Húsnæðismál. Byggingarsamvinnufélög. Eftirlit Húsnæðisstofnunar ríkisins. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 818/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 17. nóvember 1994.

A kvartaði yfir því að Húsnæðisstofnun ríkisins hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdum og húsbyggingum 11. áfanga byggingarsamvinnufélagsins Byggung í Kópavogi. Höfðu húsbyggjendur í þessum áfanga ritað félagsmálaráðuneytinu bréf þar sem því var m.a. haldið fram að kostnaður vegna óseldra íbúða hefði verið færður á félagsmenn, byggingarkostnaður hefði hækkað vegna breytinga á teikningum sem vanrækt hefði verið að kynna félagsmönnum, fjármögnunaráætlun hefði ekki verið gerð og fjármögnun ekki verið hagstæð. Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir því við Húsnæðisstofnun að stofnunin léti bókhaldsfróðan aðila rannsaka uppgjör vegna byggingarkostnaðar. Eftir að húsnæðismálastjórn synjaði erindi þessu ítrekaði félagsmálaráðuneytið beiðni sína og vísaði til lögboðinnar eftirlitsskyldu Húsnæðisstofnunar.

Í forsendum álits umboðsmanns er bent á að ekki sé að finna nein ummæli í lögskýringargögnum um það að hvaða þáttum í framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga eftirlit Húsnæðisstofnunar eigi að beinast. Þó yrði að telja að þungamiðja eftirlitsins væri fjárhagslegs eðlis. Við skýringu á því hve umfangsmikið eftirlitið ætti að vera bæri að líta til þeirra hagsmuna sem vernda ætti. Áður hefði eftirlitið m.a. verið til verndar opinberum hagsmunum þar sem ríkisábyrgð hefði þá verið veitt á lánum til byggingarsamvinnufélaga, en nú væru það aðallega hagsmunir félaga byggingarsamvinnufélaga sem eftirlitinu væri ætlað að vernda. Þá varð að líta til þess að kosnir voru þrír menn í hverjum byggingarflokki til að fylgjast með framkvæmdum og fjárreiðum flokksins. Með tilliti til hlutverks þessara eftirlitsmanna taldi umboðsmaður eðlilegast að skýra eftirlitshlutverk Húsnæðisstofnunar svo að henni bæri að ganga eftir því að fá senda ársreikninga og hafa eftirlit með því að þeir væru í lögmæltu formi og endurskoðaðir af hinum kosnu eftirlitsmönnum og löggiltum endurskoðanda. Ekki varð ráðið af skýringum Húsnæðisstofnunar að hún hefði haft markvisst og reglubundið eftirlit með þessum þáttum, en umboðsmaður tók fram að stofnunin hefði á ýmsan hátt komið til móts við óskir A, við athugun á málinu.

Umboðsmaður tók fram að líta yrði svo á að í ákvæðum, sem mæltu fyrir um samþykki eða staðfestingu stjórnvalds á ákvörðunum, reglum eða áætlunum, fælist yfirleitt skylda fyrir það stjórnvald til endurskoðunar eða eftirlits með lögmæti, og í sumum tilvikum hagkvæmni, hlutaðeigandi gernings. Hefði sú skylda hvílt á stjórn byggingarsamvinnufélags að láta semja áætlun um byggingarframkvæmdir ásamt greinargerð um öflun nauðsynlegs fjármagns, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög. Skyldi óheimilt að hefja framkvæmdir þar til húsnæðismálastjórn hefði samþykkt framkvæmdaáætlun félagsins. Framkvæmdaáætlun Byggung fyrir 11. áfanga var ekki borin undir Húsnæðisstofnun til staðfestingar. Það féll utan verksviðs umboðsmanns að fjalla um ábyrgð félagsins eða stjórnenda þess vegna þessa, en umboðsmaður taldi að Húsnæðisstofnun ríkisins hefði borið að benda stjórn félagsins á þennan annmarka, eftir að stofnuninni höfðu borist upplýsingar um hann.

Að lokum benti umboðsmaður á að ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993, er mæla fyrir um eftirlit Húsnæðisstofnunar ríkisins með framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga, væru ekki nægilega skýr, og því til þess fallin að valda réttaróvissu. Taldi umboðsmaður brýnt að ákvæði þessi yrðu endurskoðuð, sem og ákvæði reglugerðar nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög sem um þetta fjalla. Væri mikilvægt að lagaákvæði um opinbert eftirlit gæfu skýrlega til kynna að hvaða þáttum eftirlitið lyti, hvernig því skyldi hagað og til hvaða úrræða mætti grípa. Vakti umboðsmaður athygli Alþingis og félagsmálaráðherra á meinbugum þessum í samræmi við 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

I.

Hinn 30. apríl 1993 barst mér kvörtun A, yfir því, að Húsnæðisstofnun ríkisins hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdum og húsbyggingum 11. áfanga byggingarsamvinnufélagsins, Byggingarfélag ungs fólks, Kópavogi ("Byggung í Kópavogi").

II.

Málavextir eru þeir, að hinn 21. apríl 1992 rituðu íbúar í X 1 og 3, sem var 11. áfangi "Byggung í Kópavogi", félagsmálaráðuneytinu bréf, þar sem kvartað er yfir fjártöku, ósannsögli og ábyrgðarleysi framkvæmdastjóra og stjórnar félagsins. Nánar laut kvörtunin að því, að færður hefði verið kostnaður vegna óseldra íbúða á félagsmenn, byggingarkostnaður hefði hækkað vegna breytinga á teikningum, sem vanrækt hefði verið að kynna félagsmönnum, framkvæmdastjóri hefði skýrt félagsmönnum ranglega frá hlutverki eftirlitsmanna skv. 7. gr. reglugerðar um byggingarsamvinnufélög, byggingarsamningar hefðu ekki uppfyllt skilyrði 6. gr. reglugerðarinnar um viðurlög við vanefndum, fjármögnunaráætlun hefði ekki verið gerð og fjármögnun ekki verið hagstæð. Var þess óskað að Húsnæðisstofnun ríkisins sinnti eftirlitsskyldu sinni og endurskoðaði bókhald félagsins og ársreikninga.

Í framhaldi af fundi með félagsmálaráðherra um vanda þessara húsbyggjenda rituðu þeir húsnæðismálastjórn bréf, dags. 24. apríl 1992, þar sem farið var fram á aðstoð hennar við að athuga fjármál byggingaráfangans og kanna, hvort þeir ættu að réttu að greiða þennan kostnað, og ef svo væri, hvort ekki væri unnt að veita byggjendum hagstæð langtímalán fyrir óvæntum viðbótarkostnaði, en ella stefndi í að flestir misstu íbúðir sínar.

Húsnæðisstofnun sótti um undanþágu frá félagsmálaráðuneytinu til þess að geta veitt fyrirgreiðslu þeim félagsmönnum áfangans, sem þess óskuðu. Ráðuneytið féllst á þá tilhögun.

