Skattar og gjöld. Skattaleg heimilisfesti.

(Mál nr. 6486/2011)

A kvartaði yfir málsmeðferð og framkomu ríkisskattstjóra, þ.e. að ríkisskattstjóri hefði hafið mál er varðaði skattalega heimilisfesti A án þess að hafa fullnægt rannsóknarskyldu sinni og gætt meðalhófs, að frestur til andmæla hefði verið skammur eða einungis fimmtán dagar, að bréf þar sem A var boðið að koma að athugasemdum hefði ekki verið sent með ábyrgðarpósti og ekki hefði verið gætt að vönduðum stjórnsýsluháttum, en hann hefði verið ávarpaður í þriðju persónu eintölu með nafni eins og tíðkaðist á öldum áður. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fyrir lá að málið hafði verið fellt niður hjá ríkisskattstjóra að fengnum athugsemdum A. Umboðsmaður taldi því ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á erindinu en benti A á að ef hann teldi ástæðu til gæti hann vakið athygli fjármálaráðherra á ýmsum almennum atriðum sem komu fram í kvörtun hans um málsmeðferð og framkomu ríkisskattstjóra, sbr. 106. gr. laga nr. 90/2003.