Menntamál. Framhaldsskólar.

(Mál nr. 6474/2011)

A, skólameistari, óskaði þess að umboðsmaður Alþingis kannaði hvort tiltekin grein í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla, sem sett er af ráðherra, stæðist lög nr. 92/2008. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í bréfinu benti umboðsmaður á að af erindinu yrði ráðið að það væri lagt fram í krafti starfs A sem skólameistara, þ.e. forstöðumanns ríkisstofnunar sem heyrði undir mennta- og menningarmálaráðherra. Ákvæði 4. gr. laga nr. 85/1997 hefði verið túlkað svo að það félli utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis að fjalla um stjórnsýslulegan ágreining á milli tveggja stjórnvalda nema í þeim tilvikum að stöðu þess sem kvörtun legði fram yrði jafnað til stöðu aðila sem ákvörðun stjórnvalds beindist að. Ljóst væri að sú staða væri ekki uppi. Umboðsmaður taldi því falla utan við starfssvið mitt að fjalla um kvörtunina og ekki efni til að taka kvörtunarefnið til umfjöllunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997.