Fram kemur í bréfi til framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar frá lögfræðideild hennar, dags. 5. maí 1992, að deildin teldi Húsnæðisstofnun ekki bera lögum samkvæmt nein skylda til að verða við beiðni um að athuga fjármál byggingaráfangans og kanna, hvort íbúunum bæri að greiða bakreikninga. Þessir aðilar yrðu að leita til lögmanna og/eða til löggiltra endurskoðenda.

Hinn 10. júní 1992 ritaði félagsmálaráðuneytið bréf til Húsnæðisstofnunar og óskaði eftir því, að stofnunin léti fara fram rannsókn af bókhaldsfróðum aðila á uppgjöri vegna byggingarkostnaðar íbúða, meðal annars að X 1 og 3 í Kópavogi, á vegum Byggung í Kópavogi. Var í þessu sambandi vísað til þess eftirlitshlutverks, sem Húsnæðisstofnun væri falið með lögum um byggingarsamvinnufélög.

Erindi þessu var synjað, skv. bókun fundar húsnæðismálastjórnar, "þar sem stofnunin hefur ekki lagt þann skilning í ákvæði laganna, að hún eigi að framkvæma það sem um er beðið í bréfi ráðuneytisins".

Með bréfi, dags. 22. júlí 1992, ítrekaði félagsmálaráðuneytið beiðni sína og lýsti yfir furðu sinni á afgreiðslu húsnæðismálastjórnar. Lagði ráðuneytið áherslu á, að Húsnæðisstofnun sinnti lögboðinni skyldu sinni og kynnti sér kvartanir félagsmanna í "Byggung í Reykjavík" og "Byggung í Kópavogi" og léti fram fara nauðsynlegar athuganir á rekstri umræddra félaga.

III.

1.

Ég ritaði Húsnæðisstofnun ríkisins bréf, dags. 18. maí 1993, og óskaði þess að hún léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega óskaði ég upplýsinga um, hvernig almennt væri staðið að eftirliti með byggingarsamvinnufélögum og hvernig eftirliti með 11. áfanga "Byggung í Kópavogi" hefði verið hagað af hálfu stofnunarinnar.

Svar Húsnæðisstofnunar barst mér með bréfi, dags. 1. júlí 1993. Í því kemur eftirfarandi m.a. fram:

"Það er ekki rétt að Húsnæðisstofnunin hafi ekki sinnt "eftirlitsskyldu sinni" með framkvæmdum í 11. byggingarflokki hjá bsf. Byggung í Kópavogi. Það gerði hún með sama hætti og tíðkast hefur, allt frá því að þ.a.l. lagaákvæði tóku gildi. Í bréfi byggjenda í flokki þessum til húsnæðismálastjórnar, ds. 24. apríl 1992, greina þeir frá "bakreikningum, óútskýrðum fjármagnskostnaði, óreiðu á fjármálum, framkvæmdum og upplýsingaskyldu stjórnar. Beiðni um skoðun á 11. byggingaráfanganum og lánafyrirgreiðslu". Þegar eftir að bréf þetta barst hófst stofnunin handa við athugun á málinu og var talsverð vinna lögð í helstu þætti þess. Fólst hún m.a. í samtölum og fundahöldum með talsmönnum byggingarflokksins. Svo sem síðar verður skýrt frá í þessu bréfi urðu aðgerðir stofnunarinnar til þess, að byggjendur í flokki þessum una við orðinn hlut, eftir því, sem bezt er vitað; og altént hafa þeir ekki óskað eftir frekari afskiptum stofnunarinnar af sínum málum né heldur frekari fyrirgreiðslu. Viðhorf stjórnarinnar til þessa máls er því það, að stofnunin hafi gert það, sem henni bar að gera og í hennar valdi stóð. Sá fyrirvari er þó á hafður, að bókhaldsgögn flokksins (og félagsins) eru nú í athugun hjá löggiltum endurskoðanda og er niðurstöðu að vænta innan skamms. Verður hún þá send félagsstjórninni og talsmönnun byggingarflokksins; og jafnframt gripið til annarra aðgerða, ef tilefni er til. Komi ekkert óvænt í ljós má vænta þess, að þar með sé þessu máli lokið.

...

[Eftirlit] stofnunarinnar hefur verið fólgið í því, að þegar einstakir félagsmenn í byggingarsamvinnufélögum, stjórnir byggingarflokka eða stjórnir félaganna sjálfra hafa leitað til hennar með vandkvæði sín, hefur hún ætíð brugðist vel við, tekið málin til ítarlegrar athugunar og gert sitt bezta til að leysa þau. Í þessu efni hefur hún aldrei sparað neitt, hvorki tíma, fé né fyrirhöfn. Hefur hún stundum reitt fram stórar fjárhæðir í þessu skyni, ýmist sem sérstök lán eða til greiðslu á kostnaði við bókhaldsrannsókn. Auk heldur hafa starfsmenn hennar gjarnan lagt fram mikla vinnu við könnun á ýmsum þáttum í starfsemi félaganna, eftir því sem ástæða hefur þótt til, einkum í lögfræðideild hennar og tækniþjónustu (kostnaðareftirlit).

Öll laga- og reglugerðarákvæði varðandi eftirlitshlutverk það, sem hér er gert að umtalsefni, hafa alla tíð verið harla takmörkuð og fremur óglögg, að mati þessarar stofnunar. Þar hefur t.d. ekki komið fram hvort eftirlitið ætti að vera fjárhagslegs eðlis, tæknilegs eða félagslegs, nema e.t.v. allt þetta í senn. Vafalaust hefur þó fyrst og fremst verið átt við fjárhagslegt eftirlit. Lögmenn, er stofnunin hefur ráðfært sig við, hafa heldur ekki verið á eitt sáttir um það hve víðtækt það ætti að vera. Sumir hafa nánast talið, að með tilv. lagaákvæði væru bsf.-félögin nánast sett undir "opinbert eftirlit", sem svo er gjarnan nefnt; aðrir að eftirlitið væri bezt sem minnst; enn aðrir að stofnunin ætti því aðeins að láta mál til sín taka, að sérstakt tilefni gæfist til. Húsnæðisstofnunin hefur framfylgt síðastnefnda sjónarmiðinu. Hafi henni, með formlegum hætti, verið gert viðvart um vandræði hjá byggingarsamvinnufélagi, og verið leitað eftir liðveizlu hennar af því tilefni, hefur hún þegar í stað brugðizt við. Þá hafa mál verið könnuð ítarlega, en jafnframt veitt aðstoð og fyrirgreiðsla af ýmsu tagi. Þannig hefur stofnunin tekið föstum tökum öll erfið og vandasöm mál, er henni hafa borizt; en haft sem minnst afskipti af hvers konar misklíð, urg og óánægju, sem oftsinnis hafa komið upp innan vébanda þessara félaga; enda hefði það ært óstöðugan hefði hún haft afskipti af öllum þeim málum."

