Avinnuréttindi og atvinnufrelsi. Rekstrarleyfi.

(Mál nr. 6447/2011)

A kvartaði yfir skilyrðum sem hann varð að uppfylla til að hljóta endurnýjun á leyfi til að reka veitingastað í sveitarfélaginu X. Kvörtunin beindist að sveitarfélaginu X, tilteknu sýslumannsembætti, innanríkisráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Í símtali við starfsmanna umboðsmanns kom síðar fram að ætlunin hefði verið að kvarta yfir félags- og tryggingamálaráðuneytinu, nú velferðarráðuneytinu, en ekki umhverfisráðuneytinu. A hafði óskað eftir endurnýjun á rekstrarleyfi og fengið það útgefið hjá sýslumanni til eins árs en var ósáttur við að fá það ekki gefið út til fjögurra ára. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. júlí 2011.

Umboðsmaður taldi að afstaða innanríkisráðuneytisins yrði að liggja fyrir áður en hann gæti fjallað um þann hluta kvörtunarinnar er beindist að sýslumanni, sbr. 26. gr. laga nr. 85/2007 og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Hvað varðaði umsögn byggingarfulltrúa sveitarfélagsins X um umsókn A um rekstrarleyfi, en í henni höfðu verið sett tiltekin skilyrði fyrir samþykkt leyfisins af hálfu fulltrúans, þá benti umboðsmaður A á að honum kynni að vera fær sú leið að bera athugasemdir sínar undir Mannvirkjastofnun, sbr. 18. gr. laga nr. 160/2010, þótt þar væri ekki um að ræða eiginlega kæruleið sem hefði áhrif á fyrirliggjandi niðurstöðu í málinu. Hvað varðaði frávísun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innanríkisráðuneytisins, á kæru A vegna stjórnsýslu sveitarfélagsins X, þá var sú ákvörðun tekin utan við ársfrest skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og því ekki skilyrði að lögum til að taka kvörtunina til meðferðar að því leyti. Þá taldi umboðsmaður, í ljósi 6. tölul. 11. gr. rg. nr. 177/2007, þar sem fram kemur að umhverfisráðuneytið fer með byggingarmál og brunavarnir, og með hliðsjón af ákvæðum 4. og 36. gr. laga nr. 75/2000, ekki forsendur til athugasemda við bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, þar sem kæru A yfir aðgerðum og ákvörðunum slökkviliðsstjóra X var vísað frá og honum bent á að leita til umhverfisráðuneytisins eða, eftir atvikum, Brunamálastofnunar, nú Mannvirkjastofnunar. Að lokum taldi umboðsmaður að sá hluti kvörtunarefnis A sem laut að velferðarráðuneytinu væri ekki nægilega tilgreindur eða studdur nægjanlegum gögnum til að vera tækur til umfjöllunar en tók fram að hefði A frekri athugasemdir og viðeigandi gögn fram að færa gæti hann freistað þess að leita til sín á ný og tilgreina þá hvaða ákvörðun eða athöfn ráðuneytisins kvörtunin beindist að.