Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6432/2011)

Hinn 10. maí 2011 kvartaði A ehf. yfir því að Samkeppniseftirlitið hefði ekki svarað skriflegu erindi er beint hefði verið til þess 25. nóvember 2010. Í erindinu var óskað upplýsinga um nánar tiltekin atriði varðandi yfirtöku fasteignafyrirtækja. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 7. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum Samkeppniseftirlitsins kom m.a. fram að erindið hefði verið skráð í ábendingakerfi stofnunarinnar en láðst hefði að upplýsa A ehf. um að erindið teldist ekki tækt til formlegrar meðferðar. Farið hefði verið yfir verklag til að tryggja að þetta endurtæki sig ekki. Skýringum til umboðsmanns fylgdi jafnframt svarbréf Samkeppniseftirlitsins til A ehf. Þar sem fyrirspurnarbréfinu hafði verið svarað taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina en benti A ehf. á að ef félagið væri ósátt við viðbrögð Samkeppniseftirlitsins væri því frjálst að leita til sín að nýju.