Athugasemdir A við svar Húsnæðisstofnunar bárust mér með bréfi, dags. 20. ágúst 1993.

Afrit af bréfi..., löggilts endurskoðanda, til tæknideildar Húsnæðisstofnunar, dags. 12. ágúst 1993, barst mér þann 21. október 1993. Er það svohljóðandi:

"Erindi um skoðun á ársreikningum Byggung - Kópavogi fyrir árin 1989, 1990 og 1991.

Ársreikningar Byggung - Kópavogi eru þannig gerðir að uppgjör félagssjóðs er birt sérstaklega og síðan hver áfangi fyrir sig. Uppsetningin er þannig að auðvelt er að skoða fjárhag hvers byggingaráfanga fyrir sig og stöðu hans við aðra áfanga. Byggingarkostnaður hvers áfanga er vel sundurliðaður svo og aðrar eignir og skuldir. Reikningar eigenda eru sundurliðaðir sérstaklega en upplýsingar um uppreikning þeirra og vaxtaútreikningur hefði mátt fylgja. Sameiginlegum rekstrarkostnaði og yfirumsjón starfandi áfanga er skipt upp í uppgjöri félagssjóðs í hlutfalli við veltu. Skipting sem þessi er ætíð háð mati hverju sinni.

Ársreikningarnir eru allir áritaðir af stjórn félagsins. Uppgjör hvers áfanga er áritað af löggiltum endurskoðanda. Félagskjörnir skoðunarmenn (fyrir hönd húsbyggjendanna) eiga einnig að fara yfir bókhald hvers áfanga fyrir sig og árita ársuppgjörin og fengum við efnahagsreikning 11. byggingaáfanga þann 31. desember 1990 sem dæmi um það. Betra hefði verið að áritanir skoðunarmanna áfanganna hefði fylgt öllum ársreikningunum. Ársreikningarnir hafa allir verið yfirfarnir og endurskoðaðir og þannig staðfestir af réttum aðilum.

Skoðun á byggingarkostnaði af okkar hálfu og Húsnæðisstofnunar hefur ekki farið fram. Í 116. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 86/1988 með síðari breytingum hefur stofnunin eftirlits og leiðbeiningarhlutverki að gegna gagnvart byggingarsamvinnufélögum. Hefur verið litið svo á að þetta hlutverk Húsnæðisstofnunar sé almenns eðlis og hefur stofnunin ekki gert kröfu um umsagnir í upphafi framkvæmda né úttektir á lok framkvæmda. Í ljósi þessa hefur ekki verið lagt mat á byggingarkostnað eða önnur atriði í ársreikningum eða starfsemi Byggung - Kópavogi."

Athugasemdir A við þetta bréf bárust mér með bréfi, dags. 27. október 1993.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 1993, kom Húsnæðisstofnun á framfæri við mig "Greinargerð um eftirlit Húsnæðisstofnunar ríkisins með starfsemi byggingarsamvinnufélaga", dags. 22. nóvember 1993, sem leggja skyldi fram til kynningar á næsta fundi húsnæðismálastjórnar. Í greinargerðinni kemur fram sú skoðun, að lög og reglur lesnar í samhengi meðal annars við eftirlitshlutverk þriggja manna hóps húsbyggjenda og löggilts endurskoðanda bendi ekki til víðtæks eftirlitshlutverks Húsnæðisstofnunar. Af lagatextanum megi jafnvel ráða að hægt sé að beina til stofnunarinnar ósk um nánari skoðun á ársreikningum og bókhaldi, og sé félaginu þá skylt að veita aðilum frá stofnuninni aðgang að þeim gögnum. Húsnæðisstofnun hljóti að meta, hvort hún skuli verða við slíkri beiðni, enda hafi stofnunin engin úrræði til að þvinga fram þá lausn, sem hún kunni að telja rétta. Raunar sé vandséð, að bókhaldsrannsókn eða annað "eftirlit" stofnunarinnar þjóni einhverjum tilgangi, ræki eftirlitsnefnd félagsmanna skyldur sínar. Þar sem lög og reglugerðir veiti engin úrræði til úrbóta, verði ekki annað séð en að hlutverk Húsnæðisstofnunar sé einungis leiðbeininga- og ráðgjafahlutverk, nema að því er varðar beinar lánveitingar. Þá telur Húsnæðisstofnun að bókhaldsleg endurskoðun hennar leysi ekki vanda byggingarsamvinnufélaga. Hann sé af öðrum rótum runninn. Telur stofnunin, að hún hafi, þegar á allt er litið og miðað við aðstæður hverju sinni, gert eins vel og kostur var og Alþingi og stjórnvöld ætluðust til.

2.

Hinn 30. ágúst 1993 ritaði ég félagsmálaráðherra bréf og óskaði skýringa ráðuneytisins á afstöðu sinni til kvörtunar A. Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 29. desember 1993. Í því kemur eftirfarandi fram:

"Það er skoðun ráðuneytisins að eftirlitshlutverk Húsnæðisstofnunar sé ekki svo víðtækt sem [A] túlkar það í sínum skrifum. Ef stofnunin hefði átt að gegna svo víðtæku eftirlitshlutverki gagnvart byggingarsamvinnufélögum hefði að mati ráðuneytisins þurft að vera skýrari lagaákvæði þar að lútandi, auk þess sem í lögum hefði þurft að tryggja stofnuninni aðstöðu og úrræði til þess að framfylgja slíku eftirliti. Enn fremur er á það bent að skv. 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 97/1993 er félagsmönnum byggingarflokks veitt úrræði til að fylgjast með byggingarframkvæmdum og fjárreiðum byggingarsamvinnufélaga. Telur ráðuneytið með hliðsjón af þessum lagaákvæðum og eðli samvinnufélaga að eftirlitsskyldur með byggingarsamvinnufélögum hvíli fyrst og fremst á félagsmönnum sjálfum og að Húsnæðisstofnun eigi aðeins að grípa inn í þegar sérstakt tilefni er til, svo sem vegna rökstuddra ábendinga félagsmanna eða þegar stofnunin telur nauðsynlegt að fá nánari skýringar á ársreikningum félaganna. Hlutverk stofnunarinnar sé þá að gefa hlutlæga sérfræðiumsögn og óska eftir opinberri rannsókn ef tilefni er til. Er í þessu sambandi einnig vakin á því athygli að frá því að þetta ákvæði var lögfest hafa tengsl ríkisins við byggingarsamvinnufélög breyst þannig að ekki eru sömu rök fyrir eftirlitsskyldu opinberra aðila og áður. Þannig nutu byggingarsamvinnufélög samkvæmt lögum nr. 36/1952 og lögum nr. 59/1973 ríkisábyrgðar á skuldabréfum sínum. Ekki er heldur lengur um að ræða lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins til fjármögnunar byggingarsamvinnufélaga. Sú orðalagsbreyting, sem átti sér stað með lögum nr. 60/1984 og gerð var grein fyrir hér að ofan ["öruggt eftirlit" verður að "eftirlit"] styður þá niðurstöðu að vilji löggjafans hafi verið sá að draga úr eftirlitsskyldum Húsnæðisstofnunar með byggingarsamvinnufélögum. Telur ráðuneytið að eftirlitsskyldur stofnunarinnar séu nú fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis þar sem eftirlit með byggingarframkvæmdunum sem slíkum hafi byggst á því að þær voru í gildistíð eldri laga fjármagnaðar með framkvæmdaláni til framkvæmdaaðila sem greidd voru á byggingartímanum. Framkvæmdalán voru síðan greidd upp með lánum úr Byggingarsjóði ríkisins til kaupenda íbúðanna. Þær breytingar sem gerðar voru á lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins með lögum nr. 54/1986 leiddu til þess að lánsumsóknir einstakra kaupenda í byggingarflokki voru afgreiddar á mismunandi tímamarki og því var eftir gildistöku laganna ekki lengur unnt að koma framkvæmdalánum við. 29. gr. laga nr. 60/1984, sem kvað á um framkvæmdalán, var þó ekki úr gildi felld fyrr en með 13. gr. laga nr. 47/1991. 2. málsl. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 60/1984 (2. málsl. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 86/1988), sem 2. mgr. 9. gr. reglugerðar um byggingarsamvinnufélög á sér stoð í, var þó ekki felld á brott fyrr en með 19. gr. laga nr. 61/1993. Er þörf á því að endurskoða ákvæði reglugerðarinnar með tilliti til þessara breytinga og jafnvel lögin sjálf með hliðsjón af því að ákvæði þeirra um eftirlitsskyldur Húsnæðisstofnunar hafa valdið vafa í framkvæmd.

