Félagsþjónusta sveitarfélaga.

(Mál nr. 6465/2011)

Hinn 1. júní barst umboðsmanni Alþingis kvörtun A yfir því að sér hefði ekki borist úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála í tilefni af kæru á ákvörðun sveitarfélags, dags. 7. mars 2011, um að synja beiðni hans um fjárhagsaðstoð. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum úrskurðarnefndarinnar kom fram að láðst hefði að stimpla móttökudagsetningu á gögn sem A lagði fram hjá nefndinni en að öllum líkindum hefði erindið verið lagt fram skömmu áður en nefndin óskaði eftir gögnum og rökstuðningi frá sveitarfélaginu, þ.e. 29. apríl 2011. Einnig sagði að málið yrði tekið til úrskurðar við fyrsta tækifæri. Í ljósi þessara skýringa taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að nefndin væri komin fram úr lögbundnum tveggja mánaða fresti samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 40/1991. Hann lauk því athugun sinni en tók fram að A gæti leitað til sín á ný yrði dráttur á afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar umfram lögbundinn frest. Umboðsmaður ritaði úrskurðarnefndinni einnig bréf og minnti á mikilvægi þess að stimpla kærur móttökudagsetningu.