ekki borist svör við erindi er hann sendi upphaflega í tölvupósti til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins 8. ágúst 2010. Erindið laut að afgreiðslu á máli A hjá lögreglunni á X og hjá ríkissaksóknara. Þá kom fram að A hefðu ekki borist svör þrátt fyrir ítrekanir, 19. september 2010 og 6. janúar 2011. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að erindið væri margþætt og það væri mat ráðuneytisins að A hefði að einhverju leyti þegar fengið svör við spurningum sínum í tölvupóstum ráðuneytisins til hans, dags. 29. júlí 2009, 18. janúar 2010 og 23. febrúar 2010. Hins vegar hefði ráðuneytið talið rétt að fara vandlega yfir efni tölvubréfsins frá 8. ágúst 2010, svara því og eftir atvikum veita ítarlegri leiðbeiningar. Áætlað væri að A yrði sent svar innan tveggja vikna. Síðar barst umboðsmanni afrit af svari innanríkisráðuneytisins við erindinu. Umboðsmaður leit svo á að A hefði fengið leiðréttingu mála sinna og taldi ekki tilefni til þess að fjalla frekar um kvörtunina og lauk málinu með bréfi, dags. 24. maí 2011, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.