Fullnusta og skuldaskil. Fjárnám.

(Mál nr. 6477/2011)

A kvartaði yfir því að fjárnáms hefði verið krafist í bifreið sinni þrátt fyrir að hann skuldaði ekkert í bifreiðinni. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í bréfinu rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 90/1989, þ. á m. 27. gr. laganna, þar sem fjallað er um mótmæli gerðarþola gegn rétti gerðarbeiðanda til að aðför nái fram að ganga, og 14. og 15. kafla laganna þar sem fjallað er um úrlausn ágreinings um aðför. Þar sem lögin gera ráð fyrir að leysa skuli úr ágreiningi um aðför, þ. á m. fjárnám, fyrir dómstólum taldi umboðsmaður það falla það utan við starfssvið sitt að fjalla um slíkan ágreining, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.