Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6375/2011)

A kvartaði yfir því að kjararáð hefði ekki afgreitt erindi vegna kjaramála A og annarra forstöðumanna ríkisstofnana. Í kvörtuninni voru rakin erindi A og Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) til kjararáðs, m.a. varðandi endurskoðun launa og starfskjara forstöðumanna, framkvæmd launalækkunar samkvæmt úrskurði ráðsins, og m.a. gerð athugasemd við að kjararáð hefði leitað til tveggja ráðuneyta vegna erindis A til þess. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum kjararáðs kom fram að niðurstaða málsins varðaði fleiri en félagsmenn FFR, veittar voru upplýsingar um stöðu málsins og að erindum A og FFR yrði svarað að fengnum tilteknum upplýsingum, reyndust þær fullnægjandi til að afgreiða þau. Með vísan til svaranna og þess að málið virtist vera í vinnslu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar að sinni. Með tilliti til þess að kjararáð hafði ekki lokið afgreiðslu á málinu taldi umboðsmaður jafnframt ekki tilefni til að fjalla um þau atriði í erindinu sem lutu að efni málsins og lagagrundvelli. Umboðsmaður tók þó fram að A gæti leitað til sín á nýjan leik teldi hann meðferð og afgreiðslu málsins dragast enn úr hófi eða væri ekki sáttur við endanlega afgreiðslu málsins.