Menntamál. Grunnskólar.

(Mál nr. 6446/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun Reykjavíkurborgar um sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, byggða á tillögum sem settar voru fram í skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til samreksturs og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. A tók fram að hún efaðist um lögmæti tillagnanna og ákvörðunarinnar. Jafnframt tók hún fram að Reykjavíkurborg hefði ekki gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga eða meginreglum um jafnræði og meðalhóf. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi rétt, með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að A leitaði eftir afstöðu innanríkisráðuneytisins til álitaefnisins, sbr. 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins væri henni heimilt að leita til sín á ný væri hún enn ósátt.