Fullnusta og skuldaskil. Nauðungarsala.

(Mál nr. 6455/2011)

A óskaði eftir afstöðu umboðsmanns Alþingis til þess hvort það stæðist stjórnarskrá eða eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, í fyrsta lagi að gera einstaklingi með lögum að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð af leigutekjum sínum, í öðru lagi að þvinga hann með lögsókn til að greiða hæstu dráttarvexti til lífeyrissjóðsins og í þriðja lagi að selja eignir hans nauðungarsölu sem leiddi til gjaldþrots viðkomandi. Erindinu fylgdi afrit af bréfi sýslumanns þar sem A var tilkynnt um nauðungarsölu og afrit af nauðungarsölubeiðni. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hvað varðaði fyrstu tvö atriðin í erindi A, þá taldi umboðsmaður þau ekki nægilega tilgreind og ekki studd nægjanlegum gögnum til að vera tæk til umfjöllunar en benti A á að hefði hann frekari athugasemdir ásamt viðeigandi gögnum fram að færa gæti hann freistað þess að leita til sín með nýja kvörtun þar sem fram kæmi við hvaða ákvarðanir eða athafnir stjórnvalda hann gerði athugasemdir. Hvað varðaði nauðungarsölu á eign A, þá benti umboðsmaður á að samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 næði starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum væri ætlast til þess að menn leituðu leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þar sem lög nr. 90/1991 gerðu ráð fyrir því að leysa skuli úr máli A fyrir dómstólum, sbr. 1. mgr. 80. gr. laganna, taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 85/1997 til að taka gildi nauðungarsölunnar til frekari athugunar.