Sala fasteigna.

(Mál nr. 6495/2011)

A kvartaði yfir því að Alþingi hygðist setja ný lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og taldi tiltekin ákvæði frumvarps til laganna fela í sér brot á mannréttindum og atvinnuréttindum einstaklinga. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 27. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í bréfinu benti umboðsmaður Alþingis á að starfssvið hans tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 85/1997, og þar með hvernig til myndi takast með löggjöf sem Alþingi hefði í hyggju að setja. Þá væri ekki hægt að kvarta til umboðsmanns vegna meinbuga á gildandi lögum, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997, þótt öllum væri frjálst að koma á framfæri ábendingu um slík atriði. Umboðsmaður taldi ekki skilyrði að lögum til að fjalla nánar um kvörtunina.