Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6448/2011)

Hinn 18. maí 2011 kvartaði Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) f.h. A yfir óhæfilegum drætti á afgreiðslu kæru er A bar fram við úrskurðarnefnd almannatrygginga 6. ágúst 2010. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum úrskurðarnefndarinnar til umboðsmanns kom fram að viðbótargreinargerð TR hefði verið send ÖBÍ til kynningar 3. júní 2011 og stefnt væri að því að taka málið fyrir á fundi í lok júnímánaðar. Með vísan til þess og í ljósi þess að afgreiðslan virtist vera á lokastigum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að sinni, en tók fram að teldi ÖBÍ meðferð málsins dragast enn úr hófi gæti bandalagið leitað til sín á nýjan leik. Umboðsmaður tók jafnframt fram að hann myndi hafa þær upplýsingar sem komu fram í málinu um málsmeðferðartíma fyrir úrskurðarnefndinni til hliðsjónar ef tilefni yrði til að taka málsmeðferðartíma fyrir nefndinni til almennrar athugunar.