A kvartaði yfir innheimtu fasteignagjalda, innheimtu vatnsskatts og lögum um brunatryggingar. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í kvörtun A kvaðst hann vilja vekja athygli á að sveitarfélög innheimtu fasteignagjöld eins og um kröfur einkaréttarlegs eðlis væri að ræða og því legðist m.a. innheimtuþóknun lögmanna á greiðsluna þegar innheimtan væri komin í farveg hjá sýslumanni. Þá lýsti hann þeirri skoðun sinni að lög um skyldukaup á brunatryggingum gætu ekki verið í samræmi við lög um mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 11. gr. samningsins og 1. gr. 1. samningsviðauka. Umboðsmaður benti á að af 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 leiddi að til þess að hann gæti fjallað um kvörtun þyrfti hún að beinast að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalda í máli þess sem kvörtun ber fram. Þar sem ekki varð séð að kvörtun A lyti, hvað varðaði innheimtu fasteignagjalda og vatnsskatts, að tiltekinni ákvörðun í máli hans taldi umboðsmaður ekki að lögum skilyrði til þess að taka kvörtunina til frekari meðferðar. Hann taldi þó rétt að benda A á að einstaklingur sem væri ósáttur við ákvörðun er lyti að framkvæmd innheimtu fasteignaskatts eða vatnsskatts gæti leitað til innanríkisráðuneytisins, sbr. 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, og eftir atvikum til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 2. mgr. 25. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Ágreiningur um gjaldstofn fasteignaskatts ætti undir Þjóðskrá Íslands og úrskurði hennar mætti skjóta til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995. Ef viðkomandi einstaklingur teldi úrlausn þessara aðila óviðunandi og sig beittan rangindum gæti hann síðan leitað til umboðsmanns Alþingis. Þá benti umboðsmaður á að af 2. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, yrði ekki ráðið að fortaklaus skylda hvíldi á sveitarstjórn til að haga innheimtu vatnsskatts með sama hætti og innheimtu fasteignaskatts. Einnig tók umboðsmaður fram að það væri almenn regla að kröfuhafi gæti krafið skuldara um þann kostnað sem stafaði af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila skuldara þannig að kröfuhafi yrði skaðlaus. Hvað varðaði skyldu til að brunatryggja húseignir, þá benti umboðsmaður á að skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það væri því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett, t.d. hvort ákvæði laga væru í samræmi við einstök ákvæði stjórnarskrár, nema á grundvelli heimilda samkvæmt 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997 til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort meinbugir væru á settum lögum. Umboðsmaður taldi hins vegar ekki tilefni til beita þeim heimildum sínum vegna málsins.