Dánarbú.

(Mál nr. 6427/2011)

A kvartaði yfir því að skipti á dánarbúi C gætu ekki farið fram hér á landi þar sem skráð lögheimili hennar hefði verið erlendis. Í kvörtuninni kom fram að lögheimili C hefði verið skráð erlendis að kröfu Þjóðskrár. Af gögnum er fylgdu erindinu varð jafnframt ráðið að A væri ósátt við þá afstöðu sýslumannsins í Reykjavík að skiptin skyldu fara fram erlendis og þau rök sem hann færði fram fyrir henni. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 6. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður benti á að innanríkisráðuneytið færi með almennar eftirlits- og yfirstjórnunarheimildir gagnvart Þjóðskrá Íslands á grundvelli þess stjórnsýslusambands sem væri á milli ráðuneytisins og Þjóðskrár. Þá færi innanríkisráðuneytið jafnframt með málefni sýslumanna, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989. Af kvörtuninni og fylgigögnum hennar var ekki að fullu ljóst hvort A hefði leitað formlega til Þjóðskrár eða innanríkisráðuneytisins vegna málsins. Í ljósi sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því rétt að A freistaði þess að fá formlega úrlausn þessara stjórnvalda áður en hann tæki afstöðu til erindisins. Hann benti A hins vegar á að ef hún hefði þegar leitað formlega til innanríkisráðuneytisins vegna málsins gæti hún leitað til sín á nýjan leik með upplýsingar og gögn þar að lútandi. Það sama ætti við ákvæði hún nú að leita til ráðuneytisins og teldi sig enn rangindum beitta að fenginni úrlausn þess.