Foreldrar og börn. Meðlagsúrskurður. Innheimtustofnun sveitarfélaga. Áhrif ógildingar á faðernisviðurkenningu á innheimtu meðlagsskuldar.

(Mál nr. 1053/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. júlí 1994.

A kvartaði yfir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga héldi áfram innheimtu á meðlagsskuld á hendur honum þrátt fyrir það að dómur hefði gengið um að hann væri ekki faðir barnsins, B. A hafði gengist við því að vera faðir B og í kjölfar þeirrar viðurkenningar var kveðinn upp meðlagsúrskurður, 14. júní 1988. Dómur, sem ógilti faðernisviðurkenningu A, var kveðinn upp 6. september 1993.

Tryggingastofnun ríkisins hafði greitt meðlag til móður B samkvæmt fyrrgreindum meðlagsúrskurði, allt til 1. ágúst 1992 er greiðslur voru felldar niður á grundvelli blóðrannsóknar sem sýndi að A gæti ekki verið faðir barnsins. Hafði Innheimtustofnun sveitarfélaga kröfu þessa til innheimtu en í gögnum stofnunarinnar var miðað við að A skyldi greiða meðlag til 31. október 1992. Í bréfi til A lýsti umboðsmaður þeirri skoðun sinni að Innheimtustofnun hefði ekki lagaheimild til að fella niður innheimtu á kröfunni allri, eins og A fór fram á, en hins vegar væri stofnuninni ekki rétt að innheimta meðlagsskuld umfram þann tíma sem Tryggingastofnun ríkisins hefði greitt meðlag til móður B.

Í bréfi sínu til A lýsti umboðsmaður þeim löglíkindareglum sem ættu við um faðerni barna og réttaráhrifum faðernisviðurkenningar. Tók umboðsmaður jafnframt fram að faðernisviðurkenningu yrði eingöngu hnekkt með dómi, sbr. nú 52. gr. barnalaga nr. 20/1992, og að réttaráhrif ógildingar miðuðust við uppkvaðningu dóms. Féllu þá fyrst niður öll tengsl, réttindi og skyldur milli foreldra og barna. Þá tók umboðsmaður fram að ekki yrði séð að reynt hefði á það hvort heimild 16. gr. laga nr. 20/1992, um breytingu sýslumanns á meðlagsúrskurði vegna breyttra haga foreldra eða barns, gæti átt við þegar ljóst hafði verið að A gæti ekki verið faðir barnsins. Hefði slík breyting á meðlagsúrskurði ekki legið fyrir er Tryggingastofnun ríkisins hætti greiðslu meðlags til móður B, en þá lá fyrir ótvíræð niðurstaða blóðrannsóknar. Umboðsmaður tók fram að réttara væri að miða við þann tíma er niðurstaða blóðrannsóknar lægi fyrir og mál hefði verið höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Að því er laut að réttarstöðu A var niðurstaða umboðsmanns sú að athugasemdir yrðu ekki gerðar við framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga, að öðru leyti en því sem laut að greindu misræmi um það hve lengi meðlag var greitt með B. Hins vegar benti umboðsmaður A á að samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði stjórn stofnunarinnar heimild til að víkja frá því að taka dráttarvexti á ógreidda meðlagsskuld, vegna sérstakra ástæðna, svo sem nánar væri ákveðið í reglugerð nr. 214/1973, sbr. reglugerð nr. 210/1987.

Í tilefni af kvörtun A á hendur Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga, athugaði ég nokkuð hvernig hagaði til um meðlagsgreiðslur, og innheimtu hjá meðlagsskyldum aðila, í því tilviki, er sá, sem viðurkennt hefði faðerni barns, reyndist ekki vera faðir þess. Gerði ég A grein fyrir að ekki væri tilefni til athugasemda við framkvæmd Tryggingastofnunar og Innheimtustofnunar sveitarfélaga, umfram nokkur smærri atriði, og lýsti að nokkru réttaráhrifum faðernisviðurkenningar, og þeim reglum sem eiga við um skyldur foreldris, samkvæmt slíkri viðurkenningu, og möguleikum á ógildingu hennar. Bréf mitt til A, dags. 18. júlí 1994, er svohljóðandi:

Bréf mitt til A, dags. 18. júlí 1994, er svohljóðandi:

"I.

