Almannatryggingar. Lífeyristryggingar

(Mál nr. 6414/2011)

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) kvartaði f.h. A yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um endurreikning á bótarétti hennar á árinu 2008 þannig að árstekjum hennar yrði dreift jafnt á alla mánuði ársins. Í kvörtuninni kom m.a. fram að við uppgjör og endurreikning tekju-tengdra bóta ársins 2008 hefði tekjum A á því ári verið skipt niður á tvö tímabil, janúar til júní og júlí til desember, en ÖBÍ taldi að bæta ætti 5. mgr. 16. gr. nr. 100/2007 þar sem fram kemur að leggja skuli 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótareikningi hvers mánaðar. Í kvörtuninni kom einnig fram að ÖBÍ teldi bráðabirgðaákvæði laga nr. 57/2008, þar sem mælt var fyrir um hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega frá 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009, ekki heimila þessa aðferð við endurreikning bótaréttar A. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í bréfinu benti umboðsmaður á að í 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007, sem fjallar um endurreikning bótafjárhæða, er ekki að finna fyrirmæli um að dreifa skuli endanlegum tekjum jafnt á alla mánuði ársins eins og mælt er fyrir um í 5. mgr. 16. gr. laganna sem fjallar um útreikning á áætluðum tekjum bótagreiðsluárs. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að hafna því að ákvæði 5. mgr. 16. gr. ætti við um endurreikning bóta samkvæmt 7. mgr. 16. gr. og að í tilviki A væri ekki að finna lagaheimild til að dreifa tekjum hennar á árinu 2008 jafnt á alla mánuði ársins við endurreikning á bótarétti. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast vegna kvörtunarinnar.