Lögreglumál. Tafir á afgreiðslu.

(Mál nr. 6468/2011)

Hinn 6. júní 2011 barst umboðsmanni Alþingis kvörtun A yfir því að hafa ekkert heyrt frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa lagt fram kæru vegna heimilisofbeldis á haustmánuðum 2010 og farið í skýrslutöku í kjölfarið. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum lögreglu til umboðsmanns kom m.a. fram að mál A hefðu að undanförnu verið til meðferðar hjá ákærusviði embættisins og fyrirsjáanlegt væri að ákvörðun um saksókn lægi fyrir á allra næstu vikum. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar að sinni en tók fram að teldi A frekari óeðlilegar tafir á afgreiðslu málsins gæti hún leitað til sín á nýjan leik.