...

Í bréfi [A], dags. 26. apríl sl., kemur fram að í apríl 1992 hafi byggjendur í 11. áfanga Byggung í Kópavogi fengið að vita um 30 milljón króna umframkostnað og í framhaldi af því hafi þeir snúið sér til félagsmálaráðuneytis og Húsnæðisstofnunar með beiðni um fjárhagsaðstoð og rannsókn á málefnum byggingarsamvinnufélagsins. Komið hafi verið til móts við fyrrnefndu beiðnina en ekki hina síðarnefndu.

Í bréfi sínu dags. 20. ágúst sl. kvartar [A] enn fremur yfir því að Húsnæðisstofnun hafi brugðist skyldum sínum með því að byggingarsamvinnufélagið hafi hafið byggingarframkvæmdir án þess að húsnæðismálastjórn hafi staðfest framkvæmdaáætlun félagsins, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 90/1985. Telur hann að stofnunin hefði átt að stöðva framkvæmdir þar til framkvæmdaáætlun lægi fyrir. Hann telur einnig að stofnunin hefði átt að kynna byggjendum rétt sinn varðandi veru þeirra í byggingarsamvinnufélagi og vara fólk við að taka þátt í þessum félögum. Einnig tilgreinir hann að opinberar ásakanir byggjenda í 9. og 10. áfanga sama byggingarsamvinnufélags og beiðni þeirra um aðstoð Húsnæðisstofnunar um mitt ár 1990 hefði átt að vera ærið tilefni til að stofnunin brygðist við.

Í bréfi Húsnæðisstofnunar, dags. 1. júlí sl., kemur fram að þegar, eftir að bréf byggjenda dags. 26. apríl 1992 hafi borist stofnuninni, hafi verið hafist handa um athugun á málinu en stofnunin hefði fyrir þann tíma enga ástæðu haft til að ætla annað en framkvæmdir á vegum þessa byggingarflokks gengju vel og eðlilega fyrir sig. Athugun hefði farið fram hjá þjónustuforstjóra vegna verkstjórnar og samræmingar við meðferð málsins, í ráðgjafarstöð vegna greiðsluvanda fólksins, í tækniþjónustu vegna athugunar á byggingarkostnaði, í lögfræðideild varðandi hlutverk stofnunarinnar í málinu og í húsbréfadeild vegna hugsanlegra lánveitinga. Í bréfinu kemur enn fremur fram að fólkið hafi lagt mjög mikla áherslu á að tryggja sér langtímalán til lausnar á málinu og því hefði í reynd sú hlið málsins fengið nokkurn forgang í stofnuninni. Löggiltum endurskoðanda hafi síðan verið falið að gera könnun á bókhaldi félagsins. Í bréfi stofnunarinnar dags. 30. nóv. sl. kemur fram að sú könnun hafi eigi gefið til kynna að stórfelld mistök hafi átt sér stað í byggingarframkvæmdum félagsins eða að illa hafi verið haldið á fjármunum þess og einstakra byggjenda.

Varðandi viðhorf ráðuneytisins til kvörtunar [A] skal tekið fram að með bréfi til húsnæðismálastjórnar dags. 10. júní 1992 óskaði ráðuneytið eftir því að Húsnæðisstofnun léti fara fram rannsókn af bókhaldsfróðum aðila á uppgjöri vegna byggingarkostnaðar íbúða í þessum byggingarflokki með vísan til þess eftirlitshlutverks sem stofnuninni er falið með lögum. Í bréfum húsnæðismálastjórnar var tilkynnt að stjórnin hefði ekki talið sér fært að verða við erindi ráðuneytisins. Í bréfi ítrekaði ráðuneytið ósk um rannsókn og í framhaldi af því mun endurskoðanda hafa verið falið að gera könnun á bókhaldi byggingarsamvinnufélagsins. Eins og fram kemur í bréfi [...] endurskoðanda, dags. 12. ágúst sl., fól athugun hans ekki í sér skoðun og mat á byggingarkostnaði. Í bréfi Húsnæðisstofnunar, dags. 30. nóv. sl., kemur hins vegar fram að stofnunin hafi komið því á framfæri við sama endurskoðanda og tækniþjónustu stofnunarinnar að þau efnisatriði, sem gerð er grein fyrir í fylgiskjali með bréfi [A], dags. 20. ágúst sl., verði rannsökuð til hlítar. Eftir því sem ráðuneytið veit best mun þeirri athugun ekki vera lokið.