Ég vísa til erindis yðar, sem mér barst 16. mars sl. Þar báruð þér fram kvörtun á hendur Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna innheimtu meðlagsskuldar vegna barnsins B, sem fæddur er [í maí 1988.] Eins og fram kemur í gögnum, sem þér hafið lagt fram, var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi 6. september 1993, þess efnis að þér séuð ekki faðir drengsins. Í kvörtun yðar kemur fram, að eldri meðlagsskuld sé enn til innheimtu, þrátt fyrir niðurstöðu dómsins. Kvörtuninni fylgdi ljósrit af bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. nóvember 1993. Þar segir, að meðlagsgreiðslur til móður B hafi verið felldar niður 1. ágúst 1992 á grundvelli niðurstöðu blóðrannsóknar frá 9. júlí 1992, en að tryggingastofnunin hafi greitt móður meðlag á tímabilinu 1. júní 1988 til 31. júlí 1992, á grundvelli meðlagsúrskurðar, dags. 14. júní 1988, og að stofnunin felli ekki niður meðlagskröfur fyrir þetta tímabil. Meðlagsúrskurðurinn var, samkvæmt gögnum málsins, kveðinn upp í Sakadómi Reykjavíkur, í kjölfar þess að þér gengust við faðerni barnsins fyrir valdsmanni.

II.

Hinn 22. apríl 1994 ritaði ég Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga bréf, vegna kvörtunar yðar. Í bréfi Tryggingastofnunar til mín, dags. 2. maí 1994, segir m.a.:

"Tryggingastofnun ríkisins innheimtir ekki beint hjá skuldara, heldur sendir allar meðlagskröfur til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sem innheimtir síðan hjá skuldurum, eftir því sem hægt er.

Sveitarfélögin ábyrgjast skil til Tryggingastofnunar ríkisins, þótt ekki innheimtist hjá skuldurum og sækir í þeim tilgangi fé í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Þessi gamla skuld, sem nú, mörgum árum síðar er talin röng er því vandamál Innheimtustofnunar sveitarfélaga og skuldarans, sem viðurkenndi faðerni barnsins og skrifaði undir úrskurð á sínum tíma.

Ekki hefur fundist annar skuldari. Móðirin hefur notað peningana til framfærslu barnsins. Innheimtustofnun sveitarfélaga getur ekki afskrifað meðlagsskuldina. Meðlagskröfur fyrnast ekki."

Í bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til mín, dags. 5. maí 1994, segir, að meðlag hafi verið greitt til móður, vegna barnsins B, frá fæðingu barnsins, 1. júní 1988, til 31. október 1992. Þá segir svo í bréfi innheimtustofnunar:

"Stofnunin lítur svo á, að meðlagsgreiðslur, sem inntar eru af hendi skv. meðlagsúrskurði, áður en hann er felldur úr gildi séu lögmætar, jafnvel þó útilokun á faðerni hafi farið fram við rannsókn áður en tekist hefur að stöðva meðlagsgreiðslurnar, þar sem upplýsingar um útilokun hafi ekki borist réttum aðilum í tæka tíð.

Innheimtustofnun sveitarfélaga telur að innheimta beri meðlög, sem greidd voru í þessu tilfelli þ.e. frá fæðingu barnsins til septemberloka 1992 enda voru meðlagsgreiðslur stöðvaðar við fyrstu útborgun eftir að upplýsingar bárust Innheimtustofnun sveitarfélaga."

III.

Samkvæmt 8. gr. barnalaga nr. 9/1981 var sá talinn faðir barns, sem gekkst við faðerni fyrir valdsmanni, sbr. nú 5. gr. barnalaga nr. 20/1992. Faðernisviðurkenningu, sem og þeim löglíkindareglum, er eiga við um faðerni barna, sem getin eru í hjúskap eða sambúð, verður aðeins hnekkt með dómi, sbr. nú 52. gr. laga nr. 20/1992 um vefengingu á faðerni barns skv. 2. og 3. gr. laganna, og 53. gr. barnalaga nr. 20/1992 um ógildingu á faðernisviðurkenningu. Réttaráhrif ógildingar miðast við þann tíma, er dómur er kveðinn upp, og falla þá niður þau tengsl, réttindi og skyldur, sem eru milli foreldra og barna samkvæmt barnalögum.

