Svör við erindum.

(Mál nr. 6408/2011)

A kvartaði f.h. B yfir því að hafa ekki borist svör frá ríkisskattstjóra við fyrirspurn um hvort B hefði átt að fá sölunótu fyrir nýjum bíl sem hún keypti af X í október 2005. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 3. júní 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum ríkisskattstjóra til umboðsmanns Alþingis vegna málsins kom fram að tiltekinna upplýsinga hefði verið aflað frá X og þær bornar saman við fyrirliggjandi gögn um viðskipti B við fyrirtækið. Þá hygðist ríkisskattstjóri afla nánari upplýsinga frá félaginu. Að lokinni þeirri athugun væri unnt að veita B upplýsingar um niðurstöðu könnunar á skattalegum þætti málsins er varðaði hana sérstaklega. Þess var vænst að upplýsingaöfluninni yrði lokið innan þriggja vikna. Í ljósi skýringanna lauk umboðsmaður athugun sinni.