Af ofangreindu er ljóst að ráðuneytið taldi að Húsnæðisstofnun hefði ekki brugðist á tilhlýðilegan hátt við beiðni byggjenda um rannsókn í upphafi. Ráðuneytið telur hins vegar að með því að fela endurskoðanda könnun á bókhaldi byggingarsamvinnufélagsins og með því að fyrirskipa könnun á áðurgreindum efnisatriðum hafi stofnunin brugðist rétt við. Ráðuneytið treystir sér ekki til að láta í ljós álit á því hvort kvartanir byggjenda í 9. og 10. flokki sama byggingarsamvinnufélags árið 1990 hefðu átt að vera tilefni til þess að stofnunin brygðist við enda hefur ráðuneytið ekki í höndum fullnægjandi gögn til mats á því.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög er byggingarsamvinnufélagi óheimilt að hefja byggingarframkvæmdir fyrr en húsnæðismálastjórn hefur staðfest framkvæmdaáætlun félagsins. Þessu ákvæði mun ekki hafa verið fylgt í því tilviki sem hér um ræðir. Ráðuneytið telur þó ekki að lagaskilyrði séu til þess að húsnæðismálastjórn gæti lagt fram kröfu um lögbann á framkvæmdir í slíkum tilvikum. Hins vegar hefði getað komið til álita að beita sektarákvæðinu í 13. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til þess sem fram kemur hér að ofan telur ráðuneytið að það falli ekki undir eftirlitshlutverk Húsnæðisstofnunar að kynna byggjendum almennt rétt sinn varðandi veru í byggingarsamvinnufélagi og jafnvel vara fólk við að taka þátt í þessum félögum eins og fram kemur hjá [A]."

Athugasemdir A við bréf ráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 10. janúar 1994.

Með bréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 5. maí 1994, barst mér bréf endurskoðanda til húsnæðisstofnunar, dags. 15. apríl 1994:

"Erindi um skoðun á ársreikningi Bygging - Kópavogi fyrir árið 1992 og umsögn um erindi [A] húsbyggjanda til umboðsmanns Alþingis.

Ársreikningur 1992 er gerður með sama hætti og ársreikningar undanfarinna ára sem við höfum þegar fengið til umsagnar.

Ársreikningar Byggung - Kópavogi eru þannig gerðir að uppgjör félagssjóðs er birt sérstaklega og síðan hver áfangi fyrir sig. Uppsetningin er þannig að auðvelt er að skoða fjárhag hvers byggingaráfanga fyrir sig og stöðu hans við aðra áfanga. Byggingarkostnaður hvers áfanga er vel sundurliðaður svo og aðrar eignir og skuldir. Reikningar eigenda eru sundurliðaðir sérstaklega en upplýsingar um uppreikning þeirra og vaxtaútreikninga hefðu mátt fylgja. Sameiginlegum rekstrarkostnaði og yfirumsjón starfandi áfanga er skipt upp í uppgjöri félagssjóðs í hlutfalli við veltu. Skipting sem þessi er ætíð háð mati hverju sinni.

Ársreikningur 1992 er lagður fram og áritaður af stjórn félagsins en stjórnin er öll úr 11. áfanga. Félagskjörinn endurskoðandi áritar ársreikning félagssjóðs án fyrirvara. Löggiltur endurskoðandi fór yfir og endurskoðaði bókhald 11. áfanga og áritaði uppgjörið án fyrirvara. Félagskjörnir skoðunarmenn fyrir hönd húsbyggjenda í 11. áfanga fengu að skoða öll gögn áfangans og höfðu þeir tvo löggilta endurskoðendur sem aðstoðarmenn með sér. Félagskjörnu skoðunarmennirnir árituðu ekki uppgjörið en gerðu heldur ekki athugasemdir við efni uppgjörsins. Ársreikningurinn var þannig samþykktur á félagsfundi og stjórnin endurkjörin. Framkvæmdum við 9. og 10. áfanga var löngu lokið þó endanleg uppgjör væru ekki afstaðin. Vegna þess voru birtir efnahagsreikningar 31. desember 1992 fyrir þessa áfanga. Samkvæmt þessu er ársreikningur Byggung - Kópavogi fyrir árið 1992 formlega samþykktur. Þó hefði verið betra að hafa áritanir skoðunarmanna hvers áfanga fyrir sig með uppgjörinu. Sú fimm manna stjórn sem kosin var á vordögum 1992 úr hópi byggjenda 11. áfanga hefur setið síðan og er að ljúka endanlegu uppgjöri áfangans samkvæmt upplýsingum frá fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins.

Vegna erindis [A] til umboðsmanns Alþingis vekur athygli að hann setur fram skoðanir sínar í nafni byggjenda í 11. áfanga, en það eru sömu aðilar og hafa skipað stjórn félagsins, annast val endurskoðenda og annast rekstur félagsins frá 1992, og fyrir þann tíma með 9. og 10. áfanga. Miðað við efni þessara athugasemda ættu félagsfundir og stjórnarfundir að vera eðlilegur vettvangur þessara umræðna. Auk þess hefði eftirlit félagsmanna og skoðunarmanna átt að draga fram ef eitthvað óeðlilegt væri að gerast í starfsemi félagsins. Ársreikningar undanfarinna ára hafa verið endurskoðaðir og samþykktir athugasemdalaust og kemur þannig fram vilji og álit meirihluta félagsmanna hverju sinni.

Í ljósi þessa vakna spurningar um það fyrir hvern og með hvaða hagsmuni í huga frekari rannsóknir á starfsemi Byggung - Kópavogi ætti að fara fram. Tekið skal fram að við höfum ekki skoðað efnislega athugasemd [A]."

IV.

Í áliti mínu gerði ég grein fyrir löggjöf um byggingarsamvinnufélög og eftirlit með framkvæmdum og húsbyggingum þeirra, og rakti þær breytingar á löggjöf og stjórnvaldsfyrirmælum, sem lutu að kvörtun A. Í álitinu segir:

"Ákvæði um eftirlit með byggingarsamvinnufélögum hafa verið í lögum frá því að fyrstu lög voru sett um byggingarsamvinnufélög. Kvað 13. gr. laga nr. 71/1932 um byggingarsamvinnufélög svo á, að ríkisstjórnin sæi um öruggt eftirlit með framkvæmdum og húsbyggingum þeirra félaga, er störfuðu samkvæmt lögunum. Mælti C-liður 3. greinar laganna fyrir um ríkisábyrgð á lánum félaganna. Engar skýringar er að finna í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi því, er varð að umræddum lögum (Alþt. 1932, A-deild, bls. 531). Samsvarandi ákvæði er að finna í 25. gr. og C-lið 15. gr. laga nr. 36/1952, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, sem er endurútgáfa laga nr. 44/1946 með síðari breytingum. Ekki er heldur að finna skýringar í greinargerð með frumvarpi því, er varð að þessum lögum, hvað í eftirlitinu eigi að felast (Alþt. 1951, A-deild, bls. 953 og Alþt. 1945, A-deild, bls. 405 og 411). Í 34. gr. laga nr. 30/1970 um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sbr. lög nr. 59/1973, voru svohljóðandi ákvæði:

"Húsnæðismálastofnun ríkisins skal vera stjórnum byggingarsamvinnufélaga til aðstoðar og leiðbeiningar við byggingarframkvæmdir og undirbúning þeirra, sbr. 3. gr. Stofnunin skal m.a. aðstoða við útvegun leigulóða og láta í té teikningar í samræmi við þá grein. Enn fremur skal hún með framkvæmdalánum samkvæmt A-lið 8. gr. stuðla að því, að unnt sé að bjóða út framkvæmdir.

