Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6392/2011)

Hinn 8. apríl 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun þrátt fyrir að hann hefði skráð sig hjá Vinnumálastofnun 7. febrúar 2011. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum Vinnumálastofnunar kom fram að umsókn A hefði verið samþykkt 7. apríl 2011 og fyrsta greiðsla farið fram 14. þ.m. en sökum kerfisvillu í tölvukerfi stofnunarinnar hefði umsóknin verið staðfest með 33% í stað 100% rétti til atvinnuleysisbóta. Leiðrétting á því hefði farið fram 19. apríl 2011. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekari um kvörtunina en benti A á að ef hann væri ósáttur við afgreiðslu Vinnumálastofnunar gæti hann leitað til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 11.-12. gr. laga nr. 54/2006.