Svör við erindum.

(Mál nr. 6380/2011)

A kvartaði yfir því að háskólaráð Háskóla Íslands hefði ekki afgreitt erindi hans, dags. 12. janúar 2011. Í svari háskólaráðs við fyrirspurn umboðsmanns um málið kom fram að á fundi háskólaráðs í byrjun febrúar hefði stuttlega verið gerð grein fyrir erindi A áður en það hefði verið sent til frekari umsagnar hjá stjórnsýslu háskólans. Tekið hefði lengri tíma en áætlað var að fara yfir öll gögn málsins og vinna umsögn fyrir háskólaráð. Málið yrði hins vegar á dagskrá næsta fundar háskólaráðs, sem áætlað væri að yrði haldinn 16. júní 2011. Þar sem kvörtun A laut að því að háskólaráð hefði ekki afgreitt erindi hans og í ljósi svarbréfsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtun A en tók fram að honum væri heimilt að leita til sín að nýju yrði frekari óeðlilegur dráttur á afgreiðslu málsins. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 24. maí 2011, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.