Húsnæðismálastofnun skal hafa öruggt eftirlit með framkvæmdum og húsbyggingum samvinnufélaga. Skal þeim skylt að senda Húsnæðismálastofnuninni ársreikninga sína, og jafnan skal hún hafa aðgang að bókhaldi þeirra. Þá skal hún vinna að því að koma á samræmdum reglum um skiptingu byggingarkostnaðar milli einstakra íbúðareigenda."

Um þessa grein segir í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 59/1973, að eðlilegt virðist að aðstoð við byggingarsamvinnufélög og eftirlit með þeim, sem nú sé að mestu í höndum félagsmálaráðuneytisins, en einnig að nokkru leyti í höndum fjármálaráðuneytisins, verði falið þeirri stofnun, sem nú fari með húsnæðismál af hálfu ríkisvaldsins. (Alþt. 1972, A-deild, bls. 760.)

Í 29. grein sömu laga var ákvæði um fjáröflun byggingarsamvinnufélaga, og var í D-lið greinarinnar kveðið á um ríkisábyrgð á veðdeildarlánum Landsbanka Íslands til lífeyrissjóðs eða innlánsstofnunar, sem félli niður, ef bréfin væru framseld.

Í 3. mgr. 30. gr. laganna var það ákvæði, að við stofnun nýs byggingarflokks skyldi kjósa þrjá menn úr hópi þeirra byggjenda til þess að fylgjast með framkvæmdum og fjárreiðum byggingarflokksins. Skyldu þeir hafa aðgang að öllum gögnum félagsins um þeirra byggingarflokk, vera viðstaddir opnun tilboða og fylgjast með samningum við verktaka og enn fremur yfirfara og stimpla með dagsetningu ásamt löggiltum endurskoðanda öll fylgiskjöl og árita reikninga byggingarflokksins. Þannig frá gengnir skyldu reikningar lagðir fyrir fund viðkomandi byggingarflokks til staðfestingar. Í umræðum á Alþingi sagði framsögumaður félagsmálanefndar, sem lagt hefði til, að málsgreininni yrði bætt við, að greinin skýrði sig sjálf. "En það hefur verið talið, að þeir, sem eru í þessum byggingarflokkum, eða þeirra fulltrúar, hafi ekki ævinlega fylgzt nægilega með fjárreiðum og öðru í sambandi við byggingarnar og þetta oft og tíðum valdið misskilningi, sem sé hægt að komast fyrir með þessari reglu". (Alþt. 1972-73, B-deild, dálk. 3362.)

Við setningu laga nr. 51/1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins voru felld úr gildi lög nr. 30/1970, nema V. kafli, sbr. lög nr. 59/1973.

Lög 60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins leystu lög nr. 51/1980 af hólmi, og hafa þau lög ákvæði í VIII. kafla um byggingarsamvinnufélög. Þar segir:

"78. gr.

Byggingarsamvinnufélagi sé aflað fjár:

...

b.

Með lánum skv. 11. gr. laga þessara. Íbúðum, sem byggingarsamvinnufélögum er veitt lán til, skal að jafnaði skila fullgerðum, en þó skal húsnæðismálastjórn veita undanþágu frá því skilyrði ef tryggilega er kveðið á um á hvaða verkstigi lokaáfanga skuli skilað.

...

79. gr.

Byggingarsamvinnufélag skal gera byggingarsamning við félagsmenn áður en framkvæmdir hefjast. Í samningnum skal m.a. kveðið á um greiðslutilhögun, afhendingartíma og viðurlög við vanefndum. Þar skal enn fremur kveðið á um rétt félagsmanna byggingarflokksins til að fylgjast með framkvæmdum á byggingarstigi og vera með í ráðum.

Þegar nýr byggingarflokkur er stofnaður skulu þeir, sem aðild eiga að honum, kjósa þrjá menn úr sínum hópi til þess að fylgjast með framkvæmdum og fjárreiðum byggingarflokksins. Þessir menn skulu hafa aðgang að öllum gögnum félagsins varðandi þeirra byggingarflokk og hafa rétt til að vera viðstaddir opnun tilboða og fylgjast með samningum við verktaka. Enn fremur skulu þeir ásamt löggiltum endurskoðanda yfirfara öll fylgiskjöl og árita reikninga byggingarflokksins. Þannig frágengnir skulu reikningar lagðir fyrir fund viðkomandi byggingarflokks til staðfestingar. Félagsstjórn úrskurðar um skiptingu byggingarkostnaðar milli einstakra íbúðareigenda í samræmi við ákvæði byggingarsamnings og almennar reglur ef til eru.

...

82. gr.

Húsnæðisstofnun ríkisins skal vera stjórnum byggingarsamvinnufélaga til aðstoðar og leiðbeiningar við byggingarframkvæmdir og undirbúning þeirra. ...

Húsnæðisstofnun ríkisins skal hafa eftirlit með framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga. Skal þeim skylt að senda Húsnæðisstofnuninni ársreikninga sína, og jafnan skal hún hafa aðgang að bókhaldi þeirra."

Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 60/1984, segir við allar ofangreindar greinar, að þær séu óbreyttar eða efnislega óbreyttar frá gildandi lögum (Alþt. 1983, A-deild, bls. 883).

Við endurskoðun laganna, sem síðan voru endurútgefin sem lög nr. 86/1988, voru ekki gerðar breytingar á framangreindum ákvæðum. Er b-liður 112. gr. laga nr. 86/1988 samhljóða b-lið 78. gr. laga nr. 60/1984, 2. og 3. mgr. 113. gr. laga nr. 86/1988 samhljóða 2. og 3. mgr. 79. gr. laga nr. 60/1984 og 116. gr. laga nr. 86/1988 samhljóða 82. gr. laga nr. 60/1984.

Fram til ársins 1993 voru ekki gerðar breytingar á lögunum, er þýðingu hafa fyrir mál það, sem hér er til umfjöllunar. Lagabreytingarnar höfðu þó í för með sér breytingar á greinarnúmerum. Þá má geta laga nr. 24/1991, sem bættu nýjum kafla inn í lögin, um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt. Eftir breytinguna eru ákvæði í 138. og 139. gr. laganna um eftirlit Húsnæðisstofnunar með þeim félögum. Í fyrrnefndu greininni eru nákvæm fyrirmæli um, að þegar húsnæðissamvinnufélag sæki um lán úr Byggingarsjóði verkamanna, skuli koma fram ýmis atriði varðandi framkvæmdaáætlun, til þess að Húsnæðisstofnun geti tekið afstöðu til lánveitinga. Í 3. mgr. 139. gr. er síðan ákvæði, samhljóða eftirlitsákvæðinu varðandi byggingarsamvinnufélög.

