Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi.

(Mál nr. 6437/2011)

A, verkfræðingur, kvartaði yfir því að með lögum nr. 160/2010 og lögum nr. 123/2010 hefðu réttindi sín til að gera aðaluppdrætti, séruppdrætti af burðarþols- og lagnateikningum og til að starfa sem byggingarstjóri verið skert þar sem hann þyrfti nú að sækja um tímabundið starfsleyfi og greiða leyfisgjald. Þá gerði A athugasemdir við að á umsóknarblaði um starfsleyfi væri hann beðinn um að senda inn, með tilheyrandi tilkostnaði, afrit af tilteknum gögnum sem hann taldi liggja fyrir hjá umhverfisráðuneytinu. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í ljósi a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka afstöðu til kvörtunar A að því leyti sem hún sneri að starfsleyfisskyldu og gjaldtöku fyrir starfsleyfi. Þá benti umboðsmaður á að sem leyfisveitanda væri Mannvirkjastofnun heimilt að óska gagna um staðfestingu á að A uppfyllti skilyrði til að fá starfsleyfi sem byggingarstjóri, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ekki lá fyrir að gögn sem fylgja skyldu starfsleyfisumsókn lægju fyrir í umhverfisráðuneytinu eða að A hefði óskað eftir því að þau yrðu send Mannvirkjastofnun taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla frekar um þann þátt kvörtunarinnar.