Gjafsókn.

(Mál nr. 6476/2011)

A kvartaði yfir aðgerðaleysi innanríkisráðuneytisins vegna meints vanhæfis nefndarmanna í gjafsóknarnefnd, skipuðum sérstaklega af ráðherra til að fjalla um beiðni A um gjafsókn. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í bréfinu benti umboðsmaður á að í bréfi innanríkisráðuneytisins til A hefði þess m.a. verið óskað að A staðfesti hvort líta bæri á erindi, sem hann hafði sent ráðuneytinu, sem beiðni um endurupptöku á umsókn hans um gjafsókn og um að skipuð yrði á ný sérstök gjafsóknarnefnd til að fjalla um málið. Í ljósi þessa og með vísan til sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt, áður en hann tæki málið til umfjöllunar, að A freistaði þess að óska eftir endurupptöku gjafsóknarmálsins og nýrrar nefndarskipunar. Hann tók þó fram að teldi A enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu innanríkisráðuneytisins, og eftir atvikum gjafsóknarnefndar, gæti hann að öðru jöfnu leitað til sín á ný.