Lögreglumál. Samskipti, ummæli, framkoma.

(Mál nr. 6351/2011)

A kvartaði yfir vinnubrögðum rannsóknarlögreglumanns í tilteknu sakamáli og þá helst vegna ummæla og meintra meiðyrða við yfirheyrslu yfir vitni í málinu. Í kvörtuninni kom fram að A hefði ekki fengið svör frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum lögreglu til umboðsmanns kom m.a. fram að kvörtun A vegna samskipta við lögreglumanninn hefði verið könnuð en sú könnun hefði ekki þótt styðja ávirðingar á hendur lögreglumanninum og ekki hefði þótt grundvöllur til að taka hana til frekari meðferðar. Í síðar skýringum lögreglu kom fram að A hefði ekki verið gerð grein fyrir afdrifum erindisins en honum hefði nú verið ritað bréf þar sem beðist væri velvirðingar á því og honum skýrt frá lyktum málsins. Í ljósi þess að erindinu hafði verið svarað og með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 benti umboðsmaður A á að hann ætti þess kost að leita innanríkisráðherra með erindi sitt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 90/1996 og 4. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 177/2007. Hann gæti leitað til sín á ný að fenginni úrlausn ráðuneytisins í málinu.