Skattar og gjöld. Afslættir og bætur.

(Mál nr. 6461/2011)

A kvartaði yfir því að vaxtabótum hans hefði verið skuldajafnað á móti meðlagsskuldum hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 90/2003 og reglugerðar nr. 990/2001 þar sem gert er ráð fyrir því að vaxtabætur greiðist rétthafa að því marki sem eftirstöðvum nemi þegar frá hafa verið dregin opinber gjöld til ríkissjóðs, opinber gjöld til sveitarfélaga og vangreidd meðlög til Innheimtustofnunar sveitarfélaga eftir tiltekinni forgangsröð. Umboðsmaður benti á að samkvæmt þessu lyti kvörtun A að fyrirmælum laga og reglugerðar settri með stoð í lögum. Starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum. Umboðsmaður taldi því ekki fyrir hendi skilyrði að lögum til þess að fjalla nánar um kvörtunina.