Árið 1993 voru gerðar nokkrar breytingar á lögunum með lögum nr. 61/1993 og þau síðan endurútgefin sem lög nr. 97/1993. Er vísað til greinarnúmera í samræmi við hin endurútgefnu lög. Í 95. gr. laganna hefur verið felld niður tilvísun til fjáröflunar byggingarsamvinnufélaga með lánum úr Byggingarsjóði ríkisins, en lög nr. 47/1991 námu hið almenna lánakerfi sjóðsins úr gildi, þannig að tilvísunin átti ekki lengur við, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 61/1993 (Alþt. 1992, A-deild, bls. 2670). Féll þá einnig niður ákvæðið um að íbúðum skyldi skila fullgerðum, nema undanþága húsnæðismálastjórnar væri fengin.

Eftir breytinguna eru 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 97/1993 samhljóða 1. og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 60/1984. Þá er 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993 samhljóða 2. mgr. 82. gr. laga nr. 60/1984, en breytingar á 1. mgr. eru þær, að fellt er niður ákvæði um að húsnæðismálastjórn beri að stuðla að því með tilteknum lánum að framkvæmdum sé lokið á sem stystum tíma. Þá er bætt við því ákvæði að gjald skuli koma fyrir leiðbeiningar og aðstoð við stjórnir byggingarsamvinnufélaga.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög er ákvæði samhljóða 1. mgr. 79. gr. laga nr. 60/1984. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er ákvæði, sama efnis og í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 60/1984. Í 9. gr. reglugerðarinnar er ákvæði um gerð framkvæmdaáætlunar og að óheimilt sé að hefja byggingarframkvæmdir fyrr en húsnæðismálastjórn hafi staðfest framkvæmdaáætlun. Í 11. gr. reglugerðarinnar er ákvæði, svo til samhljóða 1. mgr. 82. gr. laga nr. 60/1984, en skýrar kveðið á um að aðstoð húsnæðisstofnunar sé samkvæmt ósk byggingarsamvinnufélagsins sjálfs. 12. gr. reglugerðarinnar er samhljóða 2. mgr. 82. gr. laga nr. 60/1984."

V.

Í forsendum álitsins sagði:

"1.

A kvartar yfir því, að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdum og húsbyggingum 11. áfanga byggingarsamvinnufélagsins Byggingarfélag ungs fólks, Kópavogi.

Eins og áður segir, er mælt svo fyrir í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993, að Húsnæðisstofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga. Fyrir lögfestingu laga nr. 60/1984 skyldi húsnæðisstofnun hafa öruggt eftirlit með framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga. Með lögum nr. 60/1984 var orðið öruggt fellt úr lagatextanum. Af hálfu félagsmálaráðuneytisins er þetta talið benda til þess, að með þessu hafi löggjafinn viljað draga úr eftirlitsskyldu húsnæðisstofnunar með byggingarsamvinnufélögum. Ekki verður þó fallist á, að þetta verði ráðið með fullri vissu, því að í athugasemdum í greinargerð við VIII. kafla frumvarps þess, er varð að lögum nr. 60/1984, segir, að ekki sé lagt til að þar séu gerðar "neinar afgerandi breytingar frá gildandi lögum" (Alþt. 1983, A-deild, bls. 882).

Eins og vikið er nánar að í kafla IV. hér að framan, er ekki að finna nein ummæli í lögskýringargögnum um það, að hvaða þáttum í framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga eftirlit húsnæðisstofnunar eigi að lúta. Ef litið er á 2. málsl. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993, þá kemur þar fram, að byggingarsamvinnufélögum sé skylt að senda húsnæðisstofnuninni ársreikninga sína og að hún skuli jafnan hafa aðgang að bókhaldi þeirra. Með samanburðarskýringu á 1. og 2. málsl. 2. mgr. 99. gr. er eðlilegast að skýra 1. málsl. 2. mgr. 99. gr. svo, að þungamiðja eftirlits húsnæðisstofnunar með byggingarsamvinnufélögum sé fjárhagslegs eðlis.

Við skýringu á því, hve umfangsmikið eftirlitið eigi að vera, ber m.a. að líta til þess, að nú eru það aðallega hagsmunir félaga í byggingarsamvinnufélögum, sem eftirlitinu er ætlað að vernda, en í upphafi var eftirlitið vafalítið einnig til verndar opinberum hagsmunum, þar sem ríkisábyrgð var þá veitt af lánum til byggingarsamvinnufélaga. Við nánari afmörkun á eftirlitinu verður að hafa í huga, að hver byggingarflokkur á að kjósa þrjá menn úr sínum hópi til þess að fylgjast með framkvæmdum og fjárreiðum byggingarflokksins. Þessir menn eiga að hafa aðgang að öllum gögnum félagsins um þeirra byggingarflokk og hafa rétt til að vera viðstaddir opnun tilboða og fylgjast með samningum við verktaka. Ennfremur eiga þeir, ásamt löggiltum endurskoðanda, að yfirfara öll fylgiskjöl og árita reikninga byggingarflokksins, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 97/1993.

Með tilliti til lögmælts hlutverks hinna kosnu eftirlitsmanna og löggilts endurskoðanda, er eðlilegast að skýra eftirlitshlutverk húsnæðisstofnunar svo, að henni beri að ganga eftir því að fá senda ársreikninga byggingarsamvinnufélaga og hafa eftirlit með því, að ársreikningar séu í lögmæltu formi og að reikningar hvers byggingarflokks hafi verið endurskoðaðir og áritaðir af hinum kosnu eftirlitsmönnum og löggiltum endurskoðanda í samræmi við ákvæði 2. mgr. 96. gr. laga nr. 97/1993. Þar sem sérstök ástæða þykir til, getur húsnæðisstofnun ákveðið ítarlegri athugun, en skv. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 97/1993 á húsnæðisstofnun rétt til aðgangs að bókhaldi byggingarsamvinnufélaga.

Ekki verður ráðið af skýringum húsnæðisstofnunar, að hún hafi haft markvisst og reglubundið eftirlit með þeim þáttum, sem hér að framan getur. Aftur á móti hefur hún á ýmsan hátt komið til móts við óskir A. Löggiltum endurskoðanda var falið að kanna bókhald félagsins og eru niðurstöður hans birtar hér að framan í III. kafla. Í tilefni af endurskoðun þessari lagði A fram lista yfir 10 atriði, sem hann taldi þurfa að rannsaka til hlítar. Þar má nefna, að teikningum hefði verið breytt án samráðs við félagsmenn, sem leitt hefði til hækkunar á byggingarverði, að bygging hússins hefði ekki verið boðin út nema að litlu leyti o.fl. Þessi atriði voru ekki rannsökuð af endurskoðanda þeim, er húsnæðisstofnun leitaði til. Fallast má á, að flest þessara atriða séu þess eðlis að fjalla hefði átt um þau á stjórnar- og félagsfundum byggingarsamvinnufélagsins. Fengist þar ekki viðunandi niðurstaða, gat félagsmaður borið réttarágreininginn undir dómstóla. Aftur á móti má benda á, að úr því að húsnæðisstofnun leitaði á annað borð til löggilts endurskoðanda um fjárhagslega endurskoðun hefði verið rétt að hann svaraði þeim lið athugasemda A, er laut að því, hvort byggingarkrani og vinnuskúrar félagsins hefðu verið afskrifaðir með eðlilegum hætti, en A telur, að kraninn og skúrarnir hafi verið seldir á hæsta verði á milli byggingaráfanga og því allar afskriftirnar lent á 11. áfanga.

