Svör við erindum.

(Mál nr. 6430/2011)

A kvartaði fyrir hönd samtakanna B yfir því að ekki hefði borist svar við skriflegu erindi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 4. apríl 2011 varðandi lögmæti reglugerðar um bann við dragnótaveiðum. Í kvörtuninni kom fram að erindið hefði verið ítrekað með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns um málið kom fram að erindinu hefði nú verið svarað. Umboðsmaður leit svo á að A hefði fengið leiðréttingu mála sinna og taldi ekki tilefni til þess að fjalla frekar um kvörtunina og lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2011, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.