Skattar og gjöld. Fjármagnstekjuskattur.

(Mál nr. 6391/2011)

A kvartaði yfir því að ríkisskattstjóri hefði ekki annast um gjaldbreytingu er mælt var fyrir um í úrskurði yfirskattanefndar í máli hans. Með úrskurðinum var fallist á kröfu A um að afdregin staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts að tiltekinni fjárhæð vegna endurgreiðslu sveitarfélags fyrir lóð sem A skilaði skyldi falla niður. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 7. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum ríkisskattstjóra kom fram að Reykjavíkurborg yrði ritað bréf og hlutast til um að gjaldbreyting á skilum borgarinnar á fjármagnstekjuskatti færi fram í samræmi við úrskurð yfirskattanefndar og að borgin endurgreiddi A það sem dregið hefði verið af greiðslunni til hans. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtuninni en tók fram að A væri heimilt að leita til sín að nýju yrði frekari óeðlilegur dráttur á leiðréttingunni. Þá ritaði umboðsmaður ríkisskattstjóra bréf og kom þeirri ábendingu á framfæri að rúmlega sjö mánuðir hefðu liðið frá því að úrskurður yfirskattanefndar með beiðni um gjaldbreytingu lá fyrir þar til ríkisskattstjóri ákvað að aðhafast í máli A. Umboðsmaður taldi þann afgreiðslutíma hafa verið of langan og áréttaði mikilvægi þess að gæta vel að málshraða, ekki síst í málum þar sem afgreiðsla máls hefði talsverða fjárhagslega þýðingu fyrir þann sem í hlut ætti.