Ættleiðingar.

(Mál nr. 6442/2011)

A kvartaði yfir því að sýslumaðurinn í Búðardal hefði óskað eftir umsögn ættleiðingarnefndar um umsókn hennar um forsamþykki til að ættleiða barn með sérþarfir. A taldi skorta lagaheimild til að setja umsóknina í það ferli þar sem hún hefði haft gilt forsamþykki til ættleiðingar á barni, gefið út í janúar 2009, og að óheimilt hefði verið að afturkalla eða synja um forsamþykki eingöngu vegna þess að hún hefði tekið ákvörðun um að breyta umsókninni. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í bréfinu benti umboðsmaður á að athugasemdir A beindust að ákvörðun sem sýslumaðurinn tók um málsmeðferð, en slíkar ákvarðanir væru almennt ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds fyrr en mál hefðu verið til lykta leidd, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óskaði hún hins vegar eftir því að koma athugasemdum sínum á framfæri eða eftir atvikum freista þess að kæra ákvörðunina væri réttast að beina slíku erindi til innanríkisráðuneytisins, sbr. lög nr. 130/1999. Á meðan afstaða ráðuneytisins til athugasemdanna lægi ekki fyrir gætið málið ekki komið til umfjöllunar hjá umboðsmanni, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður tók fram að ef A færi þá leið að bera málið undir innanríkisráðuneytið og teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu þess ætti hún þess kost að leita til sín á nýjan leik.