Móðir barnsins B, átti því lögum samkvæmt rétt á því, að Tryggingastofnun ríkisins greiddi henni meðlag samkvæmt meðlagsúrskurði og í samræmi við efni hans. Hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga er, samkvæmt 3. gr. laga nr. 54/1971, að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra í samræmi við lög.

Samkvæmt þessu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga í máli yðar, að öðru leyti en því, að ósamræmi er í upplýsingum Innheimtustofnunar sveitarfélaga og Tryggingastofnunar ríkisins um það, hvenær meðlagsgreiðslur samkvæmt meðlagsúrskurði á hendur yður voru felldar niður. Í bréfum Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram, að meðlag hafi verið greitt samkvæmt úrskurðinum til 31. júlí 1992 - en fellt niður frá og með 1. ágúst 1992, vegna niðurstöðu blóðrannsóknar, sem lá fyrir 9. júlí 1992. Af bréfi innheimtustofnunar virðist sem meðlag hafi verið greitt til 31. október 1992, sem innheimta skuli hjá yður.

Réttaráhrif ógildingardóms miðast við uppkvaðningu hans. Þá er í 16. gr. núgildandi barnalaga nr. 20/1992 ákvæði þess efnis, að sýslumaður geti breytt meðlagsúrskurði vegna breyttra haga foreldra eða barns. Ekki verður séð að breyting á úrskurði valdsmanns hafi legið fyrir, er tryggingastofnunin felldi niður meðlagsgreiðslur til móður B, né að dómur hafi þá verið upp kveðinn. Þá tel ég ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við þá framkvæmd tryggingastofnunarinnar í máli þessu, að láta meðlagsgreiðslur falla niður, er niðurstaða blóðrannsóknar lá fyrir, sem ótvírætt sýndi fram á að meðlagsskyldur aðili gæti ekki verið faðir barnsins. Réttara væri þó, að mínum dómi, að miða við þann tíma, er niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og mál hefur verið höfðað til ógildingar faðernisviðurkenningu. Hvað sem heimildum tryggingastofnunarinnar líður, getur Innheimtustofnun sveitarfélaga þó ekki innheimt meðlag hjá foreldri, umfram það, sem tryggingastofnunin hefur greitt samkvæmt meðlagsúrskurði á hendur því. Í máli yðar er því ekki rétt, að innheimt verði meðlag lengur en til loka júlímánaðar 1992, svo sem fram kemur í skýringum tryggingastofnunarinnar að miðað hafi verið við, er meðlag var greitt. Hins vegar hefur Innheimtustofnun sveitarfélaga ekki lagaheimild til að fella niður innheimtu á þeim meðlagsskuldum, sem til hafa fallið samkvæmt úrskurði valdsmanns á tímabilinu 1. júlí 1988 til 31. júlí 1992. Tel ég því ekki ástæðu til frekari athugasemda við skýringar stofnunarinnar og framkvæmd í máli yðar.

IV.

Í athugasemdum yðar til mín, í bréfi dags. 10. júní 1994, kemur fram að þér teljið embættismann þann, er tók við faðernisviðurkenningu yðar, hafa beitt yður nauðung og gefið yður rangar upplýsingar. Ekki eru skilyrði til, að ég geti fjallað um þennan þátt í kvörtun yðar, vegna þess hve langt er um liðið síðan þér viðurkennduð faðerni barnsins og meðlagsúrskurður var kveðinn upp, sbr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

V.

Svo sem ég hef rakið hér að framan, tel ég ekki ástæðu til athugasemda við framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga í máli yðar, að öðru leyti en því, að innheimtustofnuninni er ekki rétt að innheimta meðlagsskuld yðar, umfram þann tíma, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur, samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar, greitt móður barnsins B meðlag, eftir úrskurði á hendur yður, þ.e. til 31. júlí 1992. Hefur Innheimtustofnun sveitarfélaga ekki lagaheimild til að fella niður innheimtu á kröfunni allri. Hins vegar er í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1987, heimild til stjórnar stofnunarinnar að víkja frá dráttarvaxtatöku, vegna sérstakra ástæðna, svo sem nánar er ákveðið í reglugerð nr. 214/1973, sbr. reglugerð nr. 210/1987, og gerð er grein fyrir í bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til mín, dags. 5. maí 1994, sem yður hefur borist."