2.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög skal stjórn byggingarsamvinnufélags láta semja ítarlega áætlun um byggingarframkvæmdir ásamt greinargerð um öflun nauðsynlegs fjármagns til framkvæmdanna, áður en hafist er handa um þær. Er byggingarsamvinnufélagi óheimilt að hefja byggingarframkvæmdir fyrr en húsnæðismálastjórn hefur staðfest framkvæmdaáætlun félagsins. Nær samhljóða ákvæði er að finna í 12. gr. samþykktar fyrir Byggingarfélag ungs fólks, Kópavogi.

Líta verður svo á, að í ákvæðum, sem mæla fyrir um samþykki eða staðfestingu stjórnvalds á ákvörðunum, reglum eða áætlunum annars aðila, felist yfirleitt skylda fyrir umrætt stjórnvald til endurskoðunar eða eftirlits með lögmæti, og í sumum tilvikum hagkvæmni, hlutaðeigandi gernings.

Í samræmi við þessi viðhorf verður að telja að í 9. gr. reglugerðar nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög felist m.a. skylda fyrir húsnæðismálastjórn til þess að hafa eftirlit með því að byggingaráætlun sé í samræmi við lög nr. 97/1993 og reglugerð nr. 90/1985.

Upplýst er, að framkvæmdaáætlun félagsins fyrir 11. áfanga var ekki borin undir húsnæðisstofnun til staðfestingar. Var greinargerð um öflun nauðsynlegs fjármagns til framkvæmdanna því aldrei borin undir húsnæðisstofnun, áður en hafist var handa um byggingu. Af kvörtun A virðist ljóst, að hann telur að mikill fjármagnskostnaður hafi orðið til vegna slæmrar fjárstýringar og vanrækslu stjórnenda byggingarsamvinnufélagsins við öflun hagstæðs lánsfjár.

Í máli þessu verður ekki fjallað um ábyrgð félagsins eða stjórnenda þess á því, að ekki var farið að fyrirmælum 9. gr. reglugerðar nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög og 2. mgr. 12. gr. samþykkta byggingarfélagsins, þar sem það fellur utan valdsviðs umboðsmanns Alþingis skv. lögum nr. 13/1987. Hér kemur því aðeins til athugunar þáttur Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Eins og áður segir, er byggingarsamvinnufélagi óheimilt að hefja byggingarframkvæmdir fyrr en húsnæðismálastjórn hefur staðfest framkvæmdaáætlun félagsins, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 90/1985 og 2. mgr. 12. gr. samþykkta byggingarfélagsins. Þar sem Húsnæðisstofnun ríkisins ber að hafa eftirlit með framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga skv. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993, verður að telja að húsnæðisstofnun hafi borið að benda stjórn félagsins á þennan annmarka, eftir að upplýsingar höfðu borist stofnuninni um hann, með einum eða öðrum hætti, og fylgja því eftir með tiltækum ráðum að úr honum yrði bætt.

3.

Ég tel, að ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993 séu ekki nægilega skýr og af þeim sökum til þess fallin að valda réttaróvissu fyrir byggingarsamvinnufélögin, félaga þeirra og ekki síst Húsnæðisstofnun ríkisins.

Ég tel brýnt að ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins verði endurskoðuð svo og tilsvarandi ákvæði í reglugerð nr. 90/1985 um byggingarsamvinnufélög. Í þessu sambandi vil ég árétta, að mikilvægt er að lagaákvæði um opinbert eftirlit gefi skýrlega til kynna, að hvaða þáttum eftirlitið skuli snúa, hvernig haga beri eftirlitinu, þ. á m. um upplýsingaöflun, og loks til hvaða úrræða stjórnvald geti gripið, ef í ljós kemur að eftirlitsskyld starfsemi er ekki í samræmi við lög.

Af framangreindu tilefni tel ég ástæðu til þess að vekja athygli Alþingis og félagsmálaráðherra á þessum meinbugum á lögum nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."

VI.

Niðurstöðu álits míns, dags. 17. nóvember 1994, dró ég saman með eftirfarandi hætti:

"Það er samkvæmt framansögðu niðurstaða mín, að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi ekki gengið nægilega markvisst og reglubundið eftir því, að henni væru sendir ársreikningar byggingarsamvinnufélaga, þannig að stofnunin gæti rækt eftirlit með því að þeir væru í lögmæltu formi og að reikningar hvers byggingarflokks hefðu verið endurskoðaðir og áritaðir af hinum kosnu eftirlitsmönnum og löggiltum endurskoðanda í samræmi við ákvæði 2. mgr. 96. gr. laga nr. 97/1993. Þá tel ég, að húsnæðisstofnun hafi borið að benda stjórn Byggingarfélags ungs fólks, Kópavogi, á að áætlun um byggingarframkvæmdir ásamt greinargerð um öflun nauðsynlegs fjármagns til framkvæmdanna hefðu ekki verið lagðar fyrir húsnæðisstofnun til staðfestingar, og fylgja því eftir með tiltækum ráðum, að úr þessum annmarka yrði bætt.

Loks er athygli vakin á því, að ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins séu ekki nægilega skýr og því til þess fallin að valda réttaróvissu. Af þeim sökum er álit þetta sent félagsmálaráðherra og Alþingi með vísan til 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmanns Alþingis."

VII.

Með bréfi, dags. 2. maí 1995, óskaði ég eftir upplýsingum félagsmálaráðherra um það, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af áliti mínu. Svar ráðuneytisins, dags. 21. júní 1995, hljóðar svo:

"Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. maí 1995, þar sem spurst er fyrir um það hvort teknar hafi verið einhverjar ákvarðanir í tilefni af áliti yðar, dags. 17. nóvember 1994, í máli [A], en í niðurstöðu þess álits var vakin athygli ráðuneytisins á því að ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins, um eftirlit Húsnæðisstofnunar með byggingarsamvinnufélögum, væru ekki nægilega skýr.

Af þessu tilefni skal upplýst að málefni þetta hefur verið kynnt ráðherra sérstaklega. Tekin verður ákvörðun snemma í haust hvort tekið verði á þessu atriði í frumvarpi og mun yður verða tilkynnt það sérstaklega."