Heilbrigðismál. Innheimta ógreiddra gjalda vegna komu á slysadeild. Meðalhófsreglan. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 1051/1994)

Máli lokið með áliti, dags. 28. júlí 1994.

A kvartaði yfir því hvernig staðið var að innheimtu ógreiddra gjalda vegna komu á slysadeild. Hefðu kröfur vegna ógreiddra gjalda hans frá sama ári verið sendar tveimur lögmönnum til innheimtu. Taldi A að senda hefði átt einum lögmanni kröfurnar til innheimtu, en með því hefði innheimtuþóknun sú sem honum var gert að greiða orðið lægri.

Með vísan til 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og grunnsjónarmiða þeirra, sem lægju að baki 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, taldi umboðsmaður rétt að samkynja kröfur fylgdust að þegar innheimta skyldi kröfur sem í vanskilum væru. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Borgarspítalans að leiðrétta mál A og gera hann eins settan og ef öllum kröfum á hendur honum vegna sjúkragjalda á slysadeild árið 1992 hefði verið komið til innheimtu í einu lagi.

I.

Hinn 15. mars 1994 leitaði til mín A og kvartaði yfir þeim hætti, sem B-spítalinn hefði á innheimtu á skuldum vegna komu sjúklinga á slysadeild. Laut kvörtun A að því, að kröfur, sem til urðu á árinu 1992, hefðu verið sendar tveimur lögmönnum til innheimtu. Hefði hann því verið krafinn sérstaklega um greiðslu gjalda vegna fyrri hluta ársins 1992, kr. 7.000,- auk dráttarvaxta, og innheimtuþóknunar, sem nam kr. 5.466,-. Frá öðrum lögmanni hafi borist innheimtubréf vegna skuldar vegna síðari hluta ársins 1992, að höfuðstól 1.950,- og innheimtuþóknun kr. 2.490,-. Innheimtubréf beggja lögmanna til A eru dagsett í janúar 1994. A kvartar yfir því, að með þessu móti þurfi hann að greiða hærri innheimtuþóknun, en hann hefði þurft að greiða, ef allar kröfurnar hefðu verið sendar sama lögmanni til innheimtu.

II.

Ég ritaði stjórn B-spítala bréf, dags. 28. mars 1994, vegna kvörtunar A. Í bréfi framkvæmdastjóra B-spítalans til mín, dags. 6. apríl 1994, sagði, að í nóvember 1993 hefði verið ákveðið að reyna þá leið, að fá lögfræðistofur til að innheimta útistandandi ógreidd sjúklingagjöld á slysadeild. Vegna þess, hve margar kröfurnar hafi verið, hafi verið ákveðið að semja við tvær lögfræðistofur um innheimtu, og hafi kröfunum verið skipt eftir tímabilum, annars vegar tímabilið janúar til júní 1992, - 2.167 nýkomur og endurkomur á slysadeild - og hins vegar tímabilið júlí til desember 1992 - 2.296 komur. Þá sagði í bréfinu:

"Í tölvuútskrift var kröfum raðað á einstaklinga innan hvors tímabils þannig að sá listi sem afhentur var lögfræðingunum sýndi heildarskuld einstaklingsins það tímabil. Litið var á þessi tvö tímabil sem algjörlega aðskilin innheimtutímabil á sama hátt og um sitt hvort árið væri að ræða.

Ástæða þess að kröfurnar voru ekki afhentar einni lögfræðistofu var annars vegar að um mjög marga einstaklinga var að ræða, en einnig vildi spítalinn fá samanburð á innheimtu frá tveimur aðilum, bæði hvað varðaði innheimtuprósentu og hver yrði viðbótarkostnaður sem sjúklingarnir þyrftu að greiða."

Með bréfi, dags. 12. apríl 1994, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf. Þau tilmæli ítrekaði ég í bréfi, dags. 10. júní 1994. Hinn 6. júlí 1994 gerði A grein fyrir sjónarmiðum sínum. Hann tók það jafnframt fram, að báðar kröfurnar væru enn ógreiddar.

III.

Í áliti mínu, dags. 28. júlí 1994, mæltist ég til þess, að gætt væri að meginreglum réttarfarslaga um innheimtu skulda, svo og grunnsjónarmiðum þeim, sem liggja að baki 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í álitinu sagði:

"Þurfi að innheimta kröfur með málsókn, er ráð fyrir því gert í lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, 27. gr., að í einu máli séu sóttar allar kröfur á hendur sama aðila, sem eru samkynja eða eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir:

"Hafi aðili ekki sótt allar kröfur sínar í máli, sem hann mátti skv. 1. mgr., er honum heimilt að sækja afgang þeirra í öðru máli, en ekki má þá dæma varnaraðila til að greiða málskostnað í nýja málinu nema sýnt þyki að ekki hafi verið unnt að höfða mál í upphafi um allar kröfurnar eða það hefði leitt til tilfinnanlegra tafa eða óhagræðis."

Sömu sjónarmið eiga við um það, er kröfur eru sendar til innheimtumeðferðar hjá lögmönnum, enda er slík innheimtumeðferð að jafnaði undanfari málsóknar. Er því eðlilegt, að samkynja kröfur fylgist að, er innheimta skal kröfur, sem eru í vanskilum. Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og grunnsjónarmiðum þeim, sem liggja að baki 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tel ég, að B-spítalanum hafi borið að gæta þess, er ákvörðun var tekin um að innheimta skuldir vegna komu sjúklinga á slysadeild árið 1992, að skuldir á hendur sama aðila yrðu sendar til innheimtu til sama lögmanns. Ég tel því ástæðu til að beina þeim tilmælum til stjórnar B-spítalans, að fara eftir framangreindum sjónarmiðum við innheimtu skulda, og jafnframt, að mál A verði leiðrétt, fari hann fram á það, þannig að hann verði eins settur fjárhagslega og hann hefði orðið, ef öllum kröfum á hendur honum vegna sjúkragjalda á slysadeild árið 1992 hefði verið komið til innheimtu í einu lagi."